133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

NATO-þingið 2006.

613. mál
[14:48]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Óhætt er að segja að starfsemi Íslandsdeildar NATO-þingsins á liðnu ári hafi markast af þeim miklu kaflaskilum sem urðu í öryggissögu Íslands. Á þessum vetri gerðist það að ameríski herinn sem hér hafði verið í krafti tvíhliða varnarsamningsins frá 1961 hvarf af landi brott samkvæmt einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar. Einnig er óhætt að segja að þetta olli því, að öllum líkindum, að Íslandsdeildin var virkari en hún hefur sennilega nokkru sinni verið áður í sögu þátttöku Íslands í NATO-þinginu. Sömuleiðis vil ég að það komi alveg skýrt fram að mikil eindrægni ríkti meðal fulltrúa Alþingis á NATO-þinginu í þessu máli. Þannig á það líka að vera, það skiptir miklu máli að fullkomin samstaða sé hjá þeim sem koma fram fyrir Íslands hönd í burðarmálum sem líta má á að séu partur af undirstöðu fullveldis okkar sem þjóðar.

Af því tilefni, frú forseti, vil ég undirstrika að ég hef verið valinn til þess trúnaðar að vera formaður í þeirri nefnd þrátt fyrir það að ég er ekki í liði stjórnarinnar heldur vonandi með öflugri andstæðingum hennar á þeim velli þar sem hún á það skilið. En ég vil taka alveg skýrt fram að við höfum komið fram sem einn maður og talað einni röddu um hið mikilvæga mál, öryggishagsmuni Íslands. Óhætt er að segja að það er reynsla mín af þátttökunni í NATO-þinginu og Þingmannasambandi Atlantshafsbandalagsins að það er kjörinn vettvangur fyrir smáþjóð eins og okkar til að koma með öflugum hætti fram sjónarmiðum okkar á því mikilvæga máli sem öryggishagsmunirnir eru. Það gerðum við líka öll svikalaust á öllum þeim fundum sem við sóttum af hálfu Alþingis. Við lögðum kapp á það á þessu ári að sækja alla þá fundi þar sem við máttum upp röddu koma og á öllum þeim fundum tókum við til máls oftar en einu sinni og notuðum hvert tækifæri á meðan samningar okkar og Bandaríkjamanna stóðu yfir til að koma á framfæri þeim viðhorfum sem samstaða hefur ríkt um meðal meginhluta alþingismanna varðandi þennan málaflokk.

Strax þegar Bandaríkjamenn tilkynntu einhliða 15. mars sl. að þeir hygðust láta varnarliðið hverfa héðan í burtu fyrir lok september 2006 hófst Íslandsdeildin handa við að nýta þau sambönd sem hún hafði í gegnum veru sína og þátttöku í þingi Atlantshafsbandalagsins til að kynna málstað Íslendinga. Við tókum málið upp í bréfaskriftum, við sendum m.a. öllum formönnum landsdeilda NATO-deildanna bréf þar sem við kynntum málstað Íslendinga og óskuðum eftir stuðningi þeirra ef á þyrfti að halda til þess að tryggja að nægilega viðunandi samningar tækjust. Við notuðum sömuleiðis alla fundi til að koma málstað okkar á framfæri í ræðum, og þegar við áttum þess kost að leggja fyrirspurnir fyrir æðstu ráðamenn, bæði ráðherra og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins gerðum við það.

Við óskuðum sömuleiðis eftir því að þegar hinn árlegi vorfundur var haldinn, að þessu sinni í París, yrði sérstök umræða utan dagskrár í þinginu í einni mikilvægustu nefnd þingsins um varnarmál Íslendinga. Rétt er frá því að greina að hvarvetna birtist mikill skilningur á málum okkar og fráfarandi forseti þingmannasambandsins, Pierre Lellouche, frakkneskur maður, gerði það sem hann gat til að hægt væri fyrir Íslendingana að koma málstað sínum fram í þeirri utandagskrárumræðu sem ég nefndi áðan. Þar bar það til tíðinda að allir þeir sem tóku þátt í umræðunni tóku undir málstað Íslendinga, ekki síst þeir vinir sem við eigum að mæta í Eystrasaltslöndunum og reyndar líka í þeim löndum Atlantshafsbandalagsins þar sem ekki er að finna hefðbundnar loftvarnir, eins og t.d. Lúxemborg og nokkrum öðrum.

