133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

lesblinda.

490. mál
[14:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. Það hefði verið fróðlegt ef sveitarfélögin hefðu haldið utan um þessi mál. Flest bendir til að 10–12% barna séu haldin alvarlegri lesblindu. Tölur frá Danmörku benda til að 18%, eða um ein milljón, Dana eigi við alvarlega dyslexíu að stríða. Könnun sem framkvæmd var í Menntaskólanum í Reykjavík 1998 af stærðfræðikennara benti til að 6–8% nemenda þar væru haldin lesblindu að einhverju leyti sem er talsvert hátt hlutfall í bóknámsskóla eins sá skóli er. Að mínu mati er bæði greiningu og úrræðum gagnvart lesblindum börnum alvarlega ábótavant. Við þurfum að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar, ráðgjöf, stuðning, greiningu og allt sem lýtur að þessum málum.

Í fyrra kom hér fram að verið væri að mæla á samræmdum prófum í 10. bekk lesskilning hjá lesblindum börnum, sem er svipað og að biðja blindan mann að gefa álit sitt á myndverki eða heyrnarlausan mann álit sitt á tónleikum eða slíku. Það er fráleitt nógu vel staðið að þessum málum. Börnin eru illa sett í allt of miklum mæli og ekki er tekið nógu vel utan um þessi mál. Við þurfum eins og bent hefur verið á af sérfræðingum, eins og dr. Hermundi Sigurmundssyni, sálfræðingi við Háskólann á Akureyri, að byggja sérstaka rannsóknarmiðstöð um nám og þroska barna til að rannsaka þetta mál miklu betur og hvaða leiðir við höfum til að bregðast við því, rannsaka bæði greiningaraðferðir, úrræði o.s.frv. Það væri fróðlegt að heyra svar hæstv. ráðherra við hugmyndinni um rannsóknarmiðstöð um nám og þroska barna, af því að ég veit hún er henni vel kunn frá Hermundi og fleirum. Við þurfum að vita hvaða aðferðir virka og rannsaka aðstæður þessara barna. Við þurfum einnig að taka utan um þá sem eldri eru og hafa hrakist úr skóla, búa við erfiðar félagslegar aðstæður út af dyslexíu og hafa lent í félagslegum vanda síðar.