133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

rekstur dvalar- og hjúkrunarrýma.

315. mál
[13:21]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er eins og hv. þingmaður hafi ekki hlustað á fyrra svar mitt (SigurjÞ: Ég hlustaði.) en þar kom fram að við val á rekstraraðila er útbúin kröfulýsing þar sem lýst er nákvæmlega þeim kröfum sem ríkið hyggst gera til þjónustu og aðbúnaðar á viðkomandi heimili. Ég var líka búin að koma því hér á framfæri að í lögum og reglugerðum eru gerðar kröfur til þess hvaða þjónusta skuli veitt og það er líka á skilmálablöðunum og líka gagnvart RAI-matinu.

Varðandi eftirlitið þá vil ég koma því á framfæri að við fáum ársskýrslur frá þessum heimilum og að landlæknisembættið sinnir eftirliti með þjónustu hjúkrunarheimila. (SigurjÞ: Ef það eru engar lágmarkskröfur, hvernig á þá eftirlitið að vera?) Þetta er ekki eins og hér sé verið að draga upp að þetta sé eftirlitslaust og menn viti ekkert hvað verið er að borga til. Þetta er ekki þannig, virðulegi forseti.

Varðandi daggjöldin þá kom fram hjá einum hv. þingmanni að þau væru of lág. Af því tilefni sérstaklega vil ég segja að við erum að breyta daggjaldakerfinu og nýja kerfið byggist meira á því hve umönnunarþyngd sjúklinga er mikil. Greiðslurnar eru hærri til þeirra stofnana sem eru með þyngri hóp og lægri til þeirra sem eru með léttari hóp. Það er líka tekið tillit til lítilla stofnana, þ.e. ef stærðin er undir ákveðnum mörkum fá þau heimili meiri meðgjöf af því að ákveðið óhagræði er í því að vera með litlar rekstrareiningar. Nýja daggjaldakerfið endurspeglar bæði hjúkrunarþyngdina og það hvort stofnanir eru litlar eða stórar og er því mun réttlátara en það daggjaldakerfi sem viðgekkst þangað til það nýja var tekið upp sem var nú nýlega.