Í máli þeirra þingmanna sem tóku til máls í umræðunum um öryggishagsmuni Íslands kom fram sú sterka skoðun, sem ég tel vert að komi fram hér, að nauðsynlegt væri að Atlantshafsbandalagið kæmi því í fastar og stjórnskipaðar skorður með hvaða hætti bandalagið tryggði loftvarnir þeirra ríkja innan bandalagsins sem ekki ráða sjálf fyrir hefðbundnum loftvörnum. Sérstaklega kom það fram af hálfu þeirra sem komu frá Eystrasaltsríkjunum að þeir voru mjög fýsandi þess að slíkt fyrirkomulag væri tekið upp. Það helgast auðvitað af því, frú forseti, að þau ríki sem eru nú nýgengin í Atlantshafsbandalagið hafa ekki komið sér upp flugflota sem nægir til þess að verja lofthelgi þeirra en hafa hins vegar með ákaflega hugvitsamlegum hætti náð samkomulagi við ýmis lönd innan Atlantshafsbandalagsins sem taka að sér hvert um sig tímabundið að verja lofthelgi þeirra. Þetta er fyrirkomulag sem við Íslendingar ættum að skoða nánar í framtíðinni og gæti vel verið að væri hægt að nýta þá aðstöðu sem við höfum á Keflavíkurflugvelli þar sem varnarliðið var áður til húsa og æfingaþörf flugflota hinna ýmsu ríkja Atlantshafsbandalagsins til þess að tryggja hér nægilega þéttar loftvarnir. Ég vil segja það, frú forseti, alveg fullum fetum að slíkar varnir eru hluti af því að verja fullveldi. Okkur tókst að gera það áður með samningum við Bandaríkin. Í kjölfar þess að herinn fór náðist varnarsamkomulag við Bandaríkin og ég hef áður lýst skoðun minni á því samkomulagi og ágöllum þess og ætla ekki nota þessa umræðu til að fara frekar út í þá afstöðu. Ég er ekki sammála ríkisstjórninni í því máli en ég hef gætt þess eigi að síður þegar ég hef talað sem fulltrúi Íslands á þingum Þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins, að ég hef komið á framfæri því sem er skoðun meiri hlutans hér í því máli, þó að ég hafi á stundum getið þess að gjarnan hefði ég viljað sjá það mál með öðrum hætti.

Á fundum þingmannasambandsins gefst gott tækifæri, ekki aðeins fyrir Alþingi, að öðlast mikilvæg tengsl sem í þessu máli koma okkur mjög til góða, heldur líka til að fylgjast með þróun sérstaklega í hinum viðkvæmari hlutum heims. Þessi þingmannasamtök hafa eins og mörg önnur þróast í þá veru að þar hafa menn tekið upp harðar varnir fyrir mannréttindi og lýðræðisþróun og NATO-þingið hefur hvað eftir annað látið til sín taka með harðorðum ályktunum ef einstök ríki sem eru á jaðri bandalagsins, jafnvel innan þess, eða önnur ríki hafa orðið uppvís að mannréttindabrotum. Ég nefni sem dæmi að á þingum sambandsins voru samþykktar harðorðar ályktanir einmitt um ákveðin brot sem komust upp í Hvíta-Rússlandi og í ýmsum öðrum ríkjum. Við höfum sömuleiðis á þessum þingum fjallað um mögulega stækkun Atlantshafsbandalagsins.

Ég tek þetta sérstaklega hér upp, frú forseti, vegna þess að Íslendingar voru á sínum tíma með vissum hætti brautryðjendur fyrir Eystrasaltsríkin, ekki aðeins að því er varðaði frelsun þeirra undan ægivaldi hinna föllnu Sovétríkja heldur mæltum við líka fyrir því í þessum sölum og á alþjóðlegum samkomum að þau ríki fengju aðild að Atlantshafsbandalaginu. Á þeim tíma þegar Íslendingar, við jafnaðarmenn og reyndar líka sjálfstæðismenn tókum upp þennan málstað hér á Alþingi og t.d. á Norðurlöndum átti sá málflutningur ekki alltaf miklu fylgi að fagna. Nú hins vegar blasir við að sennilega á næstu árum stendur fyrir dyrum önnur stækkunarhrina hjá Atlantshafsbandalaginu. Þó er það svo að nýlokið er stórum leiðtogafundi NATO í Ríga og ólíkt síðustu stóru leiðtogafundunum var þar hvorki tekið á móti nýjum bandalagsríkjum né var nokkrum umsóknarlöndum formlega boðið til aðildarviðræðna á fundinum í Ríga. Hins vegar var það gert uppskátt og raunar boðað að Balkanríkjunum Albaníu, Króatíu og Makedóníu yrði formlega boðið til aðildarviðræðna á næsta leiðtogafundi sem er ráðgerður vorið 2008. Ég hef látið það koma fram, frú forseti, á fundunum fyrir hönd hins íslenska Alþingis að það sé vilji okkar sem smáþjóðar og þingmanna þessarar þjóðar að það sé hlustað vel og tekið vel á móti þeim smáþjóðum ef þær kjósa sjálfar að leita skjóls í viðsjálum heimi innan þessa bandalags. Það er málflutningur sem er algjörlega í þeim anda sem við höfðum áður uppi varðandi Eystrasaltsríkin.

