133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tekjuskattur.

35. mál
[19:39]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Magnús Þór Hafsteinsson og Sigurjón Þórðarson.

Í 1. gr. frumvarpsins segir svo: Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, 2. tölul., sem orðast svo: Útgjöld vegna sannanlegs ferðakostnaðar til og frá vinnu sem er umfram 120.000 kr. á ári en þó aldrei hærri en 400.000 kr. á ári og er í samræmi við matsreglur fjármálaráðherra.

2. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007 og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2008.

Frumvarpinu fylgir svofelld stutt greinargerð, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta var áður flutt á 130., 131. og 132. löggjafarþingi. Hér er lagt til að kostnaður manna við ferðir til og frá vinnu sem er umfram 120.000 kr. verði frádráttarbær frá tekjum áður en til skattlagningar kemur, þó að hámarki 400.000 kr. á ári. Við framkvæmd ákvæðisins er gert ráð fyrir að sambærilegar reglur gildi um sönnun á útlögðum kostnaði og gilda um sönnun á kostnaði á móti ökutækjastyrkjum.“ — Eins og menn vita er heimilt að draga frá kostnað við rekstur ökutækis þegar menn nota ökutæki sitt til ferða í þágu atvinnurekanda eða til ferðalaga á vegum atvinnurekanda, enda njóti þá viðkomandi ökutækjastyrks. Þá geta menn notað kostnað á móti því.

Við leggjum til að frádráttarheimildin, sem menn þurfa að færa sönnur á að hafi orðið til staðar við það að afla tekna eða sækja um atvinnu, sé heimil að því gefnu að gerð sé grein fyrir henni og hún talin fram og þá meðhöndluð með svipuðum hætti og ef um ökutækjastyrk væri að ræða, þ.e. frádráttur á móti ökutækjastyrk. Hér er um sanngirnismál að ræða enda um að ræða kostnað sem til fellur við öflun atvinnutekna. Eins og frumvarpið er fram sett er markmiðið einkum að koma til móts við þá sem þurfa að sækja vinnu um langan veg og bera af því mikinn kostnað.

Frumvarp þetta samrýmist vel þeirri stefnu sem haldið hefur verið á lofti í byggðamálum og felst í því að stækka atvinnusvæði á landsbyggðinni. Mikill ferðakostnaður getur hamlað slíkri þróun og er til þess fallinn að draga úr samkeppnishæfni byggðarlaga um vinnuafl. Mikill ferðakostnaður getur einnig virkað vinnuletjandi með þeim afleiðingum að menn sjá hag sínum betur borgið í því að þiggja atvinnuleysisbætur en að sækja vinnu í næsta byggðarlag.

Þess má geta að í Noregi eru í gildi reglur um skattalega ívilnun til þeirra sem bera mikinn kostnað af ferðalögum til og frá vinnu en aðstæður þar eru að mörgu leyti svipaðar og hér á landi.

Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2007 og komi til framkvæmda við álagningu árið 2008, þ.e. menn eiga að halda þessum kostnaði til haga og fá hann ekki metinn fyrr en við álagningu á árinu 2008.

Hæstv. forseti. Þetta er meginefni málsins. Við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum flutt þetta mál nokkrum sinnum á undanförnum þingum og flytjum þetta einu sinni enn. Við teljum að um ákveðið samkeppnismál sé að ræða. Þetta er líka mál sem gæti orðið til þess t.d. að draga úr því að einstaklingur stofni einkahlutafélag um sína eigin atvinnustarfsemi. Þegar slíkt hefur verið gert má hann draga þann ferðakostnað frá sem hann þarf að leggja út til að stunda atvinnu sína. Launþegi, sem vinnur nákvæmlega sama starf og ferðast með sams konar hætti og einstaklingsatvinnurekandinn, stundar jafnvel sömu vinnu og á svipuðum svæðum, fær ekki þennan kostnað metinn að neinu leyti eins og lögin eru í dag. Við leggjum heimildina til til að auka jafnræði og einnig til að hvetja til þess að fólk geti sótt atvinnu á milli byggðarlaga ef svo háttar til. Að venjulegur launþegi fái þann kostnað sem hann leggur fram við að sækja atvinnu sína dreginn frá áður en skattlagning kemur til. Sá frádráttur sem við leggjum til er þó með hámarki, þ.e. við leggjum til að hámarksfrádrátturinn sé 400.000 kr. á ári.

