133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

rekstur dvalar- og hjúkrunarrýma.

315. mál
[13:15]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg spurning hjá hv. þingmanni og ástæða til bæði að þakka honum fyrir hana og vekja athygli á henni. Það er nú svo að stærsti hluti öldrunarstofnana er rekinn af öðrum en opinberum aðilum. Margir hafa áhuga á að takast á við þetta verkefni eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Það er viðurkennt að útboð tryggja jafnræði milli aðila og tryggja jafnframt að ríkið geti metið besta kostinn með tilliti til þjónustu, gæða og pyngju ríkisins.

Það kom einmitt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við aldraða frá því í október 2005 að mjög mikill munur er á þjónustu milli öldrunarstofnana. Það er mikil þörf á að skilgreina þetta, hvaða þjónustu á að veita, hvað fellur undir samninginn, og ég tel að þjónustusamningar séu best til þess fallnir að ná því markmiði. Ég minni m.a. á að í fyrirspurn síðastliðið haust kom fram að sumar öldrunarstofnanir færa kostnað af þvotti á einstaklingana sem veldur mikilli mismunun.