133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

vextir og verðtrygging.

618. mál
[18:31]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum.

Frumvarpinu er ætlað að bregðast við nýjum verðsöfnunartíma vísitölu neysluverðs vegna innleiðingar á reglugerð frá Evrópusambandinu en gerðin mælir fyrir um samræmt tímabil fyrir söfnun verðupplýsinga fyrir hina samræmdu neysluverðsvísitölu EES-svæðisins. Málið er á þskj. 918, mál 618.

Í dag reiknar Hagstofa Íslands út vísitölu neysluverðs miðað við verðlag tvo fyrstu virka daga hvers mánaðar og er útreikningur samræmdu EES-vísitölunnar fyrir Ísland miðaður við sama tímabil. Greind reglugerð frá ESB mælir hins vegar fyrir um að frá og með 1. janúar 2008 skuli verðupplýsingum safnað í a.m.k. vikutíma um miðjan hvern mánuð. Þar sem ekki kemur til álita hér á landi að reikna út tvær mismunandi neysluverðsvísitölur er óhjákvæmilegt að laga verðsöfnunartíma vísitölu neysluverðs að hinum nýju Evrópuákvæðum. Þessi breyting á söfnunartíma vísitölu neysluverðs gerir það að verkum að ákvæði laga um vexti og verðtryggingu geta ekki staðið óbreytt. Ástæðan er sú að tíminn frá birtingu vísitölunnar í lok hvers mánaðar til gildistöku hennar verður einfaldlega of stuttur. Er þá sérstaklega haft í huga að ekki mun gefast tími til að senda út innheimtuseðla vegna þeirra fjárskuldbindinga sem eru á gjalddaga fyrstu daga mánaðarins. Í frumvarpi því sem hér liggur fyrir er því lagt til að skýrt verði kveðið á um tímatafir milli útreiknings vísitölu neysluverðs og beitingar hennar til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár, þ.e. ekki frá fyrsta degi strax næsta mánaðar heldur næsta mánaðar þar á eftir.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki þörf á að lýsa frekar efni frumvarpsins en að lokinni þessari umræðu mælist ég til þess að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.