133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

þróun kaupmáttar hjá almenningi.

[12:08]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessum atriðum hér. Það hefur óneitanlega verið mjög skemmtileg umræða í þjóðfélaginu um það hvernig staða einstaklinga og heimila er hvað varðar jöfnuð, kaupmátt og ráðstöfunartekjur, hvernig þessi mál hafa þróast á undanförnum árum. Síðan má auðvitað deila um það líka hvað liggur til grundvallar þeirri þróun. Í öllu falli hlýtur að vera jákvætt að það skuli vera efni til slíkrar umræðu, að þeir hlutir séu að gerast sem kalli á að menn velti þessu fyrir sér. Það er jákvætt af hálfu þingmannsins að hefja máls á þessu hér.

Það sem skiptir sennilega mestu máli í þessu er hinn svokallaði kaupmáttur ráðstöfunartekna sem er þegar kaupmáttur launa er reiknaður út og búið að taka tillit til skatta og samskipta einstaklinganna og fjölskyldnanna að öðru leyti við skattkerfið, í formi þá barnabóta, vaxtabóta og þar fram eftir götunum. Fyrir liggja nýlegar tölur um þessi efni og þær sýna, miðað við árið 2005, að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 52% á þessu tímabili. Þá er búið að taka tillit til skattanna þannig að þetta er eins nettó og nettó getur verið í þessu samhengi. Þetta er það sem fólk hefur til ráðstöfunar, hefur í vasanum meira en það hafði áður. (Gripið fram í.)

Meðaltalið á þessu tímabili er 4,7% á ári, á árinu 2006 jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um rúmlega 5% og gert er ráð fyrir því að á árinu 2007 muni kaupmáttur ráðstöfunartekna aukast um 4,6% að meðaltali. Það má segja að á þessu tímabili hafi kaupmáttur ráðstöfunartekna hækkað á hverju ári að einu ári undanskildu, árinu 2001, og hækkunin verið allt upp í 7% þegar hún var mest.

Það er síðan athyglisvert að bera þetta saman við það hvernig þessum hlutum hefur verið háttað hjá nágrönnum okkar. Innan OECD-ríkjanna hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist á sama tímabili um 28%, þ.e. frá 1994 til 2005, og annars staðar á Norðurlöndunum að jafnaði um tæplega 35%. Þó hefur aukningin í Noregi verið 57% þannig að þeir eru þeir einu, með allan sinn olíuauð, sem mér sýnast hafa skotist fram fyrir okkur í þessum efnum.

Það er auðvitað fleira sem skiptir máli í þessari umræðu. Það hefur verið talað um jöfnuð og hvernig þetta hafi þróast hjá einstökum hópum. Því hefur verið haldið fram að t.d. kaupmáttur lífeyris hafi ekki fylgt kaupmætti launa. Það er ekki rétt, kaupmáttur lífeyris hefur hækkað meira en kaupmáttur launa. Síðan hefur verið talað um jöfnuð, að jöfnuður hafi minnkað í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Hagstofan birti mjög athyglisverða samevrópska könnun þar sem jöfnuður var borinn saman á þrjá vegu. Þar kom í ljós að við vorum alls staðar í fremstu röð (Gripið fram í.) hvað jöfnuð varðar. Já, ég er ekki hissa á því að hv. þingmaður skuli spyrja á þennan hátt og vera hissa á þessari niðurstöðu miðað við það sem hefur víða heyrst í umræðunni.

Það sem er síðan kannski merkilegast, miðað við það sem víða hefur komið fram í umræðunni, eru niðurstöður sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hefur kynnt og þær eru á þann veg að á þessu tímabili hafi hagur þeirra sem minnst hafa vænkast umtalsvert meira hér á landi en gerst hefur í nágrannalöndunum (Gripið fram í.) þannig að þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar. Já, ég er hissa á því að hv. þingmaður skuli ekki hafa tekið eftir því en kannski vantar eitthvað upp á það hversu vel hv. þingmenn fylgjast með umræðunni. (Gripið fram í.) Kannski fylgjast þeir bara með því sem sumir fræðimenn segja (Gripið fram í.) en ég mæli með því að þeir (Forseti hringir.) fylgist ítarlegar með umræðunni og láti ekki einhvers konar (Forseti hringir.) pólitískar augnhlífar varna sér sýn. (BjörgvS: Engin hætta á því.)