133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

þróun kaupmáttar hjá almenningi.

[12:02]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Nú eru bráðum liðin 12 frá því að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum hér á landi. (Gripið fram í.) Árangurinn blasir alls staðar við, öflug atvinnuuppbygging, lægri skattar, minna atvinnuleysi, minni verðbólga, aukinn hagvöxtur og ekki hvað síst aukinn kaupmáttur almennings. Þetta sjá allir sem sjá vilja, síðustu þrjú kjörtímabil eru lengsta og mesta hagvaxtar- og velsældarskeið sem sögur fara af hér á landi.

Það sem meira er, allir hafa notið góðs af þessu mikla góðæri, bæði þeir sem hafa lægri tekjur og hinir sem hærri tekjur hafa. Ég vil í þessu sambandi nefna tvö atriði.

Nýlega var í fréttum fjallað um rannsókn Ragnars Árnasonar, prófessors við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, um tekjur og tekjudreifingu hér á landi á árunum 1993–2005. Nú er það svo að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa margir hverjir sýnt mikinn áhuga einstaka rannsóknum ónefnds þjóðfélagsfræðings við háskólann um lífskjör almennings. Þess vegna hef ég um nokkurra vikna skeið beðið þess með óþreyju að forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna mundu gera rannsóknir Ragnars Árnasonar að umtalsefni hér á þinginu. Þögnin er hins vegar ærandi, hæstv. forseti, þögnin er ærandi.

Þessi ágæti prófessor hefur kannað tekjur Íslendinga samkvæmt skattframtölum vegna gjaldáranna 1993–2005. Samkvæmt rannsóknum hans hefur meðalvöxtur atvinnutekna á hverju einasta ári verið að meðaltali 4,3% og heildartekna 5,5%. Aðalatriðið í rannsókn Ragnars er að íslenskt efnahagslíf hafi tekið stakkaskiptum frá árinu 1993, m.a. vegna gríðarlegs hagvaxtar og gjörbreytingar á hagkerfinu. Meginniðurstaðan er hins vegar sú að atvinnutekjur allra hópa hafa hækkað mjög mikið og dreifing þeirra hefur ekki breyst.

Eða eins og prófessorinn sagði í útvarpsviðtali um miðjan síðasta mánuð, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er ekki sjáanlegt í þessu mikla góðæri sem hefur átt sér stað síðan 1993 að þá hafi neinn sérstakur tekjuhópur setið eftir. Það hafa allir notið gríðarlega mikillar rauntekjuaukningar.“

Og síðar:

„Þegar horft er á allra lægst launuðu tekjuhópana þá virðast þeir samkvæmt þessum gögnum ekki hafa dregist aftur úr.“

Hitt atriðið sem ég vildi minnast á í þessu sambandi, hæstv. forseti, eru niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands um lágtekjumörk og tekjudreifingu á árunum 2003 og 2004 sem staðfesta í raun niðurstöður Ragnars Árnasonar. Rannsókn þessi er hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Niðurstaða þeirra rannsókna var í stuttu máli sú að tekjuskipting er mun jafnari á Íslandi en annars staðar í Evrópu. Af 31 Evrópuþjóð árið 2004 var ein þjóð með lægra lágtekjuhlutfall en Íslendingar, tvær með sama hlutfall en 27 þjóðir voru með hærra lágtekjuhlutfall.

Til viðbótar má geta þess að nýlega birtust fréttir um það að einn af hverjum sex íbúum Evrópusambandsins byggi við fátækt og fer nú mesti glansinn af því draumalandi sem a.m.k. sumir stjórnarandstæðingar hafa sótt hvað mesta huggun í.

Hvorug þessara rannsókna hefur farið hátt, hæstv. forseti, eins og ég gat um áðan, og niðurstöður þeirra eru eins og blaut tuska framan í hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, þá sömu þingmenn og hafa ítrekað reynt að halda því fram að ójöfnuður hafi aukist og kjör hinna lægst launuðu versnað á undanförnum árum, enda hefur stjórnarandstaðan reynt að þagga niðurstöðurnar niður og þegja þær í hel. Niðurstöðurnar eru hins vegar allt aðrar eins og ég gat um áðan. Rannsóknirnar staðfesta það sem blasir við og allir hugsandi menn vita, þ.e. að kaupmáttur alls almennings og allra tekjuhópa hefur vaxið ár frá ári á undanförnum kjörtímabilum. Hækkun kaupmáttar á síðustu 10 árum nemur tugum prósenta og er líklega nærri 60% á undanförnum 12 árum. Þetta finnur hver í sinni buddu.

Íslendingar hafa aldrei haft það eins gott og um þessar mundir og það er mikilvægt að halda því til haga. Allar tölur frá opinberum aðilum og samtökum staðfesta að kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri en nú og hann hefur farið jafnt og þétt vaxandi frá árinu 1994 svo að skiptir tugum prósenta. Það er m.a. í þessu ljósi sem ég hef haft frumkvæði að þessari utandagskrárumræðu, hæstv. forseti, um þróun kaupmáttar og ég spyr hæstv. fjármálaráðherra um þau efni ef það mætti verða til þess að upplýsa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem vilja hvorki sjá né heyra og því síður skilja nokkuð sem viðkemur efnahagsmálum hér á landi.