133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Norræna ráðherranefndin 2006.

569. mál
[11:53]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Á þskj. 628 liggur fyrir skýrsla Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir síðastliðið ár og vil ég í ræðu minni geta nokkurra atriða sem þar standa. Meginmarkmið Vestnorræna ráðsins er að vinna að hagsmunum grannríkjanna þriggja, Færeyja, Grænlands og Íslands, en þessar smáþjóðir ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd. Samskipti þeirra eiga sér langa og merkilega sögu. Þar gegnir Vestnorræna ráðið mikilvægu hlutverki. Ráðinu er ætlað að gæta auðlindar, velferðar og menningar þjóðanna á sem víðtækastan hátt og skrifstofa þess er alþjóðasvið Alþingis. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landstjórna með virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samstarfi við aðra aðila og samtök á Vestur-Norðurlöndum og skipulagningu á ráðstefnum og öðrum verkefnum.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins var mjög virk í störfum sínum á síðastliðnu ári. Þar ber að nefna að meðlimir hennar tóku virkan þátt í undirbúningi þemaráðstefnu um ferðamál sem haldin var á Grænlandi og á ársfundi ráðsins sem að þessu sinni var haldinn í Færeyjum. Mikil og góð umræða var á fundum Íslandsdeildar og var ákveðið að hún legði fram þrjár tillögur til ályktana á ársfundi ráðsins og voru þær allar samþykktar. Vestur-Norðurlönd og samstarf þeirra nutu nokkurrar athygli á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn. Sem dæmi um það má nefna að fríverslunarsamningur Færeyja og Íslands, Hoyvíkursamningurinn, tók gildi 1. nóvember og utanríkisráðherra Íslands tilkynnti um fyrirhugaða opnun aðalræðismannsskrifstofu í Færeyjum. Auk þess lýstu ráðherrar Íslands, Danmerkur og Noregs áhuga á að auka samstarf á sviði leitar- og björgunarmála. Formaður forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins hafði lagt áherslu á mikilvægi slíks samstarfs á fundum nefndarinnar á þinginu með ráðherrum.

Í desember 2005 voru tilkynntar tilnefningar til Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins árið 2006. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár og var þetta í þriðja skipti sem slíkar tilnefningar voru veittar. Dómnefndir landanna tilnefna eina bók frá hverju landi. Vestnorræna dómnefndin veitti bókinni Hundur, köttur og mús eftir færeyska rithöfundinn Bárð Oskarsson verðlaunin 2006 og voru þau afhent við hátíðlega athöfn í tengslum við ársfund ráðsins í ágúst. Verðlaunin verða næst veitt árið 2008.

Markmiðið með barnabókaverðlaununum er að hvetja vestnorræna barna- og unglingabókahöfunda til dáða. Auk þess er vonast til að með verðlaununum verði ungmennum Vestur-Norðurlanda gert betur kleift að kynna sér vestnorrænar bókmenntir og menningu en þær bækur sem hljóta tilnefningu eru þýddar á vegum menntamálaráðuneyta landanna á vestnorrænu málin og á dönsku.

Dagana 6.–9. júní var þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um ferðaþjónustu haldin í bænum Maniitsoq á vesturströnd Grænlands. Rúmlega 40 fulltrúar frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi sóttu ráðstefnuna. Meginmarkmið hennar var að efla upplýsingaflæði milli landanna í þessum málaflokki og finna fleti á frekara samstarfi. Þingmenn báru saman bækur sínar um ástand og framtíð ferðaþjónustunnar. Leitað var leiða til að auka samvinnu landanna á milli og gera þá samvinnu sem fyrir er markvissari. Einnig var horft til samkeppnishæfni svæðisins og markaðssetningar þess í heild. Alþjóðlegir sérfræðingar fluttu erindi um margvíslega þætti ferðaþjónustunnar og hugsanlegt nánara samstarf og markaðssetningu landanna þriggja.

Á ráðstefnunni kom fram að löndin þrjú þyrftu að gera sér grein fyrir styrkleikum sínum og leggja í því sambandi áherslu á náttúru, menningu og mat sem mikilvæga þætti í þeirri einstöku reynslu sem ferðalög um vestnorrænu löndin getur verið. Ekki sé mögulegt né eftirsóknarvert að keppa við suðlægari láglaunalönd um fjölda ferðamanna. Í erindum frá löndunum þremur komu fram óskir um náið samstarf, sérstök áhersla var lögð á menntun starfsmanna í ferðaþjónustu. Löndin þrjú kynntu auk þess stöðu ferðamála hvert í sínu landi. Flestir ferðamenn koma til Íslands og er unnið að því að reyna að fjölga þeim sem fljúga áfram til hinna landanna tveggja, Færeyja og sérstaklega Grænlands. Þó nokkur bjartsýni ríkir um framtíð ferðaþjónustu í löndunum. Á Grænlandi eru t.d. bundnar miklar vonir við beint flug til Baltimore í Bandaríkjunum.

