133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

endurmat á stöðu mála í Írak.

[10:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég veit að hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde er vel að sér um gang heimsmála og fylgist vel með. Þess vegna komu mér ummæli hans áðan um ástandið í Írak mjög á óvart. Í besta falli er hér á ferðinni óskhyggja, mjög mikil óskhyggja, svo mikil að hún ætti sennilega erindi í heimsmetabók Guinness. Staðreyndin er sú að ástandið í Írak hefur aldrei verið verra en nú. Þar geisar borgarastyrjöld og tugir mann falla í valinn á hverjum degi.

Við erum hér ekki að ræða framlag Íslendinga til uppbyggingar í Írak en þó vil ég minna á að ég var þeirrar skoðunar að þeim peningum væri betur varið annars staðar, í neyðarhjálp annars staðar. Það er af nógu að taka.

Írakar væru ein ríkasta þjóð í heimi ef ekki hefði verið herjað á þá, ef þeir hefðu ekki verið beittir viðbjóðslegu viðskiptabanni sem Íslendingar áttu meðal annarra þjóða aðild að og ef ekki væri stolið af þeim auðlindum. Núna er verið að taka auðlindirnar af Írökum, olíuna, í einkavæðingu og þar gína fjölþjóðaauðhringarnir yfir. Þetta er staðreynd málsins.

Síðan er hitt að nú er í undirbúningi, að því er fregnir herma, árásarstríð á Íran. Við eigum að sjálfsögðu að láta til okkar taka og í okkur heyra. Við erum ekki hernaðarþjóð, við erum engu að síður bundin öðrum þjóðum í hernaðarbandalaginu NATO og þar höfum við verið bundin fastari böndum á undanförnum árum með breyttum áherslum innan NATO. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin hefur bætt um betur með því að lýsa því yfir að við værum viljugt verkfæri í árásarstríðum. (Forseti hringir.) Er ekki ástæða til að við látum frá okkur heyra í næsta árásarstríði Bandaríkjamanna og segjum okkur frá því?