Sömuleiðis var á Ríga-fundunum ákveðið að bjóða þremur öðrum Balkanríkjum, Bosníu-Hersegóvínu, Serbíu og Svartfjallalandi, aðild að samstarfsáætlun í þágu friðar. Þessi áætlun sem er í þágu friðar er eins konar rammaáætlun um tvíhliða samstarf milli annars vegar NATO og hins vegar einstakra samstarfsríkja. Í rammaáætluninni er lýst ýmsum víðtækum skuldbindingum sem þau ríki sem vilja gerast aðilar að rammaáætluninni verða að hlíta. Þar ber að sjálfsögðu hæst að þau verða að gangast undir það að viðhalda lýðræðislegum stjórnarháttum, virða alþjóðalög og efna skyldur sínar samkvæmt stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingunni og öðrum alþjóðlegum samningum um afvopnun og takmörkun vopna. Á móti skuldbindur Atlantshafsbandalagið sig til þess að eiga samstarf við þau ríki um öryggis- og varnarmál. Þetta er eins konar aðfari að aðildarumsókn sem síðar er líklegt að komi upp í tilviki þessara ríkja. Tekið var sérstaklega fram, af því að ég nefni þessi þrjú ríki af því tilefni, að í yfirlýsingu fundarins var það auðvitað forsenda þess að ríki eins og Serbía og Bosnía-Hersegóvína eigi möguleika á því að tengjast Atlantshafsbandalaginu nánari böndum að þau sýni fullan samstarfsvilja við Alþjóða sakamáladómstólinn í Haag og því lýst yfir að Atlantshafsbandalagið mundi fylgjast mjög nákvæmlega með aðgerðum ríkjanna í því sambandi.

Ég vil líka geta þess að á fundi sem við erum nýlega komin af, fulltrúar Alþingis, bar á góma hugsanlega aðild Georgíu. NATO-þingið hefur áður lýst því yfir með ályktun að það styðji aðild Georgíu að sambandinu. Ég tók sem formaður nefndarinnar ákaflega sterklega undir það. Georgía er eitt af þeim ríkjum sem hafa fulla ástæðu til að ugga um framtíð sína. Landfræðilega situr það í skugga stórs og öflugs nágranna sem á síðustu árum hefur verið að láta skína heldur meira í tennurnar en í lok kalda stríðsins, þ.e. Rússland. Það er nauðsynlegt að draga fram í þessu sambandi að innan Georgíu eru tvö svæði, Suður-Ossetía og Abkazía, þar sem eru sterkar sjálfstæðishreyfingar og í Abkazíu sérstaklega hafa verið langvarandi átök hreyfingar sem hefur verið studd mjög dyggilega og vædd vopnum af Rússlandi. Þetta gerir það að verkum að það er hugsanlega erfitt að fara jafnjákvæðum höndum um umsókn Georgíu og ég tel sjálfur æskilegt. Ég tel að það skipti miklu máli að smáþjóðir eins og Ísland sem eiga allt sitt undir stuðningi annarra smáþjóða og velvild stórþjóða bregðist ekki smáþjóð eins og Georgíu á svona tímum. Ég tel að það skipti miklu máli að við styðjum óskir þeirra um að gerast fullgildir aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Ég tel að reynsla Eystrasaltsríkjanna af því skjóli sem þau fundu þar sýni alveg svart á hvítu að það er þjóð í þeirri stöðu sem Georgíumenn eru ákaflega nauðsynlegt.

