133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Tæknisafn Íslands.

593. mál
[14:42]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig undrar hve hæstv. menntamálaráðherra er fljót á sér að blása þetta góða mál af. Mér finnst það einkenna svör hæstv. ráðherra að þau eru þunglamaleg og endurspegla hreinlega gamaldags viðhorf. Mér finnst þetta mál bera vott um að þarna sé ný hugmynd á ferðinni, hugmynd sem snýr að því að færa alla þekkingu og tækni sem verður til úr henni inn í eitt safn sem gæti orðið mjög spennandi kostur fyrir skólana. Það væri spennandi að byggja slíkt safn upp samhliða því að við þurfum að efla mjög verk- og tækninám í landinu. Safn af þessu tagi gæti sannarlega orðið til þess að kveikja áhuga hjá námsmönnum framtíðarinnar hér á landi á því að fara inn á þær brautir. Við vitum að það er þar sem við þurfum að gefa í, það er á sviði (Forseti hringir.) verk- og tæknináms. Þetta gæti orðið góður liður í því.