133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003--2004.

[11:00]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri hér til að ræða efni þessarar skýrslu. Það er rangt sem hv. þingmaður hélt fram í upphafi máls síns að ég hafi falið Hagstofunni að vinna þetta verk. Þetta verk, sú skýrsla sem hér er, er hluti af sameiginlegu verkefni sem Hagstofa Íslands tekur þátt í með sambærilegum stofnunum í Evrópusambandslöndunum. Þetta er allt gert á grundvelli alþjóðlegs samanburðar og alþjóðlegra staðla um meðferð þess talnaefnis sem hér er um að ræða. Það er ekkert um það að ræða að eitthvert eitt land noti einhverjar sérstakar aðferðir umfram önnur.

Það er gott að fá tækifæri til að vekja athygli á þessari skýrslu vegna þess að í henni felast merkar niðurstöður. Óvíða er meiri tekjujöfnuður í Evrópu en hér á landi. Niðurstöðurnar og skýrslan staðfesta að hin mikla kaupmáttaraukning sem hér hefur orðið á undanförnum árum hefur skilað sér til allra tekjuhópa en ekki orðið til að auka ójöfnuð eins og sumir hafa haldið fram, jafnt stjórnarandstaðan sem tilteknir fræðimenn.

Hér koma tölur sem byggja á alþjóðlega viðurkenndum mælikvörðum. Það er stuðst við upplýsingar úr samræmdri lífskjarakönnun Evrópusambandsins sem einnig nær til Íslands, Noregs og Sviss. Það tryggir að tölurnar eru sambærilegar milli landa. Í skýrslunni eru birtir þrír mismunandi mælikvarðar á jöfnuð og þeir sýna allir sömu mynd, að Ísland er í hópi þeirra landa þar sem jöfnuðurinn er hvað mestur. Þeir sýna einnig svo ekki verður um villst að ójöfnuður hefur ekki aukist hér á landi á undanförnum árum.

Förum aðeins yfir þessa mælikvarða. Ég veit að hv. fyrirspyrjandi er mikill áhugamaður um hinn svokallaða Gini-stuðul. Gini-stuðullinn er tiltekinn stærðfræðilegur mælikvarði sem fundinn er með því að reikna ákveðið hlutfall út frá svokallaðri algjörri jöfnun í tekjuskiptingu þar sem tekjur í einu þjóðfélagi skiptast nákvæmlega jafnt á milli þegnanna.

Fyrsti mælikvarðinn er sem sé þessi svokallaði Gini-stuðull. Samkvæmt skýrslunni eru einungis þrjár Evrópuþjóðir með lægri Gini-stuðul og þar með meiri tekjujöfnuð en Ísland á árinu 2004. Þetta eru Svíþjóð, Danmörk og Slóvenía. Samanburðurinn er enn hagstæðari þegar annar mælikvarði er notaður, svokölluð lágtekjumörk sem kalla mætti einnig fátæktarmörk en þar reynist aðeins Svíþjóð vera með lægra lágtekjuhlutfall. Ísland er þar í öðru sæti á undan hinum Norðurlandaþjóðunum sem hlýtur að gleðja ýmsa sem líta til Norðurlandaþjóðanna sem fyrirmyndarríkja.

Þriðji mælikvarðinn í þessari skýrslu er síðan svokallaður fimmtungastuðull sem mælir efsta fimmtung tekjuhæstu einstaklinganna á móti þeim fimmtungi sem minnstar hefur tekjurnar. Þessi mælikvarði gefur sömu niðurstöðu, þ.e. aðeins Svíþjóð og Slóvenía mælast með lægri stuðul.

Ég vek sérstaka athygli á því að hér er gengið út frá ráðstöfunartekjum einstaklinga, þ.e. heildartekjum að teknu tilliti til skatta. Í því felst jafnframt að allar fjármagnstekjur aðrar en söluhagnaður af hlutabréfum eru teknar með í reikninginn. Ástæðan fyrir því að söluhagnaður af hlutabréfum er undanskilinn er m.a. sú að þær tekjur eru óreglulegar, geta verið miklar eitt árið en hverfandi og jafnvel neikvæðar næsta ár. Niðurstöðurnar sýna að það er falskenning hjá stjórnarandstöðunni, og reyndar ýmsum fleirum, að þær skattkerfisbreytingar sem hér hafa verið gerðar á undanförnum árum hafi orðið til að auka stórlega ójöfnuð í landinu og orðið til að færa Ísland í hóp þeirra ríkja þar sem ójöfnuðurinn er hvað mestur. Sú falskenning er afsönnuð með þessari skýrslu. Þetta er einfaldlega rangt eins og skýrslan sýnir skýrt og skilmerkilega. Niðurstöðurnar eru reyndar svo skýrar og afdráttarlausar að jafnvel stjórnarandstaðan getur ekki snúið út úr þeim eða túlkað á annan hátt en hér hefur verið gert.

Skýringin á því að Gini-stuðull er samkvæmt Hagstofunni lægri en tölur ríkisskattstjóra sem fjármálaráðuneytið hefur stuðst við og hv. fyrirspyrjandi vitnaði til er sú að ríkisskattstjóri og fjármálaráðuneytið studdust í sínu svari við allar fjármagnstekjur og töldu þær með. En Hagstofan undanskilur, eins og ég sagði, söluhagnað af hlutabréfum í samræmi við þá alþjóðlegu staðla sem notaðir eru í þessu máli. Ég vil þess vegna lýsa mikilli ánægju með skýrsluna og við hljótum öll að fagna því að nú er fengin niðurstaða í þessu máli þar sem rangfærslur hafa verið allt of miklar og allt of lengi í þessari umræðu.