133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[13:48]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hentistefnufræði stjórnarandstöðunnar færist sífellt á nýrri og flóknari stig.

Á þriðjudag í síðustu viku sagði Steingrímur Jóhann Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hinn sami og mætti í morgun með geislabaug, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hafi það alveg á hreinu er ég algerlega andvígur því að ráðist verði nú í virkjanirnar í neðri Þjórsá, …“

Það eru ekki nema svona þrír, fjórir mánuðir síðan sami hv. þingmaður sagði á Alþingi, með leyfi hæstv. forseta:

„Neðri virkjanirnar í Þjórsá eru mjög hagkvæmar vegna þess að þær nýta alla miðlunina sem fyrir er ofar í Þjórsársvæðinu. Núpavirkjun og síðan Urriðafossvirkjun eru að vísu ekki án umhverfisfórna. Það þarf vissulega að fara vel yfir það, en að breyttu breytanda eru þær mjög eðlilegur virkjunarkostur áður en menn ráðast í ný og óröskuð svæði.“

Nú er hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigurðsson á harðahlaupum undan afstöðu sinni í málinu en því miður kemst hann ekki langt á flóttanum vegna þess að hann er með buxurnar niður um sig. Hann er með brækurnar niður um sig í þessu máli, hæstv. forseti. (Forseti hringir.)

Ég átta mig ekki alveg á þessari bjölluhringingu, hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni þegar hann segir í grein í Blaðinu í apríl í fyrra að vinstri stjórn með sósíalistum sem nú eru undir merkjum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sé fráleitur kostur í ljósi flestra hluta, „til að mynda ofstækis VG í stóriðjumálum og ríkisrekstri á öllum sviðum. Þar skortir allt frjálslyndi til vitræns samstarfs.“

Þetta er köld kveðja hv. þingmanns til félaga sinna í gamla Alþýðubandalaginu. En það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að það er full ástæða til að forða okkur Íslendingum frá gamla Alþýðubandalaginu, sama undir hvaða nafni og eða kennitölu þeir kjósa að starfa í dag. (Gripið fram í: Lifi kaffibandalagið!)