133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

rekstur dvalar- og hjúkrunarrýma.

315. mál
[13:08]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur beint til mín svohljóðandi spurningu:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fram fari útboð á rekstri þeirra dvalar- og hjúkrunarrýma sem ráðherra hefur boðað á næsta kjörtímabili og að þjónusta sem þar á að veita verði skilgreind með þjónustusamningum við viðkomandi stofnanir?“

Virðulegur forseti. Ég vil taka fyrst fram að engin áform eru um að fjölga dvalarrýmum eins og spurningin hljóðar upp á, enda eru það úrræði sem eru á undanhaldi og hafa verið um langa hríð. Við erum að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými, það er þróunin. Dvalarrýmum hefur því farið fækkandi en hjúkrunarrýmum fjölgandi.

Fyrir liggur ákvörðun um að byggja á næstu fjórum árum um 374 hjúkrunarrými víðs vegar um landið. Þau eru flest á höfuðborgarsvæðinu og undirbúningur þessara framkvæmda er þegar hafinn. Ekki er skylt að bjóða út rekstur hjúkrunarheimila samkvæmt lögum um opinber innkaup, nr. 94/2001. Á undanförnum árum hafa fáir viljað taka að sér rekstur hjúkrunarheimila en á síðustu missirum hefur hins vegar komið fram vaxandi áhugi á slíkum rekstri og margir reyndir og traustir aðilar hafa sóst eftir að taka að sér rekstur hjúkrunarheimila. Við þessa breytingu á framboði á rekstraraðilum eykst að sjálfsögðu krafan um jafnræði og gagnsæi við ákvarðanatöku. Því hefur verið ákveðið að auglýsa eftir rekstraraðilum með markmið laga um opinber innkaup að leiðarljósi, þ.e. að tryggja jafnræði bjóðenda við opinber innkaup og stuðla að virkri samkeppni og hagkvæmni í opinberum rekstri.

Ég hef með bréfi til fjármálaráðuneytisins óskað eftir afstöðu þess til þess hvort víkja megi frá þeirri kröfu þegar sérstaklega stendur á. Svar við þessu liggur ekki fyrir. Ég vil taka fram að þegar sveitarfélög taka að sér rekstur hjúkrunarheimila er ekki auglýst eftir rekstraraðilum. Greiðslur daggjalda á hjúkrunarheimilum byggjast á sérstöku greiðslulíkani heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Líkanið tekur mið af umönnunarþyngd þeirra sem vistast í hjúkrunarrýmum og mönnunarþörf. Við val á rekstraraðila er útbúin kröfulýsing þar sem lýst er nákvæmlega þeim kröfum sem ríkið hyggst gera til þjónustu og aðbúnaðar á viðkomandi heimili. Samkeppni milli bjóðenda byggist því ekki á keppni um verð heldur um gæði þjónustunnar sem verið er að bjóða. Þegar val á rekstraraðila hefur verið staðfest er jafnframt komið á ígildi þjónustusamnings sem byggir á fyrrgreindri kröfulýsingu og upplýsingum bjóðenda.

Hvað varðar það að oft er gefið í skyn að stjórnvöld viti ekki hvað þau eru að kaupa vil ég taka fram að í lögum um málefni aldraðra kemur fram hvaða grundvallarkröfur eru gerðar til hjúkrunarheimila og hvaða þjónusta skuli veitt. Nánari skilgreiningar á þjónustu koma fram í reglugerð nr. 422/1992, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu og í skilmálablöðum ráðuneytisins um rekstur og uppbyggingu hjúkrunarheimila aldraðra er fjallað ítarlega um kröfur varðandi aðbúnað og þjónustu. Loks eru RAI-mælingarnar, sem fjallað er um í reglugerð nr. 546/1995, um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum. RAI-kerfið er mjög mikilvægt tæki jafnt til að setja markmið um gæði og til þess að sinna eftirliti með þjónustu öldrunarstofnana.

Virðulegur forseti. Ég vil líka af þessu tilefni lýsa því hvar þessi 374 nýju hjúkrunarrými eiga að rísa. Það eiga að rísa 110 rými við Suðurlandsbrautina og þar eru framkvæmdir við jarðvegsvinnu hafnar. Af þessum 110 rýmum eru 40 rými fyrir heilabilaða og 10 rými fyrir geðsjúka. Þá eru 90 rými á svokallaðri Lýsislóð en þar koma bæði Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstaður að og síðan verða byggð 174 rými á eftirtöldum svæðum: 20 rými á Sjúkrahúsi Suðurlands, 44 í Kópavogi, 20 í Mosfellsbæ, 30 í Reykjanesbæ og Hafnarfirði, 10 á Ísafirði og 20 í Garðabæ. Ég tel mjög mikilvægt að draga það fram að nú þegar erum við að vista hærra hlutfall aldraðra á stofnunum en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Samt erum við að bæta við 374 nýjum rýmum. Ég tel að þegar búið verður að byggja þau upp, sem verður á næstu fjórum árum, sé líklegt að við séum búnir að byggja nóg. Það er erfitt að fullyrða það en mér finnst það mjög líklegt miðað við það sem við sjáum í nágrannaríkjum okkar. Ég tel að sveitarfélögin verði að stórherða sig varðandi heimaþjónustu, félagslega heimaþjónustu fyrir aldraða og ríkisvaldið hefur verið á síðustu árum að stórauka framlög til heimahjúkrunar og það munum við halda áfram að gera. Félagsþjónusta sveitarfélaga og hlutur sveitarfélaga er því gífurlega stór og þau verða að standa sig betur en þau hafa gert. Sum hafa gert þetta vel, meiri hluti hefur dregið úr félagslegri heimaþjónustu og það hefur skapað mjög mikið óöryggi og skapað þrýsting á biðlista inn á hjúkrunarheimili.