133. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2007.

meðferðarúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.

[15:48]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Þessi umræða er að sjálfsögðu sprottin af þeirri hörmungarsögu sem við höfum orðið vitni að í Byrginu. Það var að skilja á hæstv. ráðherra áðan að það fólk sem þangað leitaði hefði ekki endilega verið skilgreint sem sjúklingar. Því ber nú ekki saman við það sem komið hefur fram í félagsmálanefnd þar sem lagðar hafa verið fram skýrslur og viðurkennt að um sjúklinga sé að ræða. Enn fremur hefur það verið staðfest af þeim sem hafa veitt svör við spurningum nefndarinnar um þetta mál.

Lykilspurningin í þessu máli er þessi: Hver er hugmyndafræðin á bak við það að senda sjúkt fólk á meðferðarheimili þar sem hvorki er að finna sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga eða lækna — nema þá einn lækni sem er kallaður til eftir þörfum? Hverjir eru það sem ákveða hvenær læknis sé þörf? Er það viðhlítandi meðferðarúrræði, að mati heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda, að góðhjartaðir einstaklingar, trúarloddarar eða kannski fyrrverandi fíklar, opni meðferðarheimili til að annast og afeitra sjúklinga eins og átt hefur sér stað?

Athyglin hefur beinst að kynferðislegri misnotkun og öðru hneyksli sem átti sér stað austur þar en athyglin ætti að beinast að stjórnvöldum sem mæltu með fjárveitingum og létu undir höfuð leggjast að hafa eftirlit með meðferð sjúkra einstaklinga sem þangað fóru í góðri trú. Þangað sem sjúkt fólk leitar ber heilbrigðiskerfið ábyrgð og það þarf að bera ábyrgð á því að sjúklingarnir fái faglega meðferð, svo einfalt er nú það. Það var því miður ekki gert í Byrginu og sjálfsagt á fleiri stöðum. Það voru yfirvöld sem brugðust þessu fólki, þessum sjúklingum, og sá er kjarni málsins.