133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

úrvinnslugjald.

451. mál
[19:01]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég met þetta svo að hv. þm. Jóhanni Ársælssyni sé umhugað um og hafi áhuga á að sjá til þess að við endurnýtum sem mest og þar með talinn pappír, hvort heldur það er dagblaðapappír eða annað.

Eins og ég nefndi áðan tókum við þetta frumvarp upp núna, eins og á síðasta ári, fyrst og fremst á þeim forsendum að ganga frá hefðbundnum breytingum á gjaldskrá eftir því hvernig reynslan hefur verið hvað þá hluti varðar. Ég verð bara að gangast við því, virðulegi forseti, að þurfa að fletta aðeins upp í þeim fræðum sem hv. þingmaður vísaði í varðandi dagblaðapappírinn. Við höfum tekið góða umræðu um þetta í nefndinni, við gerðum það í upphafi kjörtímabilsins þegar við skoðuðum þessi mál í fyrsta skipti. Sem betur fer er þó nokkuð mikil söfnun í dagblaðapappír en betur má ef duga skal í því eins og svo mörgu öðru. Ef við ætlum að taka þá umræðu dýpra held ég að við þurfum að taka hana einhvern tímann seinna sem er auðvitað sjálfsagt að gera því að úrvinnslu- og endurvinnslumálin eru stór málaflokkur og afskaplega mikilvægt, ef við ætlum að vera í fremstu röð hvað þau varðar, að við setjum markið hátt. Þar er að mörgu að hyggja, hv. þm. Jóhann Ársælsson nefnir hér dagblaðapappírinn en það er ýmislegt annað sem mætti skoða. Það er t.d. athyglisvert að við erum, held ég, ein af fáum þjóðum í heiminum þar sem almenna reglan er sú að sveitarfélög niðurgreiða sorphirðu, þ.e. af útsvari, sem er örugglega ekki til þess að ýta undir endurnýtingu og endurvinnslu svo eitthvað sé nefnt.