Við teljum að þetta sé réttlætismál að ákveðnu leyti vegna þess að verið er að ýta undir að fólk geti sótt sér atvinnu. Þetta getur orðið til þess að menn velji, eins og fram kom í greinargerðinni sem ég las áðan, að sækja vinnu frekar en að fá kannski atvinnuleysisbætur sem þeir eiga vissulega rétt á vegna þess að atvinnan er ekki til staðar í því byggðarlagi sem menn búa í. Eða þá að menn hafa tapað atvinnu þar vegna breytinga, svo sem vegna tilflutninga á útgerð eða vegna þess að ákveðin atvinnustarfsemi hefur lagst niður eins og mörg dæmi eru um, hæstv. forseti. Við höfum margflutt málið og vonumst til þess að smátt og smátt holi dropinn steininn og menn skilji að í þessu felst ákveðið réttlæti.

Við höfum líka vitnað til þess, hæstv. forseti, að nákvæmlega sams konar fyrirkomulag er þekkt í öðrum löndum. Við erum því ekki að leggja til nýmæli miðað við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Þar mega menn draga kostnað vegna atvinnusóknar frá tekjum áður en á þær er lagður tekjuskattur vegna tekna af viðkomandi atvinnustarfsemi.

Við þekkjum nokkur dæmi þess úr hinu daglega lífi að fólk stundar atvinnu um langan veg. Ég veit til þess að fólk hefur reynt að stunda atvinnu í álverinu í Hvalfirði búandi norður í Hrútafirði. Það er allnokkurt ferðalag og menn fara það helst ekki daglega. En ef menn fara þetta kannski einu sinni eða tvisvar í viku fylgir því verulegur kostnaður. Atvinnusóknin verður það dýr að menn sjá sér kannski ekki hag í því að sækja þá atvinnu þótt hún sé í boði. Sama má segja um vaxandi atvinnusvæði eins og Borgarfjörð. Það mætti hugsa sér að fólk norðan úr Húnavatnssýslum gæti sótt atvinnu þangað ef því byðist vinna á því sviði sem hentaði því. En þá er það nákvæmlega sama uppi á teningnum, ekki er nein heimild til þess að meta þann kostnað sem lagt er í við það að sækja atvinnuna. Vafalaust má finna mörg fleiri dæmi. Það má t.d. minna á að við opnun Fáskrúðsfjarðarganga er komin ferðaleið fyrir fólk á Fáskrúðsfirði til að stunda atvinnu á Reyðarfirði og jafnvel fólk sem býr sunnar en á Fáskrúðsfirði. Þó þar sé vissulega um talsverðar vegalengdir að ræða mundi ákvæði af þessu tagi m.a. hjálpa upp á það að atvinnusóknin gæti orðið víðar af fjörðunum inn á þau atvinnusvæði — og atvinnutækifæri sem ef til vill bjóðast við álverið á Reyðarfirði eða hliðartengdri starfsemi á komandi árum sem gætu þar skapast.

Við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum talið það hlutverk okkar m.a. að reyna eftir fremsta megni að stuðla að því að fleiri atvinnutækifæri séu til boða á landsbyggðinni og höfum talið að útfærsla af þessu tagi gæti hjálpað til þess að atvinnusókn milli staða sem ekki lægju mjög fjarri hver öðrum gæti verið raunhæfur kostur. Hún er það alls ekki í dag ef fólk þarf að ferðast dags daglega 50–60 km leið til atvinnusóknar, þ.e. yfir 100 km á dag, þó svo að atvinnan sé í boði. Þess vegna teljum við, hæstv. forseti, um ákveðið sanngirnismál að ræða og væntum þess að þegar málið fer í nefnd fái það verðuga umfjöllun og menn skilji þau sjónarmið sem við mælum fyrir.

