133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003--2004.

[11:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvernig almenningi í landinu og þeim sem búa við kröpp kjör líki umræða sem snýst upp í þrætur og ásakanir á víxl um alls konar samanburðarmælingar og það hvort þessi eða hinn fræðimaðurinn hafi rétt fyrir sér, hvort þetta eigi að bera saman svona eða hinsegin. Ætli það sé ekki veruleiki fólks sem segi því sjálfu mest um það hvað er að gerast? (Gripið fram í: Eigum við ekki bara að sleppa mælingunum?) Ætli við gerðum ekki rétt í því, þingmenn, að tala af svolítið meiri hófstillingu og virðingu í ljósi þess að ein staðreynd er staðreynd og það er að fjöldi fólks í samfélaginu á erfitt. Það eru þúsundir fjölskyldna sem eiga í miklum erfiðleikum með að ná endum saman. Það er fátækt í íslensku samfélagi. Þetta er veruleiki sem við verðum að horfast í augu við hvað sem öllum samanburðaræfingum og þrætum um mælikvarða líður. Við erum það ríkt samfélag að við ættum að geta sameinast um það að við viljum ekki slíkt ástand. Við viljum leita leiða til að breyta þessu. Væri ekki uppbyggilegra að menn einsettu sér það og ræddu hvað við gætum gert til að sá veruleiki hverfi frá okkur?

Ég held að það sé óskaplega misheppnuð umræða, satt best að segja, sem gengur út á ásakanir á báða bóga af því tagi sem við höfum orðið vitni að í umræðum um samanburð og mælingar á undanförnum vikum og mánuðum. Ég held að tilfinning almennings sé sú og hún er studd mjög mörgum vísbendingum, að það dregur hratt í sundur á Íslandi milli þeirra sem mest hafa og þeirra sem minnst hafa. Það eru til ótal aðferðir til að bera það saman. Hvort við tökum þau 5% sem lakast eru sett og þau 5% sem mest hafa eða 20 prósentin á báðum endum, getur t.d. alveg skipt sköpum um hvar við stöndum í þessum efnum. En veruleikinn, það sem snýr að fólki sjálfu, er það sem við ættum aðallega að vera að ræða um hér.