133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[18:04]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi klofninginn í Samfylkingunni. Það er rétt að við misstum einn mann útbyrðis fyrir ekki alls löngu og það má kalla það klofning ef svo ber undir. Sá klofningur varð þó miklu minni en hjá Framsóknarflokknum nýlega, a.m.k. ef við miðum við stærð flokkanna og hve mikið munar um hvern einstakling sem dettur útbyrðis. (Gripið fram í.) Og reynsluna já.

Ég ætla að lesa upp 2. tölulið í tillögu til þingsályktunar frá Samfylkingunni um aðgerðir til að lækka matarverð. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Tollar á matvæli verði felldir niður í áföngum og við það miðað að 1. júlí nk. verði helmingur þeirra afnuminn. Niðurfelling eftirstandandi tolla verði ákveðin að höfðu samráði við hagsmunasamtök bænda og neytenda.“

Í 4. tölulið er síðan ítrekaður sá ásetningur okkar að hafa samráð við bændur. Það var nefnilega það sem við ætluðum að gera allan tímann og það er meira en ríkisstjórnin lýsti nokkru sinni yfir, auk þess sem við ætluðum að styrkja samkeppnis- og verðlagseftirlit sem er, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, ákaflega mikilvægt mál.