133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

lesblinda.

490. mál
[14:17]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég held að við séum nokkuð vel sammála, ég og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, varðandi það að taka þarf sérstaklega á málefnum lesblindra í skólakerfinu. Þegar af þeirri ástæðu taldi ég brýnt að setja niður þennan starfshóp sem hefur það víðfeðma hlutverk sem ég gat um áðan, að reyna að greina nákvæmlega þörfina, stuðninginn sem er hjá sveitarfélögunum. Það kom fram í þessari könnun sem við í ráðuneytinu gerðum að það er mjög mismikil eða mislítil yfirsýn hjá sveitarfélögunum. Við þurfum að stuðla að því að þessar upplýsingar verði sem bestar, huga að því hvernig bæði ráðgjöf og stuðningi og ekki síst próftöku lesblindra barna eigi að vera háttað til lengri tíma litið þannig að börnin átti sig á því hvaða möguleika þau eigi og hvaða leiðir þau eigi að fara þegar grunnskóla er lokið, hvað hentar þeim hverju sinni upp á námsframboðið að gera.

Ég vil líka undirstrika það sem ég gat um áðan að í ljósi þess að ég tel brýnt að á þessum málum sé tekið hélt ég sérstaklega til hliðar ákveðnum fjármunum til þess einmitt að geta síðan komið til móts við þær tillögur sem ég vænti um miðjan mars frá nefndinni sem á að taka á málefnum lesblindra. Til þess að koma til móts við þær tillögur hélt ég til hliðar fjármunum til að efla og styrkja grundvöll lesblindra í skólakerfi okkar. Það er brýnt og að mínu mati afar mikilvægt að við komum til móts við þennan hóp, því að þetta er hópur sem, ef vel er að málum staðið, getur notið sín í hvívetna á þeim sviðum sem hann er góður í.