133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Norræna ráðherranefndin 2006.

569. mál
[11:40]
Hlusta

Sigríður A. Þórðardóttir (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir starfsárið 2006. Í henni er fjallað um störf deildarinnar, starfsemi nefnda Norðurlandaráðs, fundi þess og Norðurlandaráðsþings sem að þessu sinni var haldið í Kaupmannahöfn.

Skýrslan liggur fyrir og ég sé ekki ástæðu til að fara nákvæmlega í efnisatriði hennar hér. Ég mun hins vegar hnykkja á ýmsum þáttum í norrænu samstarfi á árinu sem mér þykja mikilvægir. Að öðru leyti vísa ég til skýrslunnar í heild sem liggur fyrir í prentuðu þingskjali.

Norrænt samstarf stendur traustum fótum og nýtur mikils stuðnings meðal almennings á Norðurlöndum. Í skoðanakönnun sem Norðurlandaráð lét gera á öllum Norðurlöndunum í október sl. í aðdraganda Norðurlandaráðsþings kom í ljós að almenningur þekkir vel til og hefur jákvætt viðhorf til norræns samstarfs. Á Íslandi þekkja 90% til Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar og 69% telja Norðurlöndin mikilvægan samstarfsaðila fyrir Ísland á alþjóðavettvangi. Til samanburðar má geta þess að 52% nefndu ríki Evrópusambandsins, 23% Bandaríkin og 22% Kína. Þetta eru ánægjulegar og merkilegar niðurstöður. Ef borið er saman við sambærilega könnun sem gerð var fyrir 14 árum telja mun fleiri Íslendingar nú en þá að starf Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar hafi gildi fyrir almenning á Norðurlöndum.

En hvað finnst þá fólki að norrænt samstarf eigi að snúast um? Samkvæmt skoðanakönnuninni telja Íslendingar þrjá málaflokka mikilvægasta. Í fyrsta lagi möguleikann til náms og rannsókna í öðrum norrænum ríkjum. Í öðru lagi baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Í þriðja lagi umhverfismál. Þegar þessar áherslur eru bornar saman við störf Norðurlandaráðs á árinu kemur í ljós að einmitt þessir málaflokkar voru mjög til umfjöllunar þar á síðasta ári og einnig á Norðurlandaráðsþinginu í Kaupmannahöfn í vetur. Þarna er samhljómur sem rennir enn frekari stoðum undir það erindi sem norrænt samstarf á til þjóða Norðurlanda. Norðurlöndin eru eitt atvinnu-, menntunar- og búsetusvæði.

Norræna samstarfið er ekki síður mikilvægt í dag en þegar til þess var stofnað fyrir rúmri hálfri öld. Það hefur sannarlega haft burði til að aðlagast breyttum heimi og eflast á þeim sviðum sem íbúar landanna telja mikilvæg. Það sem einkennir Norðurlöndin sérstaklega er sterk lýðræðishefð, sameiginlegur menningararfur, velferðarkerfi samhliða markaðshagkerfi, langur lífaldur, há fæðingartíðni, fjárfestingar og gott umhverfi fyrir einkarekin fyrirtæki ásamt afar góðri stöðu jafnréttismála. Raunar þeirri bestu í heimi, enda má segja að Norðurlöndin tróni oftast á toppnum í hvers kyns alþjóðlegum samanburði.

Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að gera fólki og fyrirtækjum sem auðveldast að lifa og starfa í fleiru en einu landi. Landamærahindranir og leiðir til að ryðja þeim úr vegi fyrir fyrirtæki og einstaklinga, þar með talið námsmenn, voru til umfjöllunar á Norðurlandaráðsþinginu. Það hefur mikið áunnist nú þegar í þessum efnum og á síðasta ári voru um 16 þúsund Íslendingar búsettir annars staðar á Norðurlöndum við nám og störf. En stöðugrar árvekni er þörf því að það koma alltaf í ljós fleiri stjórnsýsluhindranir sem þarf að yfirstíga. Um leið og búið er að laga vandamál á einum stað kemur upp vandamál einhvers staðar annars staðar. Það er okkar viðfangsefni að leysa úr þessum málum. Á þinginu í Kaupmannahöfn samþykkti Norðurlandaráð tvenn tilmæli í þessum efnum. Annars vegar tilmæli til ríkisstjórna norrænu landanna um að sameinast um áherslur í eftirfylgni ákvarðana um afnám landamærahindrana svo að þær öðlist lagagildi og verði framkvæmanlegar. Hins vegar tilmæli til norrænu ráðherranefndarinnar um að sjá til þess að í framtíðinni verði sett ákveðin tímamörk eða tímanleg markmið um aðgerðir til að draga úr landamærahindrunum.

Norræna ráðherranefndin hefur nú þegar brugðist vel við og útnefnt sérstaka fulltrúa til að knýja á um að hindrunum sé rutt úr vegi hvað varðar viðskipta- og atvinnulíf og félags- og heilbrigðismál. Vegna mikilvægis málsins heldur þó umræðan stöðugt áfram innan Norðurlandaráðs og við þurfum að vera þar á verði. Meðal annars hefur verið rætt um að stofna skrifstofu sem norrænir borgarar og fyrirtæki gætu leitað til sem hefðu það verksvið að koma úrlausnarefnum á framfæri við Norðurlandaráð og norræn þjóðþing, benda á úrbætur í lögum landanna og koma með tillögur um gerð nýrra norrænna samninga sem stuðla að sveigjanleika í þessum efnum á Norðurlöndunum. Augljóst er að málefnið er mikilvægt og nauðsynlegt að halda áfram umræðunni um hvernig yfirstíga má stjórnsýsluhindranir hvort sem það verður með slíkri skrifstofu eða ekki og gera það að sjálfsögðu í mjög góðu samráði við norrænu ráðherranefndina.

