133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[18:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulega forseti. Ég ætla aðeins að leggja nokkur orð inn í þessa umræðu um frumvarp sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur flutt um breytingu á lagaákvæðum er varða tollkvóta við innflutning landbúnaðarafurða.

Eins og komið hefur fram í umræðunni snýst þetta fyrst og fremst um viðskiptasamninga, þ.e. samninga á milli Íslands og Evrópusambandsins um gagnkvæmar skuldbindingar, þ.e. niðurfellingar á innflutningsgjöldum, annars vegar á vörum til Evrópusambandsins frá Íslandi og hins vegar til Íslands frá Evrópusambandinu. Þetta lýtur að ákveðnu magni landbúnaðarvara, eins og komið hefur fram og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir, þ.e. af nautakjöti, svínakjöti, rjúpum, osti og smjöri. Þetta eru helstu vöruflokkarnir og gegn því fáum við líka aukinn útflutningsrétt á vörum, m.a. landbúnaðarvörum til annarra landa.

Þó að þarna séu felldir niður tollar á innflutningi í ákveðnum vöruflokkum hefur þessi breyting í sjálfu sér engin teljandi áhrif á verðlag innan lands sem slík og þó að maður gæti haldið að hún virkaði eitthvað til lækkunar er svo stór hluti af verðmynduninni sem liggur að baki vörunnar þegar hún er seld úr búð hér á landi öðruvísi til komin en þessir umræddu tollar þó að þeir hafi að sjálfsögðu líka áhrif. Það er annað sem er miklu alvarlegra þar eins og oft hefur komið fram í umræðu um matvælaverð hér á landi og það er hin mikla fákeppni sem er orðin á matvælamarkaðnum. Það eru nánast orðnir einn eða tveir aðilar, í mesta lagi þrír, sem ráða matvælamarkaðnum og geta þess vegna að því er virðist ráðið verðinu og það virðist afar erfitt að sporna við því. Fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, skipaði nefnd sem skila átti tillögum um aðgerðir til lækkunar matarverðs. Hún tapaði sér í því að leita að landbúnaðarvörum sem eina sökudólgnum fyrir háu matvælaverði á Íslandi en fór ekki ofan í þau atriði sem skipta kannski mestu máli, þ.e. tilhögun verslunar og viðskipta hér á landi, fákeppni og einokunartilburði í umsetningu á vörum og hvaða áhrif það hefur á vöruverð. Þetta var svona til að nefna það hér að menn mega ekki týna sér í umræðu sem skiptir ekki meginmáli þó allt hafi þetta áhrif.

Ég vil taka undir það sem hér var sagt um mikilvægi landbúnaðarins og matvælaframleiðslunnar hér á landi og þá gríðarlegu möguleika sem við eigum þar ónýtta og sem við þurfum að standa vörð um. Við þurfum því að gæta þess vandlega að aðgerðir sem við gerum hér, lagaaðgerðir eða reglugerðaraðgerðir, verði ekki til þess að hindra eða takmarka þróunarmöguleika íslensks landbúnaðar. Íslenskur landbúnaður og möguleiki hans til framtíðar er ein af meginauðlindum þjóðarinnar.

Við þurfum líka að huga að því þegar verið er að opna fyrir aukinn innflutning á landbúnaðarvörum eins og hér er verið að gera að þá verður að horfa mjög stíft á gæði þeirrar vöru sem verið er að flytja inn. Í því felast hagsmunir neytenda að þær vörur sem hér eru á markaði, hvort sem þær eru framleiddar innan lands eða fluttar inn erlendis frá, séu gæðavörur og uppfylli ýtrustu kröfur sem við gerum um hollustu og heilbrigði. Þetta finnst mér vera meginmálið. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra þar sem við erum að opna hér fyrir aukinn innflutning á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandslöndunum: Hvaða kröfur eru gerðar um upprunavottorð á þeim landbúnaðarvörum sem verið er að opna heimild fyrir innflutning á? Við gerum strangar kröfur innan lands um gæðaeftirlit og framleiðslueftirlit og vaxandi kröfur um rekjanleika vörunnar alveg til framleiðandans. Því spyr ég: Gerum við ekki sömu kröfur til innfluttra vara þegar farið er að leyfa innflutning hingað á kjúklingum í gámum erlendis frá? Getum við þá með sama hætti rakið uppruna þessara kjúklinga eins og við gerum kröfu til um íslenska vöru einmitt með hagsmuni neytenda í huga?

Þegar við leyfum innflutning á nautakjöti erlendis frá samkvæmt þessum heimildum, gerum við sömu kröfur þar um rekjanleika vörunnar, upprunavottorð, hjá hvaða bónda varan er framleidd eins og við gerum hér á landi? Sé það ekki gert með tryggilegum hætti erum við að mismuna framleiðendum, íslenskum framleiðendum og þessum erlendu, og það sem er alvarlegra við getum þá ekki tryggt þau gæði vörunnar sem við erum almennt að reyna að lofa neytendum að við ætlum að standa við og gerum m.a. í íslenskri framleiðslu.

