133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

stuðningur við atvinnurekstur kvenna.

579. mál
[13:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009, sem samþykkt var á Alþingi í fyrravor, er aðgerð nr. 19 sem fjallar um stuðning við atvinnurekstur kvenna og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Unnið verði að því að efla þátt kvenna í atvinnurekstri með ráðgjöf og námskeiðum. Hugað verði að leiðum til þess að gera stoðkerfi atvinnulífsins aðgengilegra fyrir konur.“

Iðnaðarráðuneytinu er falin ábyrgð á framkvæmd aðgerðarinnar og Byggðastofnun er samstarfsaðili.

Hverjum og einum sem til þekkir á landsbyggðinni hlýtur að vera ljóst að það verkefni sem þarna er fjallað um er ákaflega mikilvægt. Sérstakt fjármagn hefur verið veitt til eflingar atvinnumálum kvenna frá árinu 1991 og hefur félagsmálaráðuneytið annast þær styrkveitingar en tilgangur þeirra er að auka fjölbreytni í atvinnulífinu, viðhalda byggð um landið og stuðla að fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni, auðvelda aðgang kvenna að fjármagni og draga úr atvinnuleysi meðal kvenna.

Þáttur kvenna í atvinnurekstri er almennt ekki nógu stór en þó hygg ég að hann sé jafnvel enn minni á landsbyggðinni en að landsmeðaltali. Þrátt fyrir að ekkert hafi heyrst varðandi framkvæmd tillögunnar trúi ég því tæpast að félagsmálaráðherra hafi látið undir höfuð leggjast að koma í framkvæmd þessu mikilvæga máli sem félagsmálaráðuneytið ber ábyrgð á eins og skýrt er tekið fram í textanum. Ég spyr því hæstv. félagsmálaráðherra:

1. Hvað hefur verið gert til að styðja atvinnurekstur kvenna, svo sem gera skal skv. 19. tölul. þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009?

2. Hvernig hljóðar framkvæmdaáætlun til að ná markmiðum þingsályktunarinnar og hverjum hefur verið falið að framfylgja henni?