Margt hefur verið talað um atvinnusókn á landsbyggðinni og ýmsa örðugleika sem komið hafa upp í atvinnulífi þar á undanförnum árum þar sem fólk hefur þurft að mæta ýmsum skakkaföllum. Við höfum litið svo á að hér væri verið að stíga ákveðið skref til að mæta því. Við erum hins vegar ekki að einskorða þetta við farartæki, við notum krónutöluupphæð í stað þess að nota kílómetra, flugfarseðla eða ferðaseðla með ferjum eða öðrum samgöngutækjum, þess vegna hópferðabílum eða rútum. Við teljum eðlilegra að útfæra þetta með þessum hætti, að hafa krónutöluna en að ákveða fyrir fram að ákveðinn ferðamáti sé eingöngu heimilaður til að slíkt frádrag fáist. Þess vegna miðum við þetta við krónutölu en ekki ekna kílómetra t.d. þó að við bendum á reglurnar um ökutækjastyrk og frádrátt vegna ferðalaga sem dæmi um það að slíkt fyrirkomulag er heimilt í lögunum þegar um atvinnurekanda eða einstakling er að ræða sem ferðast beinlínis á vegum fyrirtækis síns og fær greiddan ökutækjastyrk.

Ég veit að þetta þekkja alþingismenn ágætlega. Þeir fá greiddan ökutækjastyrk fyrir ákveðin ferðalög í sitt kjördæmi o.s.frv. Þetta er alþekkt í kerfinu, í ríkiskerfinu er það alþekkt að ríkið greiðir ferðakostnað og ökutækjastyrk til þeirra aðila sem ferðast á vegum ríkisins í embættiserindum eða störfum. Hið sama á við um atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði þar sem menn ferðast á þeirra vegum. Frádráttarheimildin er því þekkt og vinnulagið við að framkvæma þetta í sambandi við skattskýrslur og í skattkerfinu. Þetta er allt þekkt. Eins og ég gat um áður er þetta þekkt í öðrum löndum og ekki neitt nýmæli þar og er beinlínis heimilað fyrir launþega. Hér á landi hefur þetta ekki verið heimilað fyrir launþega og menn hafa sumir farið þá leið að stofna einkahlutafélag um sjálfa sig til að fá kostnaðinn dreginn frá. Því fylgja auðvitað ýmsar hliðarráðstafanir eins og menn vita varðandi útsvarsgreiðslur til sveitarfélaga, lægri tekjur þegar upp er staðið o.s.frv. Um þetta hafa sveitarfélögin ályktað varðandi tekjustofna sína, að mikill fjöldi einkahlutafélaga hafi áhrif á afkomu þeirra og tekjur til lækkunar. Æskilegt væri að það sem við leggjum til fengi samþykki hér á hv. Alþingi og þetta væri heimilað. Það mundi auka atvinnusóknina og ég held að það mundi einnig auka tekjur sveitarfélaga vegna þess að menn væru þá ekki að nota sér þær forsendur sem skattalögin bjóða vissulega upp á varðandi einkahlutafélögin.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti. Ég vænti þess að menn fari að skoða málið í alvöru. Mér hefur fundist svolítið á skorta á undanförnum árum þegar við höfum mælt fyrir málinu að það hafi verið tekið til nógu gaumgæfilegrar athugunar í nefnd og ríkisstjórnin hefur ekki séð ástæðu til þess að taka á þessu máli þó við teljum að um mikið samkeppnismál sé að ræða sem vissulega geti gagnast launþegum. Við teljum einnig að það gagnist sveitarfélögum og eflingu atvinnusvæða á landinu. Þess vegna mælum við eindregið með því að málið fái vandaða umfjöllun og komi væntanlega í þing fyrir þinglok sem frumvarp eftir skoðun í nefnd.