133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:34]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þýðir ekkert að æsa sig við mig þegar ég minnist á málflutning sem hefur farið fram á vettvangi sveitarfélaganna þar sem menn hafa látið í ljós áhyggjur yfir þessari þróun. Það er auðvitað alveg ljóst enda þótt hestabúgarðar séu gott mál, og ég hef komið a.m.k. að slíkum, og eigendur þeirra sjái vel um landið o.s.frv., ef það á að verða þannig smátt og smátt, eins og hæstv. landbúnaðarráðherra sagði áðan, að unnt verði að stækka búin og menn geri sig tilbúna til að taka við aukinni samkeppni að of seint er að ætla að stækka búin ef hestabúgarður er þar fyrir sem menn hefðu viljað stækka land sitt. (DrH: Á að setja kvaðir á …?) Það er ekki hægt, ég er ekki að tala um kvaðir, ég er ekki að biðja um kvaðir, þvert á móti. Ég er að draga það fram að núverandi ríkisstjórn stendur gegn framförum á þessu sviði. (DrH: Nei, hún gerir það ekki.) Ríkisstjórnin heldur áfram að gera búvörusamninga upp á 3,3 milljarða á ári án framsýni, án þess að tengja þá breytingum á kringumstæðum sauðfjárbænda, án þess að hjálpa þeim að þróast til að geta mætt aukinni samkeppni þegar hún kemur eftir þrjú, fimm eða sjö ár. Þvert á móti er haldið í viðjum óbreyttri stöðu sem er miklu verra. Ég er ekki að tala um að setja einhver mörk á þetta, ég er aðeins að benda á hvað gerist á meðan þröngsýnin ræður ríkjum.