133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

breytingar á ýmsum lögum vegna neytendaverndar.

617. mál
[18:40]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd. Málið er á þskj. 917, mál 617.

Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd sem er 616. mál þingsins. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem nauðsynlegt er að gera til að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB), nr. 2006/2004, frá 27. október 2004, um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd.

Miða breytingarnar að því að tryggja að stjórnvöld þau sem fara með framkvæmd þeirra laga sem reglugerðin tekur til og tilnefnd hafa verið af Íslands hálfu sem lögbær stjórnvöld, hafi þær heimildir sem reglugerðin gerir kröfu um.

Þau stjórnvöld sem tilnefnd hafa verið sem lögbær stjórnvöld af Íslands hálfu á grundvelli ákvæða reglugerðar samvinnu um neytendavernd eru Neytendastofa, Fjármálaeftirlitið, Lyfjastofnun, Flugmálastjórn Íslands og útvarpsréttarnefnd. Neytendastofa var jafnframt tilnefnd miðlæg tengiskrifstofa.

Þær lágmarksrannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld skulu hafa samkvæmt reglugerð nr. 2006/2004 skulu í fyrsta lagi fela í sér heimild stjórnvalds til að fá aðgang að hvers konar viðeigandi skjölum, í hvaða formi sem er, sem tengjast viðkomandi broti innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í öðru lagi skulu lögbær stjórnvöld hafa heimildir til að krefjast þess af hvaða einstaklingi sem er að hann leggi fram viðeigandi upplýsingar í tengslum við brot innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þriðja lagi skulu lögbær stjórnvöld hafa heimild til að framkvæma vettvangsskoðun. Í fjórða lagi eiga lögbær stjórnvöld að hafa heimild til að krefjast þess skriflega að viðkomandi seljandi eða birgir láti af broti innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í fimmta lagi skulu lögbær stjórnvöld hafa heimild til að fá hjá seljanda eða birgi, sem gerst hefur sekur um brot innan Evrópska efnahagssvæðisins, loforð um að hann láti af því broti og, eftir því sem við á, birta þau loforð. Í sjötta lagi skulu lögbær stjórnvöld hafa heimild til að krefjast stöðvunar eða banns við öllum brotum innan Evrópska efnahagssvæðisins og, eftir því sem við á, birta þær ákvarðanir sem eru teknar í málinu. Loks skulu lögbær stjórnvöld hafa heimild til að krefjast þess að brotlegur aðili greiði sekt ef hann fer ekki að ákvörðun sem er tekin.

Misjafnt er hvaða rannsóknar- og eftirlitsheimildir lögbær stjórnvöld hafa nú þegar samkvæmt lögum, en í frumvarpinu er lagt til að þeim verði veittar þær heimildir sem upp á vantar vegna innleiðingar reglugerðar um samvinnu um neytendavernd. Þó er gert ráð fyrir að lögbærum stjórnvöldum verði aðeins heimilað að beita þeim rannsóknar- og eftirlitsheimildum sem lagt er til að þeim verði veittar í frumvarpi þessu í þeim málum sem falla innan ramma reglugerðarinnar. Reyndar er lagt til að heimildir Neytendastofu verði almennari þar sem stofnunin fer með framkvæmd flestra laga á sviði neytendaverndar og gegnir hlutverki miðlægrar tengiskrifstofu, eins og áður hefur komið fram. Lögbærum stjórnvöldum ber einnig á grundvelli reglugerðarinnar að veita erlendum lögbærum stjórnvöldum ákveðnar upplýsingar vegna mála er varða brot á neytendalöggjöf yfir landamæri. Þess vegna er nauðsynlegt að setja í lög ákvæði sem heimila lögbærum stjórnvöldum slík upplýsingaskipti. Reglugerðin hefur þegar öðlast gildi og þarf því að innleiða hana í íslenskan rétt sem fyrst.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.