133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Lánatryggingarsjóður kvenna.

578. mál
[13:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir þetta svar sem leiddi ekki neitt sérstaklega nýtt í ljós en kom þó inn á athyglisverða hluti sem við vissum áður um það t.d. að aðeins 20% opinberra styrkja falla í hlut kvenna og að karlmenn skipa 80% sæta í úthlutunarnefndum. Þetta segir okkur væntanlega nokkuð um það að þarna bíður okkar verkefni til að breyta, þ.e. að konur hljóta að þurfa að fá jafnstóran hlut í úthlutunarnefndum og karlar og þá er ég viss um að viðhorf og skilningur á málefnum kvenna og áherslum þeirra mun aukast en það kom jafnframt fram í máli ráðherra að hann virðist skorta.

Ég undraðist það nokkuð hve hæstv. ráðherra lagði mikla áherslu á bæði kynin því að staðan er jú sú, eins og kom ítrekað fram í máli hans, að konur standa miklu verr á þessu sviði en karlar. Það er þó ánægjuefni að reka á sjóðinn enn um sinn en ég verð að segja, virðulegi forseti, að mig lengir eftir að fá niðurstöður í þessi mál og að fá að sjá könnunina sem ég minntist á í framsögu minni.

Ég legg á það áherslu í lokin að sinna þarf atvinnusköpun kvenna betur en gert hefur verið hingað til, bæði með almennum aðgerðum og eins með sértækum aðgerðum þangað til jafnrétti verður náð. Ég held því miður að enn þá sé talsvert í það, sérstaklega úti á landsbyggðinni þar sem menntun er bæði minni en að meðaltali í landinu og þar sem (Forseti hringir.) fjármagn er víða af skornum skammti eins og t.d. í kjördæmi okkar hæstv. ráðherra, Norðvesturkjördæmi.