133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003--2004.

[11:15]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég held að þessi umræða sanni að því verði seint haldið fram um stjórnarandstöðuna að henni þyki sérstaklega vænt um sannleikann eða gefi eitthvað fyrir vísindalegar rannsóknir vegna þess að því er enn haldið fram fyrirvaralaust að hér á landi hafi misskipting og ójöfnuður stóraukist og því er líka fyrirvaralaust haldið fram að hann sé meiri hér á landi annars staðar en í hinum vestræna heimi. Auðvitað er þetta rangt. Þetta er rangt vegna þess að vitnisburðurinn kemur fram í nýlegri skýrslu Hagstofu Íslands um lágtekjumörk og tekjudreifingu fyrir árið 2004. Þær niðurstöður eru gerólíkar þeim niðurstöðum sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa haldið fram í dag og ýmsir fræðimenn sem hafa fjallað um þetta mál, þar á meðal Stefán Ólafsson, af því að á hann var minnst. (Gripið fram í.)

Í skýrslunni kemur m.a. fram að hlutfall íslenskra heimila sem eru fyrir neðan lágtekjumörk er með því lægsta sem gerist í Evrópu og það kemur líka fram að misskipting tekna er minni hér á landi en víðast hvar í samanburðarlöndunum. (Gripið fram í.) Til einföldunar má segja að skýrsla Hagstofunnar leiði í ljós að tekjuskipting á Íslandi er mun jafnari en í flestum öðrum ríkjum og þetta eru stórmerkilegar niðurstöður vegna þess að þær byggjast á samevrópskri aðferðafræði. (Gripið fram í.) Niðurstöðurnar sýna fram á allt annan veruleika en stjórnarandstaðan hefur haldið fram og helstu fátæktarfræðingar Íslands líka, og slá algerlega vopnin úr höndum þessara aðila.

Ég tel, frú forseti, að kominn sé tími til að stjórnarandstaðan fari að skipta um gír, sjái ekki bara allt svart og neiti að horfast í augu við raunveruleikann vegna þess að stjórnarandstaðan virðist fá eitthvað út úr því að slá ryki í augu almennings. (Gripið fram í.) Þið ættuð að fara að viðurkenna niðurstöðu skýrslunnar og fagna þeim vegna þess að þær eru jákvæðar fyrir þjóðina og þær eru jákvæðar fyrir ríkisstjórnina, frú forseti.

Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er um þessar mundir rekið umfangsmikið dómsmál og dómarinn í því máli hefur sagt við málsaðilana að vera ekki að deila við dómarann. Ég held að stjórnarandstaðan ætti heldur ekki að gera það í þessu máli. (Gripið fram í: Það þarf að skipta um stjórnarandstöðu.) (Gripið fram í.)