Í tengslum við þróun ferðamannaþjónustu var rætt um mikilvægi góðra samgangna. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, lagði áherslu á mikilvægi frjálsra flugsamgangna milli landanna þriggja og að gerður yrði samningur milli þeirra, Open Sky sem kallað er, til þess að flugfélögin hafi algjörlega frjálsar hendur, sem ég tel að sé nauðsynlegt fyrir svo smáar þjóðir. Hann sagði einnig mikilvægt að flugbrautir yrðu lengdar og aðstaða á flugvöllum bætt auk þess sem mikilvægt væri fyrir Grænlendinga að hafa flugvelli sína opna á sunnudögum.

Dagana 18.–22. ágúst 2006 var ársfundur Vestnorræna ráðsins haldinn í Þórshöfn í Færeyjum. Meginmálefni fundarins voru ferðaþjónusta, loftslagsbreytingar og fríverslun. Í ræðu Ole Stavads, forseta Norðurlandaráðs, kom fram að forsætisnefndir Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins væru sammála um að gerð yrðu drög að formlegum samstarfssamningi þessara tveggja ráða. Mér er það ánægjuefni að upplýsa að það hefur gengið eftir og hefur samningurinn verið undirritaður. Ole Stavad lagði áherslu á að nauðsynlegt væri að færa athygli Norðurlandaráðs aftur til vesturs, en frá lokum kalda stríðsins hefði athygli þess beinst í síauknum mæli að Eystrasaltinu, Rússlandi og Austur-Evrópu almennt. Hann fjallaði einnig um hugsanlega aðild Færeyja og Grænlands og raunar Álandseyja að Norðurlandaráði. Sagði hann að málið væri pólitískt úrlausnarefni frekar en lagalegt deilumál.

Mikil umræða spannst um ferðamál í ljósi þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins og umhverfismál, m.a. um framtíð endurnýjanlegra orkugjafa í vestnorrænu löndunum. Hugmyndir eru um frekari nýtingu vetnis á Íslandi og í Færeyjum auk þess sem Grænlendingar stefna að aukinni nýtingu vatnsorku. Þó nokkur umræða spannst einnig um jafnréttismál á Vestur-Norðurlöndum. Sérstaklega var rætt um hversu fáar konur sitja á færeyska þinginu.

Ársfundurinn samþykkti að þessu sinni fimm ályktanir sem verða lagðar fram sem þingsályktunartillögur á þjóðþingunum þremur. Í fyrsta lagi samþykkti ársfundurinn að leggja til við ríkisstjórnirnar að löndin opni ræðismannsskrifstofur með sendifulltrúastöðu hvert hjá öðru. Í öðru lagi skal ræða möguleika á stækkun fríverslunarbandalags Íslands og Færeyja (Hoyvíkursamkomulagið) með þátttöku Grænlands. Ráðið benti á að vestnorrænu þjóðirnar ættu langa samstarfshefð að baki og að fríverslunarsvæði milli eyjanna í Norður-Atlantshafi væri hagfellt íbúum, stjórnvöldum og atvinnulífi landanna þriggja, en í Hoyvíkursamkomulaginu er gert ráð fyrir að það geti tekið til Grænlands. Í þriðja lagi leggur ársfundurinn til við ríkisstjórnirnar að mörkuð verði stefna í ferðamálum fyrir löndin í heild sinni. Þar verði gerðar áætlanir um styrkingu sameiginlegrar markaðssetningar landanna sem ferðamannasvæðis og lögð áhersla á frekari fræðslu og kennslu í ferðamálafræðum. Í fjórða lagi var lagt til við ríkisstjórnirnar að í grunnskólum landanna yrði með skipulögðum hætti lögð áhersla á kennslu í sögu, samfélagsgerð, menningu og tungumálum grannlanda á Vestur-Norðurlöndum. Í fimmta lagi var samþykkt að styrkja samstarf og upplýsingagjöf um skaðsemi reykinga.

Vestnorræna ráðið fagnar tíu ára afmæli í vor. Því var ákveðið að standa að sameiginlegri Vestnorrænni frímerkjaútgáfu að tillögu Vestnorræna ráðsins og er það í fyrsta sinn sem löndin gefa út sameiginlegt frímerki. Frímerkin eru komin út í löndunum þrem og mér þykja þau falleg og vel gerð.

Herra forseti. Það er ljóst að margvísleg málefni eru á döfinni hjá Vestnorræna ráðinu sem varða auðlindir, velferð og menningu Vestnorrænu landanna þriggja og er það von Íslandsdeildar að þessum málum verði áfram sýndur áhugi hér á Alþingi sem vert er. Að þeim orðum sögðum lýk ég máli mínu um störf Vestnorræna ráðsins.