Ég vil geta þess að við, allir þingmennirnir sem höfum verið virk í þessu samstarfi fyrir hönd hins íslenska Alþingis, höfum hvað eftir annað, sérstaklega hv. þm. Magnús Stefánsson sem þá var venjulegur þingmaður en er nú orðinn hæstv. félagsmálaráðherra, vonandi vegna þess að allir sem fara í gegnum þessa nefnd verði fljótlega ráðherrar á eftir, við skulum vona það, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, og líka hv. þm. Dagný Jónsdóttir, lagt ríka áherslu á það sérstaklega áður en gengið var frá varnarsamkomulaginu við Bandaríkin að nauðsynlegt væri fyrir okkur Íslendinga að hafa fulla tryggingu fyrir því að eftirlit og björgunarstörf á hafinu umhverfis Ísland væru fullkomlega tryggð. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir flutti prýðilega ræðu um þetta mál á fundi í Quebec í Kanada þar sem hún einmitt benti á þá staðreynd að hér við Ísland er líklegt að umferð um höfin norðanvert og suður úr aukist stórkostlega vegna þeirrar áherslu sem Evrópa, Evrópusambandið og einstök Evrópuríki og má segja Vesturlönd öll, leggur á það að verða sem næst því sjálfri sér næg hvað varðar öflun orku.

Auðvitað er það svo, eins og fram kom í umræðum á síðasta fundi sem við sóttum um daginn út í Brussel, að við getum ekki gert ráð fyrir að Evrópa verði nokkru sinni fullkomlega sjálfri sér næg. Hins vegar, vegna þess ástands og óöryggis sem hefur komið upp í orkumálum heimsins á síðustu árum, hafa Evrópuríkin og Evrópusambandið lagt ríka áherslu á að gengið yrði til þess að fullnýta orkulindir innan Evrópu sem menn höfðu áður annaðhvort horfið frá eða talið fullnýttar. Staðreyndin er sú að gríðarlegar hækkanir á olíuverði hafa leitt til þess að svæði sem áður var horfið frá og menn töldu að ekki svaraði kostnaði að nýta eru nú nýtanleg þannig að menn geti sótt hagnað til þess. Sömuleiðis og af sömu orsökum er það nú svo að olíusvæði sem eru á miklu dýpi og á hafsvæðum fjarri meginlöndum, mjög norðarlega, þar sem veður eru vond og válynd og öryggi þar af leiðandi lítið og hættulegt og erfitt var að sækja til áður, eru nú talin vinnanleg. Þetta eru svæði sem eru norður undir heimskauti, fyrir norðan Noreg. Á þessum svæðum er líklegt að á næsta áratug og örugglega næstu áratugum muni verða mikil olíuvinnsla. Þetta eru mestu óunnu olíulindirnar sem þekktar eru á norðurhveli jarðar í dag. Af þeim ástæðum er líklegt að umferð með olíu og gas muni stóraukast í gríðarlega stórum tankskipum um norðanvert, vestanvert og austanvert Ísland. Það skapar ákveðna hættu fyrir þjóð eins og okkar sem enn hefur miklar tekjur og hvílir á traustum stoðum í sjávarútvegi. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir, eins og flokksbróðir hennar, núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, lögðu sterka áherslu á að nauðsynlegt væri að þetta yrði tekið inn í þann reikning þegar menn véluðu um öryggismál á norðurhveli.

Þetta er mjög í þeim anda sem menn hafa talað í þinginu og rétt að rifja það upp að þegar varnarsamkomulagið við Bandaríkin var gert var það einmitt lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að efnt skyldi til þess að Ísland gæti gengið inn í sérstakan samstarfssamning þjóða eins og Kanada, Ameríkumanna, Breta og reyndar fleiri um slíkt björgunar- og eftirlitsstarf í norðurhöfum. Þetta er það sem við höfum lagt mikla áherslu á og skiptir gríðarlega miklu máli þegar menn huga að öryggi Íslands í framtíðinni. Í samstarfi af þessu tagi opnast augu þeirra sem koma frá smáþjóðum eins og okkur þar sem ekki eru hefðbundnir herir fyrir því hversu flókin öryggismálin geta verið í ýmsum þeim heimshlutum þar sem viðsjár eru. Við Íslendingar höfum á síðustu árum með nokkurri ánægju, flest okkar að ég held, tekið þátt í uppbyggingarstarfi í Afganistan. Eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði hér í umræðu um friðargæslu um daginn þá höfum lært af reynslunni og reynslan af starfi okkar í Afganistan hefur leitt til þess að við höfum, Íslendingar, lagt ríkari áherslu á borgaraleg mannúðarstörf en kannski minni á þess konar störf sem krefjast þess að menn séu væddir vopnum og jafnvel gráir fyrir þeim á stundum.

