133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

merkingar á erfðabreyttum matvælum.

589. mál
[14:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur átt sér stað talsverð umræða um erfðabreytt matvæli. Um slík matvæli eru skiptar skoðanir og hefur andstaða við þau verið einna mest í Evrópu en minnst í Bandaríkjunum og framleiðsla á þeim fer að mestu leyti fram í Bandaríkjunum.

Á síðasta þingi kom ég með fyrirspurn til þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra um hvað liði innleiðingu reglugerða Evrópusambandsins um merkingu á erfðabreyttum lífverum og rekjanleika matvæla og fóðurvöru. Þá voru svörin þau að þetta væri allt á leiðinni og síðan höfum við fengið fregnir af því endrum og sinnum. Sú reglugerð hefur hins vegar þá gloppu að ekki eru gerðar kröfur um merkingar á afurðum af búfé sem alið hefur verið á erfðabreyttu fóðri. Þegar þessi reglugerð lítur loksins dagsins ljós, sem er með ólíkindum hve lengi hefur verið á leiðinni hingað inn, finnst mér í ljósi þess að vil viljum markaðssetja Ísland sem hreint land með hreina vöru, ættum við ganga alla leið og setja inn í reglugerðina kröfu um að öll sú matvara þar sem erfðabreytt hráefni hefur verið notað við framleiðsluna, verði merkt sem slík.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þuríður Backman spurði sömuleiðis á síðasta ári landbúnaðarráðherra hversu hátt hlutfall af heildarinnflutningi ákveðinna fóðurvara, þ.e. af maís og sojamjöli, væri erfðabreytt. Þar kom fram að um 63% af sojamjöli væri erfðabreytt og 78% af innfluttum maís. Þetta tel ég vera slíkar tölur að við eigum að gera þá kröfu að fæða sem verður til úr þeim búvörum sem þetta fóður er notað til, verði einnig merkt. Því ber ég þá fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra hvort til greina komi að mati ráðherra að setja reglugerð sem, auk kröfu um merkingu erfðabreyttra matvæla, krefst merkingar á vörum þar sem erfðabreytt hráefni hefur verið notað við framleiðsluna.

Virðulegi forseti. Þetta snýst um rétt neytanda til að vita hvað er í fæðunni sem hann neytir hverju sinni.