133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

merkingar á erfðabreyttum matvælum.

589. mál
[14:54]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum einfaldlega að ræða um nútímaframleiðslutækni. Það er nútíminn að nota erfðatækni og mér finnst stundum eins og umræðan um erfðabreytt matvæli lykti svolítið af fordómum gagnvart nútímatækni og nútímaframleiðsluháttum. Við sjáum hve hátt hlutfallið er af fóðri þar sem notuð er nýjasta tækni við framleiðslu þess, 63% og 78% voru nefnd í umræðunni. Ef það er svona aðkallandi mál fyrir einhvern hóp að neyta matvæla þar sem ekki er notuð nýjasta tækni við framleiðsluna finnst mér sjálfsagt að framleiðendur sem vilja uppfylla óskir þeirra merki matvæli sín sérstaklega og taki fram að þeir noti forna framleiðsluhætti við framleiðslu þeirra matvæla, þannig að sá hópur sem ekki vill neyta matvæla þar sem notuð er nýjasta tækni við geti þá mögulega fengið þá ósk sína uppfyllta.