133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:32]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var nú þannig að jarðir fóru á undirverði hér áður fyrr og þegar menn voru að bregða búi fengu þeir kannski aðeins verð sem nægði fyrir lítilli kjallaraíbúð fyrir ævistarfið. Það var ekki gott. Nú er það þannig í jarðalögunum að sveitarfélögin hafa ekki lengur forkaupsrétt, sveitarstjórnir ráða því í rauninni ekki hverjir koma í sveitarfélögin.

Að tala um einhverja hestaeigendur eða nýríka einstaklinga með lítilsvirðingu tel ég vera fyrir neðan allar hellur. Það er skoðun mín að þeir sem hafa verið að kaupa jarðir úti á landi, byggja þar upp myndarlega hestabúgarða, byggja jarðirnar myndarlega upp þó að þeir búi ekki með kýr og kindur, hafi verið nýtt blóð fyrir sveitirnar. Þetta fólk flytur þangað, byggir upp jarðirnar, hugsar vel um þær, tekur þátt í mannlífinu í sveitinni og styrkir sveitirnar. Ef við ætlum að hafa einhverja framþróun í landbúnaði megum við ekki staðna og að það sé búið á hverjum einasta bæ með kýr og kindur eins og fyrir 30 árum. Það er svo margt annað. Það eru gríðarlega margir skógarbændur í landinu í dag og núverandi ríkisstjórn hefur svo sannarlega staðið vel við bakið á því sem skiptir ekki litlu máli þegar við tölum um Kyoto-bókun og umhverfismál. Það er aukin landgræðsla. Ég vil líka nefna hlunnindin sem eru í lax- og silungsveiði. Allt skiptir þetta miklu máli.

Síðan vildi ég segja að lokum, af því að hv. þingmaður talar mikið um lækkun á matarverði, að ríkisstjórnin er að standa við loforð sín um að lækka virðisaukaskattinn niður í 7%, verið er að fella niður aðflutningsgjöld og auka tollkvóta inn í landið.