133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[13:30]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Landsvirkjun stefnir nú að því að byggja þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Samanlagt verða inntakslónin þrjú og um 21 ferkílómetri að stærð. Af því eru yfir 4 ferkílómetrar gróið land með bökkum árinnar utan farvegsins sem sökkva í lónin og snertir það yfir 30 jarðir í fjórum sveitarfélögum. Fyrirhugaðar framkvæmdir hafa valdið miklum deilum á meðal heimamanna, landeigenda, sumarhúsaeigenda og margra annarra Íslendinga sem láta sig virkjanir og stóriðjuframkvæmdir varða. Til dæmis var haldinn fjölmennur baráttufundur í félagsheimilinu Árnesi í Gnúpverjahreppi fyrir rúmri viku þar sem andstæðingar framkvæmdanna kynntu sjónarmið sín.

Að mínu mati er kominn tími til að staldra við, fresta stóriðjuframkvæmdum og þar með virkjunum í neðri hluta Þjórsár og freista þess að vinna sátt á milli sjónarmiða nýtingar og náttúruverndar. Hér er um að ræða virkjanir í byggð og vakna því eðlilega spurningar um pólitískt og siðlegt réttmæti þess að taka lönd fólks eignarnámi vegna virkjana fyrir stóriðju. Þar blasir stærsta spurningin við: Rúmar eignarnámsheimild laganna um eignarnám í almannaþágu slíkan gjörning? Ég held að hún geri það ekki. Því hlýtur að vera spurt hvort það sé ekki óeðlileg valdbeiting að taka eignarlönd og heimili fólks eignarnámi til að ríkisfyrirtæki geti framleitt rafmagn fyrir stóriðju. Eignarnám er nauðvörn yfirvalda gegn einstaklingum sem vilja standa í vegi fyrir almannahagsmunum en varla verður séð að brýnir almannahagsmunir krefjist þess að slíkri hörku og pólitísku ofbeldi sé beitt gegn íbúum við Þjórsá. Jafnvel mætti leiða að því rök að það séu brýnir almannahagsmunir að ekki verði ráðist í þessar framkvæmdir í núverandi efnahagsumhverfi. Ekkert liggur á, orkuforðabúrið er ekkert að fara. Efnahagsleg rök eru andstæð nýtingu Þjórsárvirkjana eins og staðan er í dag. Það þarf að kæla hagkerfið, t.d. til að skapa rými fyrir stórátak í samgöngu- og fjarskiptamálum.

Eitt af helstu stefnumiðum Samfylkingarinnar er að styrkja stöðu náttúruverndar á Íslandi og leiða nýja sátt um verndun íslenskrar náttúru sem er okkar verðmætasta eign sem þjóðar. Eitt af því sem við leggjum til er að Alþingi taki aftur til sín ákvörðunarvaldið um hverja einustu virkjunaráætlun í stað þess að tefla sveitarfélögunum saman í stóriðjustríð um einstakar framkvæmdir. Ábyrgðin er og á að vera Alþingis. Náttúra Íslands er ekki aðeins rík af auðlindum í hefðbundnum skilningi heldur eru öræfi landsins, fljót, fossar, jöklar, hverir og dalir í öllum sínum litbrigðum og fjölbreytileika verðmæt auðlind í sjálfu sér.

Samfylkingin leggur til að frekari stóriðjuáformum verði slegið á frest. Nú eigum við sem þjóð að leggja áherslu á nýja atvinnulífið og verndun náttúruverðmæta, hátækni- og þekkingariðnað ásamt nýsköpun í ferðaþjónustu og hefðbundnu atvinnugreinunum, sjávarútvegi og landbúnaði. Af þessu tilefni óskaði ég eftir umræðu utan dagskrár um fyrirhugaðar framkvæmdir Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár við umhverfisráðherra og beini eftirfarandi spurningum til ráðherrans:

1. Telur ráðherra það eðlilega valdbeitingu og réttlætanlega út frá sjónarmiðum mannréttinda og náttúruverndar að taka eignarlönd og heimili eignarnámi til að ríkisfyrirtæki geti framleitt rafmagn til stóriðju eins og fyrirhugað er með virkjunum í neðri hluta Þjórsár?

2. Nær eignarnámsákvæði laganna að mati ráðherra yfir eignarnám í þágu stóriðju?

3. Telur ráðherra ekki í þágu þjóðarsáttar um virkjanir og náttúruvernd eðlilegast að slá öllum stóriðjuframkvæmdum á frest og þar með virkjunum í þágu stóriðju á borð við virkjanir í neðri hluta Þjórsár?

4. Mun ráðherra beita sér fyrir því að haldin verði íbúakosning um virkjanirnar á meðal íbúa sveitarfélaganna allra sem þær taka til?