133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

stuðningur við atvinnurekstur kvenna.

579. mál
[13:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir mjög margt af því sem hv. þingmaður sagði að þarna eru mjög mikil verkefni og þeim er engan veginn lokið. Það má sannarlega taka betur á í þeim efnum. Ég lít svo á að þetta sé ekki sérmál kvenna. Þetta er mál allrar þjóðarinnar vegna þess að þarna eru miklir hæfileikar, mikil geta og gáfur sem er vannýtt ef konur eru ekki til jafns við karlmenn á vettvangi atvinnulífsins og reyndar á öllum sviðum. Þetta er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra sem við þurfum að beita okkur vel í og áreiðanlega gera betur en við höfum gert og erum að gera. Ég dreg ekki úr því.

Mér er kunnugt um að Byggðastofnun er með þessi verkefni í fullum gangi, ég hef séð framvinduskýrslur um að verið er að vinna að því. Það er alveg rétt að það voru ekki einstök nýmæli eða ný verkefni sem ég lýsti áðan heldur fyrst og fremst staðan í þeim verkefnum sem verið er að vinna að. Aðalatriðið í þessu máli er að hér þarf þrotlaust starf til langs tíma. Það verður ekki unnið í einhverjum átökum eða köstum á stuttum tíma, það verður að vinna þetta á lengdina og gefast ekki upp heldur halda stöðugt áfram. Það er það sem verið er að reyna að gera í þeim samtökum og þeim stofnunum sem ég gerði lauslega og lítillega grein fyrir áðan. Að öðru leyti þakka ég fyrir fyrirspurnina.