133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Norræni blaðamannaskólinn.

577. mál
[14:31]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Engar breytingar hafa átt sér stað á því að menntamálaráðherra hefur ávallt skipað fulltrúa í NJC. Á því hefur ekki orðið breyting. (Gripið fram í.) Það hefur ávallt verið menntamálaráðherra sem hefur skipað og borið ábyrgð á öllum skipunum og tilnefningum í NJC. Ég met það svo að þótt hefð sé fyrir þessu sé það sjálfsögð skylda mín sem ráðherra að bera ábyrgð, fara yfir sviðið og átta mig á hvaða breytingar eru í vændum. Það eru miklar breytingar á þessu umhverfi. Ég tel það eðlilegt í ljósi þess að (Gripið fram í.) ráðuneytið er ekki, eins og sumir virðast halda, sjálfvirkur stimpilpúði fyrir hagsmunasamtök. Mér ber að sjálfsögðu skylda til að fara yfir þær tilnefningar sem berast og meta hvort þær séu til þess fallnar að efla og styrkja stofnunina á því umbreytingaskeiði (Gripið fram í.) sem hún á við að etja hverju sinni. Ég tel mjög eðlilegt og sjálfsagt að hafa gert þetta.

Ég legg engu að síður mikla áherslu á að þetta er fyrsta skrefið í breytingum hjá Norræna blaðamannaskólanum og hjá umræddri sérfræðinganefnd og það er ekkert óeðlilegt við hvernig að málum hefur verið staðið. Þetta hefur verið hefð eða venja en það er ekki skylda að ráðherra fari eftir þessu, enda er það ráðherra eftir sem áður sem ber ábyrgð á þessum skipunum en ekki blaðamannafélagið. Hitt er svo annað mál og vissulega er það rétt að margir hafa sagt mér að það væri mikið óráð að fara ekki eftir tilnefningum helstu hagsmunasamtökum blaðamanna. Hagsmunasamtök eins og Blaðamannasamtök Íslands geta að sjálfsögðu haft mikil áhrif á starfsumhverfi stjórnmálamanna og góð tengsl þar á milli skipta auðvitað sköpum fyrir stjórnmálamenn, sama hvar í flokki þeir standa.