133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Norræni blaðamannaskólinn.

577. mál
[14:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Á vefsíðu Norræna blaðamannaskólans, NJC, stendur þetta á áberandi stað, með leyfi forseta, þýðing úr dönsku:

„Í sérfræðingaráði Norræna blaðamannaskólans sitja reyndir fjölmiðlamenn frá norrænu ríkjunum fimm samkvæmt tilnefningu blaðamannafélagsins í hverju ríki. Þetta á þó ekki við um Ísland þar sem menntamálaráðherrann skipar fulltrúann …“

Þessi setning vísar til þess að menntamálaráðherra Íslendinga hunsaði tilnefningar Blaðamannafélags Íslands nú fyrir stuttu, um þau Birgi Guðmundsson og Svanborgu Sigmarsdóttur sem hina íslensku sérfræðinga í sérfræðingaráði blaðamannaskólans. Menntamálaráðherra hæstv. kaus að velja tvo aðra, sem eru ágætisfólk að því er ég þekki en ekki tilnefnd af Blaðamannafélags Íslands, og það er galli að annar af þessum fulltrúum, varamaðurinn sem á að vera, er sérstakur starfsmaður í menntamálaráðuneytinu. Norræni blaðamannaskólinn annast endurmenntun blaðamanna, lengstu námskeið hafa undanfarið verið sex vikur. Fjölmargir íslenskir blaðamenn hafa farið í þennan skóla og notið þessarar endurmenntunar, oft með styrk úr sjóðum blaðamannafélagsins, og þetta hefur verið sérstakt tækifæri í áratugi fyrir íslenska blaðamenn að mennta sig í sínu fagi sem skiptir miklu eins og allir vita sem nálægt fjölmiðlum hafa komið.

Það hefur alltaf verið höfuðforsenda skólans að vera í sem allra bestu sambandi við fagið, við blaðamannafélögin og við samtök útgefenda. Nýverið var starfsháttum skólans breytt, hann er ekki lengur sjálfstæður eins og hann var undir ráðherranefndinni heldur er hann rekinn á vegum dönsku endurmenntunarstofnunarinnar. Þetta eru reyndar umdeildar breytingar en þeim fylgdi það að nú heitir það ráðgjafarnefnd, sem áður hét stjórn, sem annast samskipti við skólann og ráðgjöf við stjórnendur hans. „Sagkyndige“ er þetta kallað á dönsku og mætti kalla sérfræðingaráð. Það er hálfrar aldar hefð um þetta mál.

Þeir sem blaðamannafélagið tilnefndi voru annars vegar í varamannssæti Svanborg Sigmarsdóttir blaðamaður og hins vegar Birgir Guðmundsson fjölmiðlafræðingur. Birgir er lektor við Háskólann á Akureyri, úr blaðamannastétt, vinnur m.a. við útgáfu og ráðgjöf fyrir Blaðamannafélag Íslands og er öllum hnútum kunnugur í norrænu fjölmiðlasamstarfi og öðru norrænu samstarfi. Þessa tilnefningu hunsaði ráðherrann, reyndar eftir að Blaðamannafélagið taldi sig hafa fengið hana staðfesta í símtali. Svör ráðherrans hingað til hafa verið þau að hugsanlegur hagsmunaárekstur sé á ferðinni. Um það leyfi ég mér að efast mjög harðlega en ef svo var af hverju ráðgaðist þá ekki ráðuneytið, starfsmenn menntamálaráðherrans, við Blaðamannafélagið um það mál? Það er engin ástæða sem í raun og veru er hægt að taka mark á af þeim skýringum sem fram eru komnar og maður spyr (Forseti hringir.) þegar íslenski menntamálaráðherrann stendur upp eins og nátttröll á norrænum vettvangi: Hvað veldur?