Hvaða tryggingu höfum við t.d. fyrir því að gámur af kjúklingum sem verið er að flytja til landsins hafi ekki átt tímabunda viðkomu á hafnarbakka í einhverju Evrópulandi en sé í rauninni kominn frá Asíu, Suður-Ameríku eða Afríku, án þess að ég ætli að tala neitt sérstaklega um að það þurfi endilega að vera eitthvað verra? Við leggjum ríka áherslu á að vara sem hér er á boðstólum, landbúnaðarvörur, uppfylli ýtrustu gæði um hollustu og heilbrigði, um rekjanleika, að við getum rakið feril vörunnar til bóndans. Ég spyr: Getum við gert það þarna? Þetta er gríðarlega mikilvægt því að við vitum að einmitt á þessum mörkuðum — ég get nefnt dæmi um það ef ráðherra vill en ég veit að hann þekkir það líka — er verið að bjóða landbúnaðarvörur, m.a. á evrópskum mörkuðum, sem alls ekki uppfylla þær hollustu- og heilbrigðiskröfur sem við gerum. Var ekki verið að fjalla um það í fréttum nýverið að menn veltu kjúklingum upp úr einhverri saltvatnsblöndu til að auka þyngd þeirra? Mig minnir það. Ekki var það liður í hollustunni eða til að bæta vörugæðin? Ég vara við því að menn gefi eftir í vörugæðum við innflutning á vöru sem við framleiðum miklu betur sjálf. Í því eru miklir hagsmunir neytenda fólgnir og einnig framleiðslu okkar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki óbreytt að við séum undanþegin því að vera aðilar að hinu evrópska markaðssvæði hvað varðar verslun með dýr og dýraafurðir, því að þegar samningurinn við Evrópusambandið var gerður, EES-samningurinn, var viðauki við hann sem kvað á um það að Ísland væri ekki aðili að verslunar- og markaðssamstarfi Evrópu um landbúnaðarvörur. Ákveðið var að við stæðum fyrir utan það, værum ekki aðili að innri markaði Evrópu hvað landbúnaðarvörur varðaði. Sérstaklega var það gert með tilliti til þess að geta staðið vörð um hollustu og heilbrigði íslenskra vara og íslenskrar landbúnaðarframleiðslu til að eiga ekki á hættu að hingað væru fluttar inn vörur sem gætu leitt til smits í íslenskri landbúnaðarframleiðslu. Ég spyr hver sé hugur ráðherra. Þetta voru á sínum tíma tímabundin ákvæði að við gerðumst ekki aðilar að innri markaði Evrópu hvað landbúnaðarvörur varðaði, við vorum þar með sérstöðu sem t.d. Norðmenn voru ekki. Við höfðum þessa sérstöðu sem skiptir okkur miklu máli því að ef við hefðum gerst aðilar að þessu innra markaðssvæði Evrópu hvað landbúnaðarvörur varðar hefði það þrengt miklu meira að okkur með að flytja út landbúnaðarvörur, t.d. eru Bandaríkin mjög ströng varðandi innflutning á landbúnaðarvörum og fleiri lönd ef slíkt heimaeftirlit er ekki í lagi.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta önnur en að leggja áherslu á hversu mikilvægt það er að við stöndum vörð um hollustu og heilbrigði íslenskrar landbúnaðarframleiðslu og tökum þar ekki áhættu. Í því liggja bæði hagsmunir íslensks landbúnaðar og íslenskrar landbúnaðarframleiðslu og ekki hvað síst neytenda sem við getum verið stolt af að hafa sem markmið til að standa vörð um.

Ég ítreka svo það sem ég sagði í upphafi að aðgerðir okkar hvað varðar landbúnað og landbúnaðarframleiðslu þurfa að miða að því að við ætlum að styrkja og efla íslenskan landbúnað og framleiðslu landbúnaðarvara og neytendavernd, þannig að hér á landi séu á markaði einungis fyrsta flokks vörur sem neytendur geti treyst. Í því felst framtíðarstyrkur íslensks landbúnaðar, við megum ekki taka neina áhættu hvað það varðar að fórna þeim hagsmunum á nokkurn hátt, sem ég vona að sé ekki heldur verið að gera með þessu frumvarpi, en góða vísa er aldrei of oft kveðin. Menn geta freistast til að gefa eftir í gæðaeftirliti og gæðakröfum ef þeir sjá að þeir geti sparað sér einhverjar krónur tímabundið. Þegar til lengri tíma er litið eru hagsmunir neytenda og bænda og landbúnaðarframleiðslunnar fyrst og fremst þeir að hér sé holl og heilbrigð vara á markaði og við þurfum að gera sömu kröfur og ekki minni kröfur til þeirrar vöru sem flutt er inn en þeirrar vöru sem við framleiðum hér á landi. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Er tryggt að þær landbúnaðarvörur sem hér er verið að heimila innflutning á og fella niður tollkvóta á uppfylli allar þær kröfur sem við gerum til rekjanleika, heilbrigðis og hollustu í landbúnaðarvörum, gilda þær líka fyrir þær innfluttu?