133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

barna- og unglingageðdeildin.

171. mál
[12:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þá umræðu sem orðið hefur um fyrirspurnina. Hún hefur verið gagnleg og það er rétt að ástæða er til að gagnrýna það hversu hægt hefur gengið í uppbyggingu á barna- og unglingageðdeildinni. Henni hefur verið lofað mjög oft og í gær var fyrsta skóflustungan loksins tekin.

Ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við fyrirspurnum mínum. Hæstv. ráðherra segir að ef staðið verði við aðgerðaáætlunina muni biðin leysast á þessu ári. Hæstv. félagsmálaráðherra talaði líka um í svari sínu fyrir tveimur vikum að vandinn vegna biðar mundi leysast á árinu 2008. Ég leyfi mér að hafa efasemdir vegna þess að þetta hefur enginn af þeim heyrt sem eru að bíða eftir þjónustunni. Foreldrum hefur verið bent á, sérstaklega vegna barna á skólaaldri, að biðin geti verið allt að þrjú ár. Það er enn verið að segja þetta við foreldra. Og vegna þeirra svara í sambandi við börn sem þurfa þjónustu barna- og unglingageðdeildar vegna geðrænna vandamála, þá er það svo að ég veit dæmi þess að fólk er að bíða eftir mjög lítilli þjónustu allt of lengi. Ég veit um nokkur dæmi. Ég bið því hæstv. ráðherra að skoða þetta nánar og beita sér í því, þann stutta tíma sem hún á eftir í embætti, að þeirri þjónustu við börn sem bíða verði flýtt og einnig að aukin samvinna verði á milli stofnananna. Báðir hæstv. ráðherrar hafa svarað þeim spurningum mínum á þann veg að samvinnan sé góð. Ég vona að það sé rétt og ég held að það sé rétt og að allir vilji hafa það þannig, en hún er ekki alveg nægilega mikil. Þar þarf ráðherra að taka til hendinni og beita sér fyrir því að hún verði enn þá meiri og foreldrar þurfi ekki að bíða með börn sín eins og staðan er nú.