133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Norræna ráðherranefndin 2006.

569. mál
[14:02]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér norrænt samstarf og höfum gert síðan í morgun. Í kjölfar ræðu formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, og annarra hv. alþingismanna sem eiga sæti í Íslandsdeildinni ásamt mér og hafa gert hér góða grein fyrir því starfi sem þeir koma að í þeim nefndum sem þeir eiga sæti í í Norðurlandasamstarfinu ætla ég að gera í stuttu máli grein fyrir því starfi sem ég hef komið að í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs en samstarf á sviði umhverfismála er málaflokkur sem verður æ mikilvægari og umfangsmeiri.

Umhverfis- og auðlindanefnd fæst við málefni sem heyra undir umhverfismál, landbúnað, skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál. Í störfum umhverfis- og náttúruauðlindanefndar á starfsárinu 2006 hafa verið þrjár megináherslur: mengun í Eystrasalti, loftslagsbreytingar á norðurskautssvæðinu og orkumál.

Í málefnum Eystrasaltsins hefur nefndin einkum beint sjónum sínum að tveimur málum, annars vegar losun landbúnaðarúrgangs í Eystrasaltið sem veldur m.a. óhóflegum vexti þörunga og hins vegar losun skolpúrgangs skipa í Eystrasaltið.

Skipaður var starfshópur til að fjalla um losun landbúnaðarúrgangs og í honum eiga sæti fulltrúar frá Norðurlöndunum sem liggja að Eystrasalti ásamt öðrum löndum kringum Eystrasaltið, og hjá Norðurlandaráði voru samþykkt tilmæli til ríkisstjórna norrænu landanna um að gera úttekt á möguleikum til að gera strangari kröfur um skolplosun stærri farþegaskipa og flutningaskipa og leggja bann við skolplosun þeirra í Eystrasaltið.

Ég vil geta þess að á árinu 2005 var einnig lögð mikil áhersla á vistkerfi Eystrasaltsins og var tekið á skipaumferð um það með olíufarma. Mjög stór hluti af olíuflutningi Rússa fer einmitt um Eystrasaltið. Þar höfðu menn áhyggjur af því að ekki væri fylgst nógu vel með því að ekki færi eitthvað úrskeiðis sem mengað gæti Eystrasaltið meira en nú er. Það er mjög mikilvægt að fylgst sé með öllum skipaferðum um Eystrasaltið en Rússarnir hafa verið nokkuð tregir við að upplýsa um ferðir sinna skipa.

Ég sat ráðstefnu í Pétursborg um þessi mál og þar komu fram áhyggjuefni um auknar skipaferðir um Barentshafið og líkur á því að skipaumferð muni aukast á næstu árum með hlýnandi loftslagi sem ég mun koma inn á hér á eftir. Mengun vegna slíkra skipaflutninga gæti haft alvarleg áhrif á Ísland og hafsvæðin norður af landinu.

Þess má geta í tengslum við málefni hafsins að sú sem hér stendur tók fyrir hönd umhverfis- og náttúruauðlindanefndar þátt í annarri ráðstefnu sem var í nóvember sl., ráðstefnunni Baltic Sea Conference um umhverfismál Eystrasaltsins og var hún haldin í Helsinki. Þar komu fram mjög merkilegar niðurstöður ýmissa rannsókna um ýmsa þætti lífs við Eystrasaltið, bæði í hafinu og umhverfis það, og áhrif mengunar í Eystrasaltinu á líf fólks, einnig þá fæðu sem fólk sækir í hafið sem er náttúrlega fiskurinn. Það væri of langt mál að fara yfir þær niðurstöður og þá umræðu alla hér en þar var ýmislegt sem væri full ástæða til að gera frekar að umræðuefni.

Eins og aðrir þingmenn úr Norðurlandaráði sem hafa talað hér á undan mér, m.a. formaður Íslandsdeildarinnar og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, komu inn á í morgun hafa loftslagsbreytingar mikil áhrif á norðurslóðum samfara hækkandi meðalhita, bráðnun íss og hækkun sjávarmáls.

Ég vil í þessu sambandi minnast á orð Boga Hansens, færeyska prófessorsins sem hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í nóvember 2006, en hann segir að losun gróðurhúsalofttegunda sé stærsta tilraun sem gerð hefur verið og hún sé auk þess stjórnlaus, loftslagsbreytingarnar verði ekki stöðvaðar en það sé hægt að draga úr þeim og tíminn til athafna sé núna strax.

Á þetta höfum við bent, þingmenn í Norðurlandaráði, og ég vil minna á ítarlega grein sem sú sem hér stendur ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur birti nýverið í Morgunblaðinu um þessi mál og áherslur Norðurlandaráðs í þessum efnum. Við vitum að ef við tökum á þessu síðar verða vandamálin stærri og kostnaðurinn við þau verður meiri.

