133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[13:41]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Mig langar í upphafi að fara aðeins yfir forsögu þessa máls. Það er ekki nýtt af nálinni að rætt sé um virkjanir í neðri Þjórsá eða allt frá því að Titan-félagið fór að huga að virkjunarframkvæmdum á öndverðri tuttugustu öldinni. Árið 1952 keypti ríkið vatnsréttindin af Titan-félaginu og á 95% af vatnsréttindunum í neðri Þjórsá. Þetta mál er því ekki nýtt af nálinni og ekki ástæða til að gera það að einhverju kosningamáli nú.

Þessar virkjanir eru þess eðlis að þær byggjast á miðluðu vatni, þetta eru rennslisvirkjanir sem byggjast á þeirri miðlun sem er í virkjununum fyrir ofan á Þjórsártungnasvæðinu. Samkvæmt rammaáætlun koma þessar virkjanir út í góðum flokki. Þær eru mjög hagkvæmar og þær eru kannski líkar því sem við þekkjum, heimamenn, með Sogsvirkjanirnar sem eru hliðstæðar, þær mynda uppistöðulón sem eru Úlfljótsvatn og Álftavatn sem eru í hjarta sumarbústaðabyggðar. Það er stundaður veiðibúskapur og tómstundastarf við þessi vötn og ekkert að því umhverfislega séð hvað varðar þessar virkjanir og þessi vötn. Þetta yrði mjög hliðstætt við Þjórsá. Við þurfum að huga að því hvernig reynslu við höfum af virkjunum sem þessum.

Þá má og benda á að ekki verða lagðar neinar nýjar línur, raflínur að þessum virkjunum. Rarik hefur uppi loforð um það að þrífasa í sveitunum sem eru næst virkjununum. Svo vil ég jafnframt benda á að það er mikill hugur í heimamönnum, sveitarfélögum, Samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi, að byggja upp orkufrekan iðnað á Suðurlandi og eru menn þá að tala um Þorlákshöfn hvað það varðar. Ég vil benda (Forseti hringir.) hv. frummælanda á að það er mikill áhugi og engin óeining um það hjá heimamönnum að byggja upp orkufrekan iðnað á Suðurlandi.