133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

barna- og unglingageðdeildin.

171. mál
[12:35]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 4. þm. Reykv. s. hefur beint til mín fyrirspurn í þremur liðum um barna- og unglingageðdeildina. Ég vil sérstaklega þakka hv. alþingismanni fyrir þessa fyrirspurn því hún gefur kost á að varpa ljósi á þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til með það að markmiði að reyna að stytta biðlista á barna- og unglingageðdeildina. Fyrst er spurt:

„1. Hvenær má búast við að bið eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildarinnar verði komin í viðunandi horf? Hvenær er gert ráð fyrir að biðin verði komin niður í sex mánuði og hvenær undir þrjá mánuði?“

Því er til að svara að ég geri ráð fyrir að hér sé verið að óska upplýsinga um biðlista vegna göngudeildarþjónustu þar sem bið eftir innlögn er alla jafna stutt. Ekki er unnt að svara með óyggjandi hætti nákvæmlega hvenær bið verður komin niður í sex mánuði og hvenær undir þrjá mánuði. Það ræðst m.a. af því hvernig tekst að framfylgja aðgerðaráætlun minni sem var kynnt 21. september sl. og var í níu liðum. Meginmarkmið þeirrar áætlunar er einmitt að stytta bið eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildarinnar, m.a. með því að flytja hluta þjónustunnar á lægra þjónustustig þar sem sú þjónusta á heima jafnframt því að auka með margvíslegum hætti þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir. Fjölmargir hafa lýst ánægju með þessa aðgerðaáætlun, nú síðast stjórnir Sálfræðingafélags Íslands, Iðjuþjálfafélags Íslands og Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa.

Á fundi í ráðuneytinu daginn áður en ég kynnti þessa áætlun lýstu bæði yfirlæknir BUGL og formaður Félags barna- og unglingageðlækna því yfir að þau teldu aðgerðirnar til þess fallnar að stytta biðlista á BUGL. En ég veit að það er mjög mikill og skýr vilji hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilsugæslustöðvunum um landið til að takast á hendur þau nýju viðfangsefni sem þeim hafa nú verið falin. Ég er sannfærð um að ef allir leggjast á eitt við að framkvæma þessa aðgerðaáætlun munu biðlistar styttast verulega og vonandi hverfa þó erfitt sé að fullyrða um það á þessu stigi. En ég vil líka taka fram að sviðsstjóri hjúkrunar á geðdeildinni sagði á opinberum vettvangi í tilefni af aðgerðaáætluninni að hún teldi að með því að fylgja henni myndu biðlistar styttast mjög verulega eða hverfa á yfirstandandi ári en þá þurfa auðvitað allir að vinna að sama markmiðinu. Nú er heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins að ráða til sín sálfræðinga til að sinna þessum málum og búið er að koma á farþjónustu á nokkrum heilsugæslustöðvum um landið svo að hægt sé að sinna börnunum á heimavettvangi.

„2. Hvað þarf barn sem hefur fengið fötlunargreiningu á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og þarf aðstoð barna- og unglingageðdeildarinnar eða innlögn vegna geðrænna vandamála að bíða lengi?“

Því er til að svara að samkvæmt upplýsingum frá yfirlækni BUGL og deildarstjóra göngudeildar þar bíða bráðamál af þessu tagi ekki og forgangsmál eru að öllu jöfnu tekin fyrir innan fárra vikna. Milli stjórnenda Greiningarstöðvar ríkisins og barna- og unglingageðdeildarinnar er óformlegt samkomulag í gildi þess efnis að gagnkvæm þjónusta sé veitt með þeim hætti að barn sem fengið hefur þjónustu á öðrum staðnum þurfi ekki að bíða á hinum.

„3. Hvernig er samstarfi Greiningarstöðvarinnar og barna- og unglingageðdeildarinnar háttað hvað varðar þjónustu við börn með einhverfueinkenni og geðræn vandamál?“

Því er til að svara að greining og meðferð vægari raskana með svokölluðu einhverfuprófi fer fram á barna- og unglingageðdeildinni. Börnum með einhverfuraskanir sem leiða til fötlunar er vísað til Greiningarstöðvarinnar og á þjónustu svæðisskrifstofu fatlaðra. Börn með einhverfueinkenni af þeim toga að þau þarfnast innlagnar vegna alvarlegra geðrænna einkenna eru lögð inn á legudeild barna eða unglinga á barna- og unglingageðdeildinni. Að mati stjórnenda BUGL er samstarf deildarinnar og Greiningarstöðvarinnar gott.

Ég vil líka taka fram að í gær var tekin skóflustunga að nýju göngudeildarhúsi við barna- og unglingageðdeildina, það er verk sem hefur beðið um sinn. Safnað var til þess fjármagni frá mörgum öflugum félagasamtökum og ég lagði mjög mikla áherslu á það í fjárlagagerð síðasta árs að klára fjármögnun þessa verkefnis og það tókst. Nú er það verk hafið og það hús verður risið í maí á næsta ári og mun stórbæta alla aðstöðu fyrir göngudeildarþjónustuna. Ég tel að þar hafi afar brýnum áfanga verið náð til hagsbóta fyrir þessi börn.