133. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2007.

meðferðarúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.

[15:36]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur beint til mín sex spurningum. Sú fyrsta er:

„Hvað ræður mati stjórnvalda á því hvenær meðferð sjúklinga sem háðir eru neyslu áfengis- og fíkniefna er innan heilbrigðiskerfisins eða að sjúklingar eru vistaðir til meðferðar á stofnun sem fellur undir heilbrigðismálayfirvöld og hver framkvæmir þá greiningu á sjúklingnum?“

Því er til að svara að sjúkdómsmeðferð fólks er jafnan háð vilja og ákvörðun þess sjálfs nema viðkomandi hafi verið sviptur sjálfræði. Sjúkdómsgreiningar eru einungis í höndum lækna og það eru læknar sem taka ákvörðun um að vísa fólki á meðferðarúrræði innan heilbrigðiskerfisins á grundvelli sjúkdómsgreiningar. Sú tilvísun getur ýmist verið innlögn eða önnur úrræði. Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga er sjúklingur skilgreindur sem notandi heilbrigðisþjónustu, þeir sem vistast á stofnunum sem falla undir félagsmálayfirvöld eru því ekki sjúklingar í skilningi laganna og það getur því verið í höndum ýmissa aðila sem tengjast einstaklingunum svo sem ættingja, vina eða opinberra stofnana sem koma að velferð þeirra með einhverjum hætti að vísa fólki í eða leiðbeina þeim í úrræði hjá stofnunum félagsmálayfirvalda.

Í öðru lagi er spurt:

„Samræmast ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda í málefnum þessa hóps sjúklinga þeim niðurstöðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að áfengis- og vímuefnasýki sé sjúkdómur?“

Því er til að svara: Já. Hér á landi er þeim sem þjást af áfengis- og vímuefnafíkn veitt læknisfræðileg meðferð á vegum heilbrigðisþjónustunnar eins og kunnugt er. Samkvæmt upplýsingum frá yfirlækni áfengis- og vímuefnameðferðar á LSH, Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi er aðgengi að þeirri þjónustu óvíða betra en hér. Það er gott úrval og framboð er mjög fínt hér á Íslandi, samkvæmt upplýsingum hans. Innlagnir eru fleiri en þekkist í nágrannalöndum okkar hvaða viðmið sem við kjósum að nota. Á það ekki síst við um endurinnlagnir sem flestar aðrar þjóðir hafa sett mun meiri skorður við en við höfum gert hér á landi. Það er eins og kunnugt er grundvallaratriði í meðferð gegn þessari fíkn að hlutaðeigandi sé reiðubúinn til að breyta til og sé ákveðinn í að hætta drykkju og neyslu og fari í meðferð. Sé sá vilji ekki fyrir hendi getur einstaklingurinn engu að síður oft þurft á margvíslegum stuðningi samfélagsins að halda og slíkur stuðningur er veittur hér eins og í öllum öðrum löndum og hann er veittur á vegum margra mismunandi aðila. Um þennan hóp gildir því að vissu leyti hið sama og um aðra sjúklingahópa að enda þótt sjúkdómsgreiningin liggi fyrir þá er ekki öll þjónustan veitt á vegum heilbrigðisþjónustunnar.

Í þriðja lagi er spurt:

„Telur ráðherra að réttindi þessara sjúklinga séu tryggð samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga hvort sem meðferðarstarf fer fram á stofnunum heilbrigðiskerfisins eða félagsmála?“

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan er sjúklingur skilgreindur sem notandi heilbrigðisþjónustunnar samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga. Samkvæmt því eru þeir sem vistaðir eru á stofnunum félagsmálayfirvalda ekki sjúklingar. Leiti þeir til læknis gilda lög um réttindi sjúklinga gagnvart þeim á sama hátt og gagnvart hverjum öðrum sem leitar til læknis hvort sem er á heilsugæslustöð eða annars staðar innan heilbrigðiskerfisins.

Í fjórða lagi er spurt:

„Mun ráðherra beita sér fyrir því að rekstur þeirra meðferðarstofnana sem eru utan ramma heilbrigðiskerfisins verði skoðaður sérstaklega og færður undir yfirumsjón heilbrigðisyfirvalda? Ef ekki hver er þá ástæðan?“

Virðulegur forseti. Stofnanir sem beint eða óbeint heyra undir heilbrigðisráðuneytið og þjóna áfengis- og vímuefnaneytendum eru Vogur, Vík og Staðarfell á vegum SÁÁ og Hlaðgerðarkot, vistheimilið í Krýsuvík og Bjarg sem heyra undir ráðuneytið, auk geðdeilda LSH og FSA. Þetta eru sérhæfðar stofnanir og einingar en auk þess er þessum hópi sjúklinga sinnt meira eða minna á öllum stofnunum sem heyra undir ráðuneytið og þær stofnanir sem ég taldi upp áðan lúta eftirliti landlæknis. Rétt er hins vegar að skoða hvort einhver þjónusta sem nú er veitt á vegum heilbrigðisráðuneytisins ætti betur heima hjá félagsmálayfirvöldum því það er mikilvægt að skilgreina ekki þjónustu sem er í eðli sínu félagsþjónusta yfir til heilbrigðisstofnana. Mætti þar t.d. nefna Krýsuvíkurheimilið og Bjarg. Landlæknir hefur farið og heimsótt m.a. Krýsuvíkurheimilið og tjáði mér að þar væri í engu ábótavant. Hins vegar verður ekki séð í fljótu bragði að nú sé rekin á vegum félagsmálaráðuneytisins þjónusta fyrir þennan hóp sem rétt væri að skilgreina innan heilbrigðisþjónustunnar.

Ég vil einnig nefna að menn verða að hafa það hugfast að þótt einhver heilbrigðisþjónusta sé veitt á stofnunum, sambýlum eða annars staðar á heimilum eða einhver heilbrigðisstarfsmaður veiti slíkt, þá verður það heimili ekki í eðli sínu heilbrigðisstofnun fyrir vikið, alls ekki.

Í fimmta lagi, virðulegi forseti, er spurt hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að starfsemi SÁÁ verði efld þannig að hægt verði að sinna langtímameðferð á stofnunum SÁÁ. Því er til að svara já. Ég tel það skynsamlegt að auka bæði göngu- og dagdeildarþjónustu á vegum SÁÁ sem og annarra stofnana sem veita þjónustu á þessu sviði. Slíkar áherslur eru til þess fallnar að styðja við bakið á þeim sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda til lengri tíma.

Virðulegur forseti. Sjöttu spurningunni verð ég að svara í seinni ræðu. Þetta voru sex mjög langar spurningar þannig að ég kem því svari að síðar.