133. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2007.

meðferðarúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.

[15:41]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það eru tvö mál sem að undanförnu hafa vakið þjóðina til meðvitundar um meðferðarúrræði fyrir vímuefnasjúklinga, þ.e. áfengissjúklinga og sjúklinga sem neyta ólöglegra fíkniefna og lyfseðilsskyldra efna. Það eru hin alvarlegu mál Byrgisins sem hafa vakið okkur til umhugsunar og eins rekstrarerfiðleikar SÁÁ. Það er mjög brýnt að stjórnvöld viðurkenni í raun alkóhólisma sem sjúkdóm og banvænan sjúkdóm ef hann fær að þróast.

Meðferð getur verið mjög erfið og í mörgum tilfellum eingöngu hægt að draga úr einkennum með endurteknum afeitrunum, aðhlynningu og lyfjagjöf. Geðsjúkdómar eru oft undirliggjandi og gera alla meðferð og eftirfylgni erfiðari. Þetta eru þeir vímuefnasjúklingar sem heilbrigðisþjónustan hefur brugðist.

Mál Byrgisins hafa opinberað svo rækilega ábyrgðarleysi stjórnvalda í meðferðarmálum vímuefnasjúklinga að til kortlagningar og uppstokkunar á málaflokknum verður að koma hið fyrsta. Það er alveg ljóst að við höfum í dag nægileg úrræði til að greina vandann en okkur vantar úrræði fyrir langtímasjúklinga og langtímameðferð því þetta er sjúkdómur, sérstaklega hjá þeim sem þjást af geðsjúkdómum, sem getur varað ævilangt og það er mikilsvert að hjálpa þessum einstaklingum til afeitrunar, til aðhlynningar og sérstaklega til búsetuúrræða á meðferðarheimili við hæfi. Einstaklingsbundin meðferð er mjög mikilvæg og búsetuúrræði úti í þjóðfélaginu er það sem koma skal.