133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

endurmat á stöðu mála í Írak.

[10:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Nú fer víða í vestrænum löndum fram endurmat á stöðu mála í Írak og þannig hafa tvær af hinum staðföstu þjóðum sem lengi voru meðal allra dyggustu stuðningsmanna Bandaríkjamanna og innrásar þeirra í Írak, Bretar og Danir, ákveðið að fækka eða kalla heim hermenn sína á næstu mánuðum. Nýlega hefur Bandaríkjaþing lýst andstöðu við áform Bush um að fjölga hermönnum í Írak og því má segja að það fækki mjög í vinahópnum og á lista hinna staðföstu sem til varð á sínum tíma í aðdraganda þess að Bandaríkjamenn hófu ásamt Bretum hið ólögmæta innrásarstríð í landið.

Undirbúningur Bandaríkjamanna um innrás eða árás á Íran bætir svo ekki úr skák og nýlegar fréttir BBC staðfesta t.d. svo að nokkurn veginn er hafið yfir vafa að verulegur stríðsundirbúningur á sér stað hvort sem til árásar kemur eða ekki.

Nú er komið að því, virðulegi forseti, í ljósi þess endurmats sem greinilega fer fram á stöðu mála þarna, þrátt fyrir að landið rambi á barmi borgarastyrjaldar og jafnvel ófriðlegar horfi þar innan lands en nokkru sinni fyrr, að spyrja enn hvort ríkisstjórn Íslands og hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar hönd hafi eitthvað velt því fyrir sér að endurmeta afstöðu Íslands til málsins. Kemur til greina að falla þótt seint sé frá stuðningi við þetta stríð? Kemur til greina að viðurkenna mistökin og biðjast afsökunar á því sem þarna átti sér stað og, síðast en ekki síst, kemur til greina þótt seint sé að afturkalla heimildir Bandaríkjamanna til að hafa afnot af íslensku landi og landsvæði í þessu sambandi? Gjarnan hefði maður viljað heyra líka afdráttarlausa yfirlýsingu frá hæstv. forsætisráðherra um að ekki kæmi til greina að styðja á nokkurn hátt árásir (Forseti hringir.) á Íran, standi þær fyrir dyrum.