133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

endurmat á stöðu mála í Írak.

[10:47]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, hefur í skýru máli lýst að ákvörðunin um stuðning við innrásina í Írak hafi verið tekin á forsendum rangra upplýsinga. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir að þessi ákvörðun um stuðning var tekin af fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra eins og komið hefur fram við þessa umræðu. (Gripið fram í.)

Við höfum aldrei verið beinir aðilar að stríði, og verðum það vonandi aldrei. Íslendingar eru friðarþjóð. Ég bið um frið meðan ég tala hér. (Gripið fram í.) Við erum friðarþjóð. (ÖJ: Þú verður að fara með rétt mál.)

Það er náttúrlega undarlegt hvernig stjórnarandstaðan reynir í hverri viku að hræra í þessu blóði og hún heldur þessari umræðu látlaust áfram hér í þinginu. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir að við lögðum til uppbyggingarinnar 300 millj. kr., eins og kom fram í máli forsætisráðherra. (Gripið fram í.)

Ég ætlast til þess að hv. stjórnarandstöðuþingmenn svari því hvort þeir vilja að horfið verði frá þeim stuðningi. (Gripið fram í: Þetta er útúrsnúningur.) Þetta er ekki útúrsnúningur, þetta er staðreynd máls sem hér hefur komið fram, að það er reynt að hræra í ákvörðuninni sem við höfum lýst að hafi verið tekin á forsendum rangra upplýsinga. (ÖJ: Framsókn er að reyna að fiska í gruggugu vatni.)

Ég vil segja að það liggur fyrir að Bandaríkjamenn misnotuðu einnig þann vilja okkar sem við höfum oft látið í té þegar ástandið er þess eðlis með því að lýsa yfir að við værum í hópi viljugra og staðfastra þjóða. Það var þeirra einhliða ákvörðun.

Ég held að það sé best fyrir okkur Íslendinga að halda áfram á þeirri braut sem er, að styðja þessa blessuðu þjóð sem á í erfiðleikum með því að byggja hana upp á ný og ná þar friði. (ÖJ: Það verður að fylgja eftir …)