133. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2007.

meðferðarúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.

[15:50]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli hér á hinu háa Alþingi. Það er ansi merkilegt, eins og fram kom í máli hv. þm. Ástu Möller, að 1,5% af þjóðinni skuli leita sér meðferðar við vímuefnafíkn og drykkjusýki á hverju einasta ári.

Það er rétt, eins og fram hefur komið, að það þarf kannski ekki sömu meðferð fyrir alla þessa einstaklinga. Þess vegna hafa áherslur í starfi SÁÁ m.a. verið að breytast. Það er verið að taka upp í auknum mæli göngu- og dagdeildarþjónustu. Mál munu væntanlega þróast með þeim hætti að meira verður um meðferð án innlagna og jafnvel eftirfylgd eftir útskrift.

Eins og fram hefur komið eru menn mislangt gengnir með þennan sjúkdóm. Sumir vilja ekki meðferð og þiggja ekki meðferð, í öðrum tilvikum gengur meðferð alls ekki þó að menn fari í tugi skipta inn á Vog eða leiti sér hjálpar hjá SÁÁ. Það er m.a. þess vegna sem verið hefur samstaða um það, bæði innan og utan þessa salar, að boðið sé upp á önnur meðferðarúrræði. Almenn samstaða hefur verið um að styrkja og styðja við slíka aðila. En ég tek undir það með hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að leggja verður áherslu á faglega þjónustu í því sambandi og að meðferð á hvaða stað sem hún er, hvort sem hún er rekin innan eða utan heilbrigðiskerfisins, sé fyrst og fremst fagleg.