133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

barna- og unglingageðdeildin.

171. mál
[12:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Fyrirspurnin sem ég mæli fyrir er orðin nokkuð gömul, hún er frá því í byrjun október. Þá lagði ég fram tvær fyrirspurnir af svipuðu tagi, aðra til hæstv. félagsmálaráðherra og hina til heilbrigðisráðherra. Fyrir tveimur vikum ræddi ég fyrirspurnina við hæstv. félagsmálaráðherra um biðtíma eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og samstarf hennar og barna- og unglingageðdeildar. En nú beini ég sem sagt fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um þann hluta sem að honum snýr, sem hljóðar svo:

1. Hvenær má búast við að bið eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildarinnar verði komin í viðunandi horf? Hvenær er gert ráð fyrir að biðin verði komin niður í sex mánuði og hvenær undir þrjá mánuði?

2. Hvað þarf barn sem hefur fengið fötlunargreiningu á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og þarf aðstoð barna- og unglingageðdeildarinnar eða innlögn vegna geðrænna vandamála að bíða lengi?

3. Hvernig er samstarfi Greiningarstöðvarinnar og barna- og unglingageðdeildarinnar háttað hvað varðar þjónustu við börn með einhverfueinkenni og geðræn vandamál?

Nokkur umræða hefur verið í vetur vegna óviðunandi biðtíma eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar og að eftir hana taki við önnur löng bið eftir þjónustu Greiningarstöðvar eða öfugt. Barnið fær á meðan ekki þjónustu við hæfi, t.d. í skóla, en biðin getur varað nokkur ár. Nokkur ár eru langur tími í lífi barns sem er fatlað, veikt og þarf þjónustu.

Hæstv. félagsmálaráðherra staðfesti að bið eftir greiningu á Greiningar- og ráðgjafarstöðinni geti verið allt að þrjú ár hjá börnum á skólaaldri, a.m.k. það sem snýr að einhverfu og þroskahömlun. Dæmi eru um að barn fari inn á barna- og unglingageðdeild í greiningu eftir ársbið og sé síðan vísað á Greiningarstöð í nánari greiningu. Öll þessi bið er í óþökk allra, starfsfólksins, foreldranna og ekki síst bitnar hún á viðkomandi barni. Þetta er mjög alvarlegt ástand. Þessi staða, þessi langa bið eftir þjónustu, kallar á meira samstarf þessara stofnana. Það samstarf er nauðsynlegt, annað bitnar á börnunum sem eru án þjónustu í langan tíma.

Hæstv. félagsmálaráðherra sagði í svari sínu til mín að þegar búið væri að vísa barni til beggja stofnana væri leitast við að hafa samráð en það kannast því miður enginn við að barni hafi verið vísað á báðar stofnanir í einu. Þetta var mér bent á eftir umræðuna við félagsmálaráðherra. En það er mjög mikilvægt að því verði komið á til að stytta þessa bið. Það er sárt að vita til þess að barn sem ekki hefur fengið greiningu fái ekki þá þjónustu og skilning sem það þarf því að eyrnamerktir peningar fylgja barninu með greiningunni inn í skólana. Það þarf samvinnu því annars þurfa menn að bíða eftir umönnunarbótum frá Tryggingstofnun sem þeir fá ekki nema greiningin sé komin.

Ég bið hæstv. ráðherra um svör við þeim spurningum sem ég las upp áðan.