133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Norræna ráðherranefndin 2006.

569. mál
[12:30]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Ég vil þakka formanni Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur, fyrir að draga fram meginlínur í starfi Norðurlandaráðs á síðasta ári. Sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs vil ég víkja nánar að starfi þeirrar nefndar á starfsárinu en í henni áttu einnig sæti af Íslands hálfu Steingrímur J. Sigfússon, sem jafnframt var varaformaður hennar.

Efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni.

Nefndin kom saman til fundar fjórum sinnum á árinu. Auk hefðbundinna nefndarfunda heimsótti efnahags- og viðskiptanefnd norrænu nýsköpunarmiðstöðina Nordisk InnovationsCenter, NICe, og átti þar fund með Odd Eriksen, viðskiptaráðherra Noregs, auk þess kynnti Kjetil Storvik, forstjóri NICe, starfsemi og framkvæmdaáætlanir stofnunarinnar.

Einnig hélt efnahags- og viðskiptanefnd sameiginlegan fund með fulltrúum frá efnahags- og viðskiptanefndum norrænu þjóðþinganna þar sem fram fór gagnkvæm upplýsingagjöf um framgang og stöðu mála.

Efnahags- og viðskiptanefnd átti á starfsárinu 2006 frumkvæði að eftirfylgni innan Norðurlandaráðs við skýrsluna „Norðurlönd – sigursvæði á heimsvísu“, eða Norden som global vinderregion. Skýrslan fjallaði um sameiginlega einkennisþætti í samfélögum Norðurlanda sem styrkja þau sem eitt svæði við markaðssetningu á alþjóðavettvangi. Meðal þessara þátta má nefna umhverfismál, lýðræðishefð, stöðu jafnréttismála, velferðarmál, og stuttar boðleiðir milli almennings og valdhafa.

Skipaður var vinnuhópur fjögurra nefnda í málinu og í þeim vinnuhópi áttu fulltrúa menningar- og menntamálanefnd, velferðarnefnd og umhverfis- og náttúruauðlindanefnd. Fulltrúi Íslandsdeildar í hópnum var Arnbjörg Sveinsdóttir. Vinnuhópurinn skilaði árangursríku starfi undir góðri forustu Marion Pedersen frá Danmörku. Það starf leiddi af sér að frekari skriður komst á málið og það varð víðtækara og er hugsanlegt, eins og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir kom inn á áðan, að á starfsárinu 2007 verði komið á fót sameiginlegu alþjóðavæðingarráði fyrir Norðurlöndin til að treysta stöðu Norðurlandanna í alþjóðlegri samkeppni.

Á Norðurlandaráðsþinginu í Kaupmannahöfn voru samþykkt þrenn tilmæli sem lögð voru fram af efnahags- og viðskiptanefnd. Tvenn þeirra fjölluðu, eins og formaður Íslandsdeildar greindi frá í framsögu sinni, um afnám landamærahindrana. Sú vinna er ákaflega mikilvæg einnig hvað fyrirtæki varðar. Því eins og dæmin sanna eflir útrásin sameiginlegan markað norrænna fyrirtækja og samkeppnishæfni þeirra um leið.

Þriðju tilmælin sem hlutu samþykki var beint til norrænu ráðherranefndarinnar um að láta gera samanburðarúttekt á frumkvöðlum á Norðurlöndum. Á þeim grundvelli gætu Norðurlöndin lært hvert af öðru auk þess sem það gæti orðið liður í aðgerðum í tengslum við Norðurlönd sem sigursvæði á heimsvísu.

Ég er sannfærð um að varðandi frumkvöðlastarfsemi þá getum við Íslendingar bæði lært af öðrum og aðrir lært af okkur og það mundi styrkja bæði samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og Norðurlanda sem svæðis.

Sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs hafði sú sem hér stendur einnig skyldum að gegna á árinu sem fulltrúi Norðurlandaráðs út á við. Í júní sat ég sameiginlegan fund Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í Tallinn um frjálsa för vinnuafls á Eystrasaltssvæðinu og í september tók ég þátt í ráðstefnunni Copenhagen Lab of Co-existence í Kaupmannahöfn. Á henni var fjallað um leiðir til minnka togstreitu í sambúð menningarheima. En sú ráðstefna var sett upp og starf á vegum Norðurlandaráðs eftir að Múhameðsteikningarnar birtust í blaði í Danmörku og úr urðu mikil mótmæli og órói, ekki bara á Norðurlöndunum, heldur um allan heim.

Á þeirri ráðstefnu var fjallað um leiðir til að minnka togstreitu við sambúð menningarheima. Í framhaldi af því tók ég síðan þátt í umræðum á Norðurlandaráðsþinginu og lýsti yfir stuðningi við tilmæli til norrænu ráðherranefndarinnar um að setja á fót stýrihóp varðandi menningarlegan margbreytileika og stuðning við sambúð í fjölmenningarlegu samfélagi.

Herra forseti. Ég hef nú tæpt í stuttu máli á því góða starfi sem unnið var á vegum efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs á síðasta starfsári. Ég vil taka undir það sem þingmenn hafa rætt hér á undan mér um mikilvægi norræns samstarfs.

Ég hef starfað í Norðurlandaráði í sex ár og ég verð æ sannfærðari um að þetta samstarf gefi Íslendingum afar mikið. Eins og kom fram áðan þá eru 16.000 Íslendingar ýmist við vinnu eða nám á Norðurlöndunum og þetta samstarf gefur okkur gríðarlega mikið og við Íslendingar höfum líka margt fram að færa.

Ég vil við þetta tækifæri þakka Steingrími J. Sigfússyni fyrir samstarfið í nefndinni en þar hefur hann verið varaformaður minn. Ég vil einnig þakka Jesper Schwarz sem var starfsmaður nefndarinnar en hefur nú látið af störfum fyrir Norðurlandaráð. Eins vil ég þakka öllum meðlimum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir afskaplega gott og skemmtilegt samstarf og síðast en ekki síst starfsmanni okkar, Lárusi Valgarðssyni.