133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

stuðningur við atvinnurekstur kvenna.

579. mál
[13:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin sem mér fannst samt sem áður lengst af einkennast af því sem gert hefur verið í fortíðinni. Það er að vísu gott og gilt út af fyrir sig, en það var samt ekki það sem ég spurði um heldur var ég að forvitnast um hvað fyrirhugað er að gera til framtíðar, því það er jú það sem skiptir okkur mjög miklu máli.

Ég spurði um hvernig framkvæmdaáætlun hljóðaði og hverjum hefði verið falið að framfylgja henni. Eins og fram kemur í þeim markmiðum sem ég las upp áðan úr 19. gr. áætlunarinnar er t.d. Byggðastofnun falin þar ákveðin verkefni. Mig langar til að ítreka þá spurningu við hæstv. iðnaðarráðherra hvort Byggðastofnun hafi fengið verkefnið, framkvæmdaáætlunina í hendur því að ég held að við hljótum að vera sammála um það, hæstv. iðnaðarráðherra og ég, að mikilvægt er að nýta tímann vel. Tíminn líður og það hratt. Það er mjög brýnt að taka á atvinnumálum kvenna og ekki síst úti á landsbyggðinni. Ég ætla líka að minna hæstv. ráðherra á að það eru konur sem fyrst taka sig upp og fara af þeim svæðum sem hallar á og við höfum því miður talsvert af slíkum svæðum á Íslandi.

Ég gat ekki heyrt það á orðum hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að við ættum von á einhverju nýju í þessu efni, því miður. Hann minntist líka á atvinnu- og jafnréttisráðgjafa og því miður er það svo að störf atvinnu- og jafnréttisráðgjafa hafa verið lögð niður eftir því sem ég best veit, nema hugsanlega á Austurlandi, sem ég er þó ekki viss um að séu enn við lýði. (Forseti hringir.) Seinast þegar ég vissi var búið að leggja niður starfsemina í Norðvesturkjördæmi og í Suðurkjördæmi og að ég held líka á Austurlandi.