Baráttan gegn skipulagðri glæpastarfsemi var einnig ofarlega á dagskrá Norðurlandaráðs, einkanlega baráttan gegn mansali. Samþykkt voru tilmæli til norrænu ráðherranefndarinnar um átak á Norðurlöndum gegn miðlun kynlífsviðskipta, athvörf fyrir fórnarlömb mansals á Norðurlöndum, Norðvestur-Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum og baráttu gegn mansali til kynlífsþrælkunar. Mansal er ört vaxandi skipulögð glæpastarfsemi sem þrífst á grófum mannréttindabrotum og nauðsynlegt er að berjast gegn því í alþjóðlegu samstarfi. Því ber sérstaklega að vekja athygli á þeim tilmælum Norðurlandaráðsþingsins til ráðherranefndarinnar að semja í samráði við Norðurlandaráð sameiginlega norræna framkvæmdaáætlun um baráttu gegn mansali til kynlífsþrælkunar. Það mál þarf að komast á dagskrá með afgerandi hætti á næstunni.

Þá vík ég að umhverfismálum sem lengi hafa verið í brennidepli í samstarfinu. Í því sambandi er vert að vekja athygli á umfjöllun um loftslagsbreytingar sem svo mjög hafa verið í umræðunni á Íslandi upp á síðkastið. Loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra eru æ áleitnari viðfangsefni einkum fyrir norðlægustu löndin. Bráðnun norðurskautsíssins opnar að öllum líkindum nýjar siglingaleiðir og auðveldar aðgang að náttúruauðlindum en mikilvægt og brýnt er að huga að umhverfissjónarmiðum við nýtingu á þeim möguleikum sem breytingarnar hafa í för með sér ásamt mengunar- og slysahættu sem gæti stafað af auknum siglingum. Loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim eru í eðli sínu alþjóðlegt verkefni. Norðurlöndin eru þekkt fyrir þekkingu sína á umhverfismálum. Því er mikilvægt að þau taki virkan þátt í alþjóðlegri umfjöllun um takmörkun á gróðurhúsalofttegundum enda hafa þau lengi verið í forustusveit í umhverfismálum og njóta virðingar í alþjóðlegri samvinnu fyrir áherslur sínar og stefnu og þann árangur sem þau hafa náð í þeim málum.

Ég get ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um stöðu sjálfstjórnarsvæðanna. Þá vil ég sérstaklega nefna að Færeyingar hafa sótt um fullgilda aðild að samstarfinu, bæði hvað varðar Norðurlandaráð og norrænu ráðherranefndina. Málið er flókið þar sem um þrjú svæði er að ræða með ólíka stöðu gagnvart þeim ríkjum sem þau tilheyra. Þá er ekki enn nógu ljóst hver afstaða þeirra landa sem í hlut eiga raunverulega er. Aðeins sjálfstæð ríki eiga aðild að Helsinki-sáttmálanum sem er grundvöllur norræns samstarfs. Ef sjálfstjórnarsvæðin eiga að eiga fullgilda aðild að opinberu norrænu samstarfi þyrfti að breyta honum. Það gæti því reynst farsælt við núverandi aðstæður að láta á það reyna að leita allra leiða til að styrkja stöðu sjálfstjórnarsvæðanna innan ramma þess samstarfs sem er fyrir hendi áður en tímabært er að ræða breytingar á Helsinki-sáttmálanum. Ég veit að þessi vinna er í fullum gangi hjá ráðherranefndinni hjá samstarfsráðherrunum. Til þess að ræða slíkar grundvallarbreytingar þarf að ríkja fullur einhugur meðal landanna um að ráðast í þær. Þá er ég að tala um að ef niðurstaðan á einhverjum tímapunkti yrði sú að fara þyrfti í breytingar á Helsinki-sáttmálanum. Þá yrði það líka að vera ljóst að sjálfstjórnarsvæðin öll væru að fullu reiðubúin að gangast undir allar skyldur því samfara. Ég tel að innan Norðurlandaráðs sé mikill vilji til að ráða málum til lykta í fullri sátt.

Að síðustu vík ég sérstaklega að samkeppnishæfni Norðurlanda á alþjóðlegum vettvangi. Í framhaldi af greiningarvinnu um styrk Norðurlanda er það viðhorf sífellt meira áberandi í norrænu samstarfi að Norðurlöndin, sem eru svæði í fararbroddi á heimsvísu, eigi sérstaka möguleika og sóknarfæri til framtíðar. Þau eiga ákveðin sameiginleg gildi en einnig mismunandi styrkleikaþætti sem nýta má til að einkenna þau á alþjóðavísu. Með öðrum orðum svæðasamstarf á borð við það norræna sem hefur áratugahefð að baki getur verið lykilatriði til að styrkja bæði samkeppnishæfni svæðisins í heild og einstakra landa innan þess. Sú áhersla verður áfram áberandi í norrænu samstarfi á næstunni og settur hefur verið á fót starfshópur til að fylgja þessum hugmyndum eftir. Einnig er hugsanlegt að komið verði á fót eins konar norrænu alþjóðaráði í þessu sambandi en of snemmt er að segja til um störf þess fyrr en að því kemur. Ljóst er að fram undan eru spennandi tímar í norrænu samstarfi með aukinni áherslu á alþjóðamál.

Ég hef reifað í stuttu máli þær meginlínur í starfi Norðurlandaráðs á síðasta starfsári sem mér hefur þótt sérstök ástæða til að vekja athygli á. Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka þingmönnum Íslandsdeildarinnar og samstarfsráðherrum okkar í Norðurlandaráði fyrir gott og árangursríkt samstarf á árinu.