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd lagði á árinu fram tilmæli sem samþykkt voru hjá Norðurlandaráði um að sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum. Í nefndinni hefur m.a. verið fjallað um ACIA-skýrsluna sem hefur aðeins verið minnst á í þessari norrænu umfjöllun hér í morgun og hefur hún einmitt verið tekin til umræðu bæði á fundum og ráðstefnum sem umhverfis- og náttúruauðlindanefndin hefur staðið fyrir.

Auk þessa málefnis, þ.e. loftslagsbreytinganna og hlýnunarinnar, hafa orkumálin verið til umfjöllunar hjá nefndinni og þá hefur sérstaklega verið fjallað um vistvænt eldsneyti, lífeldsneyti, fyrir samgöngutæki. Umhverfis- og náttúruauðlindanefndinni hefur verð umhugað um að Norðurlönd verði í fararbroddi við notkun á þeirri tækni vegna þess að hún eykur ekki á loftslagsbreytingar af völdum gróðurhúsalofttegunda. Hún hefur atvinnuskapandi áhrif á nærsvæðum á Norðurlöndum við framleiðslu þess konar orku.

Þarna koma gróðurhúsalofttegundirnar aftur til umfjöllunar varðandi orkumálin og mig langar til að nefna það að á síðasta fundi Norðurlandaráðs, núna í janúar, voru þessi mál einnig til umræðu og þar bentu ungliðarnir á að við ættum einnig að skoða aðra leið sem væri orkusparnaður því að hann væri áhrifaríkasta leiðin til að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Það er full ástæða til að huga að því.

Bogi Hansen nefndi það einnig að við Íslendingar ættum að huga að því að nýta bíla með tvígengisvélar, tvinnbíla, og sagði að það væri leið sem við ættum að geta notað því að þeir eyða helmingi minna bensíni og búa til rafmagn um leið og maður keyrir þá og það getur maður síðan notað í akstri. Hann hvatti okkur Íslendinga til að nýta okkur þessa tækni mun meira en við gerum. Þó er ótrúlega mikið um að við notum þessa bíla hér á landi.

Varðandi vistvæna eldsneytið lagði umhverfis- og auðlindanefndin fram tillögu að tilmælum til ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar sem samþykkt var á Norðurlandaráðsþinginu í Kaupmannahöfn, en þau tilmæli fela í sér að samin verði norræn framtíðarstefna um eldsneytisdreifingu innan samgöngugeirans 2020 og samstarf um hraðari útbreiðslu lífeldsneytis, vistvæns eldsneytis, á Norðurlöndunum. Norðurlöndin gætu þannig verið aflvaki í breiðara svæðisbundnu og evrópsku samstarfi.

Í umræðunni um þessa tillögu var bent á það að margir þeirra sem eru komnir með vistvæna bíla í dag, t.d. Svíarnir, eiga í erfiðleikum með að kaupa sér eldsneyti í nágrannalöndunum vegna þess að það er ekki búið að samræma notkun, útbreiðslu og sölustaði vistvæns eldsneytis á samgöngutæki.

Virðulegi forseti. Ég hef í stuttu máli gefið þingheimi yfirlit og ágrip af helstu málum sem voru til umfjöllunar hjá umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs á starfsárinu 2006. Mikilvægi þess góða starfs sem fer fram innan þeirrar nefndar og Norðurlandaráðs sem vettvangs fyrir alþjóðlegt samstarf á sviði umhverfismála mun síst minnka á næstu árum og áratugum með hliðsjón af loftslagsbreytingum af mannavöldum og þeim miklu áhrifum sem þau munu hafa á norðurslóðum.

Við höfum komið inn á það hér og þeir hv. þingmenn sem hafa talað á undan mér hafa einmitt bent á það og þeir sem eiga sæti í Norðurskautsráðinu hafa líka verið með heilmikla umfjöllun um þann þátt mála.

Ég ætla að lokum, virðulegi forseti, að þakka hv. þingmönnum sem hafa starfað með þeirri sem hér stendur í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir mjög gott og mikilvægt samstarf. Ekki síst vil ég þakka þeim starfsmönnum sem hafa liðsinnt okkur í Íslandsdeildinni. Fyrst var það Stígur Stefánsson sem starfaði með okkur og var mjög duglegur, og ómetanlegur stuðningur af störfum hans í nefndinni. Við þeim störfum tók á síðasta ári Lárus Valgarðsson sem einnig hefur verið okkur mikil hjálparhella og er fyrirrennara sínum enginn eftirbátur hvað það varðar. Þeir eru báðir tveir alveg einstaklega hæfir og góðir starfsmenn.

Virðulegi forseti. Ég sé að tíma mínum er nánast lokið þannig að ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Formaður Íslandsdeildarinnar hefur farið yfir skýrsluna sem liggur fyrir og ætla ég því ekki að gera hana að neinu sérstöku umræðuefni hér.