133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003--2004.

[10:54]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þann 5. febrúar sl. rak forvitnin hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í skýrslu sem hann fól Hagstofu Íslands að gera um tekjudreifingu á árunum 2003–2004.

Í ræðu sem hv. þingmaður flutti þegar hann var að svala forvitni sinni sakaði hann nafngreindan prófessor við Háskóla Íslands um stöðugar rangfærslur í umfjöllun sinni um stóraukna misskiptingu á Íslandi.

Þarna fór þingmaðurinn troðnar slóðir læriföður síns, hæstv. dómsmálaráðherra, sem hefur beitt fyrir sig furðulegum samsæriskenningum og sagt viðkomandi prófessor vera í slagtogi með hagsmunasamtökum á borð við Öryrkjabandalagið og síðan stjórnarandstöðuna í að koma pólitísku höggi á stjórnarflokkana, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk.

Ég verð að segja það að þessar árásir hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, á viðkomandi fræðimann eru mjög ómaklegar þar sem staðreyndir sýna að ef einhver hefur dregið fram tölulegar staðreyndir um aukinn ójöfnuð í samfélaginu er það sjálfur hæstv. forsætisráðherra í fyrri störfum sínum sem fjármálaráðherra. Hann hefur einmitt dregið fram að ójöfnuðurinn hefur aukist gífurlega í stjórnartíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Það hefur hann gert í svörum til undirritaðs þar sem hann hefur birt alþjóðlegan mælikvarða á ójöfnuð sem er Gini-stuðullinn sem liggur á bilinu 0 til 1. Eftir því sem stuðullinn er hærri, fjær núllinu, er ójöfnuðurinn meiri í samfélaginu.

Fyrir árið 1995 mældist ójöfnuðurinn 0,2 á Gini-stuðlinum en samkvæmt nákvæmari útreikningum hæstv. fjármálaráðherra frá því í nóvember sl., það er ekki lengra síðan, mældist ójöfnuðurinn miklum mun meiri, þ.e. 0,312 fyrir árið 2004. Það sem er stórmerkilegt við þessa umræðu er að enginn hefur dregið í efa þessa útreikninga hæstv. forsætisráðherra um að ójöfnuðurinn hafi aukist í samfélaginu, ekki einu sinni hugmyndafræðingar Sjálfstæðisflokksins, prófessorarnir Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Ragnar Árnason.

Ragnar hefur hins vegar bent á að aukinn ójöfnuður í samfélaginu hafi ekki orðið vegna mikilla breytinga á atvinnutekjum, heldur miklu frekar vegna aukinna fjármagnstekna þeirra sem hafa allra hæstu tekjurnar.

Skýringin á nýjum útreikningum Hagstofunnar virðist vera sú að Hagstofan sleppi hreinlega að taka með í reikninginn tekjur af fjármagni eða a.m.k. stóran hluta þeirra tekna. (Gripið fram í.)

Hagstofan er ekki langt frá því að sýna svipað gildi og var reiknað út fyrir ójöfnuð — ég sé að hv. þingmanni verður órótt við þetta — 2003 (Gripið fram í.) þegar tekjum af fjármagni var sleppt, frú forseti. Það er mjög svipað.

Þetta hefur umtalsverð áhrif, sérstaklega í ljósi þess að um 17% af heildartekjum eru af fjármagni. Þegar þessu er sleppt eða stórum hluta kemur það auðvitað við útreikningana. (Gripið fram í.)

Það gefur kolranga mynd af stöðu mála að taka ekki með í reikninginn þann þátt sem hefur orðið valdur að hvað mestum ójöfnuði í samfélaginu, ef á annað borð á að reikna ójöfnuðinn. (Gripið fram í.) Helmings fjármagnstekna er aflað einmitt af þeim hópi fólks sem hefur allra hæstu tekjurnar. Við að sleppa því að taka þennan þátt með í reikninginn, tekjur af fjármagni, reiknast þeir sem eru í fátækasta fimmtungi samfélagsins að jafnaði með þrisvar sinnum lægri tekjur en þeir sem tilheyra þeim fimmtungi sem afla mestra tekna. (Gripið fram í: Hver reiknaði þetta eiginlega?) Það var Ragnar Árnason, hv. þingmaður, sem reiknaði þetta.

Þessi munur verður sexfaldur þegar allar tekjur heimilanna eru teknar með í reikninginn, þ.e. einnig tekjur af fjármagni. Þá sést hinn raunverulegi ójöfnuður í samfélaginu.

Síðan bætist annað við og það er skattastefna stjórnarflokkanna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, (Gripið fram í.) sem hefur haft bein áhrif á misskiptinguna þar sem skattbyrðin hefur verið þyngd mest á þeim sem hafa lægstu tekjurnar og í rauninni á öllum tekjuhópum nema einum, þeim hópi sem hefur 10% hæstu tekjurnar. Hann hefur fengið afléttingu skatta.

En þetta er ekki sá hópur sem hefur aflað sér mikilla launa vegna þess að hann leggi mikið á sig í störfum eða með langri skólagöngu. Nei, þetta eru tekjur sem þessi hópur aflar (Forseti hringir.) af fjármagni. Það eru staðreyndir málsins og sá hópur greiðir einungis 10% af tekjum sínum í fjármagnsskatta á meðan aðrir landsmenn greiða miklum mun meira.