Það er athyglisvert að fylgjast með umræðum á þingum Atlantshafsbandalagsþingmannasamtakanna þar sem menn eru komnir beint frá þessum átakasvæðum og greina frá því með hvaða hætti hlutirnir eru að þróast. Við Íslendingar höfum t.d. heyrt það í fjölmiðlum allra síðustu daga og um langt skeið að Íranir séu þjóð sem bjóði mjög hættu og öryggi ýmissa annarra þjóða heim. Vísast má færa sterk rök fyrir því og vísa ég þá til meintrar kjarnorkuvopnavæðingar Írana en það er athyglisvert að t.d. í landi eins og Afganistan gegna Íranir veigamiklu hlutverki við það að stilla til friðar. Fyrir nokkrum dögum hlustaði ég á yfirmann Sameinuðu þjóðanna í Afganistan lýsa því að líkast til væru Íranir sú þjóð sem næst gengi, eins og hann orðaði það, Bandaríkjunum í því að koma á friði í landinu. Þetta þótti Íslendingi, sem er vanur fréttaflutningi hinna vestrænu miðla af Íran, töluvert önnur latína en sú sem tuggin er hér jafnan. Þetta á sér líka ákveðnar ástæður, það eru mismunandi trúarbrögð sem valda þessu.

Sömuleiðis var fróðlegt að heyra menn sem hafa verið á blóðvellinum miðjum lýsa því að sú þjóð sem harðast virðist ganga gegn því að hægt sé að afvopna ýmiss konar skæruliðasamtök í Afganistan er sú þjóð sem a.m.k. Bandaríkjamenn líta mjög oft á sem eina af sínum helstu vinaþjóðum, þ.e. Pakistan. Í ljós kemur þegar menn skoða þessi mál að t.d. bara á síðasta ári, eins og við höfum heyrt í fréttum, voru gerðar 157 sjálfsmorðsárásir í Afganistan sem leiddu til gríðarlegs mannfalls. Þetta voru nýmæli því að sjálfsmorðsárásir hafa ekki verið hluti af átakahefðinni á þessu svæði. Hver sjálfsmorðsárás er nákvæmlega undirbúin og skipulögð og er gríðarlega kostnaðarfrek, er talin kosta 150–200 þús. dollara. Árásirnar sem þarna hafa verið kortlagðar hafa kostað á bilinu 30–50 millj. dollara. Þær eru skipulagðar og fjármagnaðar handan landamæranna í Pakistan, í Suður-Vasiristan, þar sem pakistönsk stjórnvöld hafa a.m.k. á ekki borði gripið til nægilegra gagnráðstafana til þess að kveða þessa gerninga niður þó að þau hafi gert það í orði. Ég nefni þetta í lok ræðu minnar til að upplýsa aðeins um það hvað það getur verið fróðlegt og veitt nýja og merkilega innsýn í gang heimsmálanna í hinum fjarlægari hlutum þar sem viðsjár eru miklar fyrir fólk eins og okkur sem komum langt að.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar og skýrsluflutnings, frú forseti, hefur ríkt mikil eindrægni meðal þeirra þingmanna, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu, sem setið hafa á palli fyrir hið íslenska Alþingi innan þessara samtaka. Ég vil sérstaklega þakka félögum mínum í nefndinni fyrir gott samstarf, hv. þingmönnum Dagnýju Jónsdóttur og Einari Oddi Kristjánssyni, varaformanni nefndarinnar, og sömuleiðis hæstv. núverandi félagsmálaráðherra, Magnúsi Stefánssyni, sem tók mjög virkan þátt í nefndinni áður en hann upphófst til þeirrar fremdar sem yfir honum hvílir nú. Sömuleiðis vil ég þakka starfsmanni nefndarinnar, Stíg Stefánssyni, fyrir ákaflega góðan undirbúning og mikla hjálp og liðsinni við starf nefndarinnar. Hann tók við af Andra Lútherssyni sem nú er fjarri góðu gamni og syrgður mjög en má þar segja að ekki hafi mátt á milli sjá hvor væri öflugri.