133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[18:27]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að horfa til öryggisins og gæðanna. Ég er t.d. þeirrar skoðunar hvað Íslendinga varðar, sem búa við það hágæðamatvælaborð sem við eigum og vissulega sjáum við nú meiri innflutning á erlendum vörum, kjötvörum, í gegnum alþjóðasamninga og fríverslun, að það ætti að vera réttur neytenda á Íslandi að allar kjötvörur í verslunum, á hótelum og matsölustöðum væru merktar því landi sem þær koma frá. Íslenskir bændur eiga að ganga í það strax eins og garðyrkjubændur að merkja kjötvörur sínar hvar sem er. Ef við förum á Hótel Sögu eða einhvern annan stað til að borða á það auðvitað að liggja fyrir hvaðan nautakjötið er sem þar er borðað eða kjúklingurinn eða svínið. Þetta gera kröfuhörð lönd og mér finnst það í sjálfu sér vera réttur okkar og að við eigum að gera þær kröfur til verslunarinnar. Ég trúi því að bændur landsins sem framleiða þessar hágæðavörur, sem íslenskir neytendur dásama og útlendingar viðurkenna í vaxandi mæli sem einhverjar bestu vörur heimsins, merki þær þannig að menn viti frá hvaða þjóðlandi rétturinn er sem á boðstólum er í hvert sinn.