133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Evrópuráðsþingið 2006.

551. mál
[15:13]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hefur í 28. sinn lagt skýrslu fyrir Alþingi. Skýrslan er viðamikil og fjallar um störf Íslandsdeildarinnar og Evrópuráðsþingsins á starfsárinu 2006 og hana er að finna á þskj. 822. Ég vil fylgja þessari skýrslu úr hlaði með nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi vil ég geta þess, hv. þingmönnum til upprifjunar, að hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um hugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið fyrir sig samningum og bindandi fjölþjóðasáttmálum á ýmsum sviðum.

Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem samþykktir hafa verið hafa haft víðtæk áhrif í allri álfunni. Fjölmargir sáttmálar á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru taldir mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræðisfyrirkomulagi og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og -samtök. Þar ber auðvitað hæst mannréttindasáttmála Evrópu.

Aðildarríkjum Evrópuráðsins hefur fjölgað mjög á síðustu árum í kjölfar þeirra umbrota sem hafa átt sér stað í austurhluta álfunnar og hefur ráðið beitt sér mjög í því skyni að efla lýðræðisþróun og virðingu fyrir mannréttindum innan hinna nýju ríkja.

Evrópuráðsþingið er nú vettvangur fulltrúa þjóðþinga 46 aðildarríkja og gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi ráðsins enda er þingið nokkurs konar hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu koma saman fjórum sinnum á ári 315 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa fimm flokkahópar og mikilvægi þingsins felst einkum í þrem þáttum, í fyrsta lagi að eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum og tilmælum til ráðherranefndarinnar, í öðru lagi að hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir og loks að vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinganna.

Starfsemi Evrópuráðsþingsins var víðfeðm á árinu 2006 og málaflokkarnir sem til umræðu voru á þinginu sjálfu og í nefndum þess fjölmargir. Hér er ekki tóm til að fjalla ítarlega um einstaka fundi Evrópuráðsþingsins og öll þau mál sem þar var um fjallað. Vil ég í því sambandi fyrst og fremst vísa til umfjöllunar í skýrslunni sem lögð hefur verið fyrir þingið.

Það eru þó nokkur mál sem ég vil nefna sem komu til kasta Evrópuráðsþingsins á síðasta ári, einkum þrjú málefni sem hafa vakið athygli og verið með nokkrum hætti í brennidepli fjölmiðla. Þau tengjast öll, hvert með sínum hætti, því grundvallarhlutverki Evrópuráðsþingsins að standa vörð um hugsjónir aðildarríkjanna um lýðræði, mannréttindi og réttarríki.

Í fyrsta lagi er rétt að geta þess að á vettvangi Evrópuráðsþingsins var ítarlega fjallað um fangaflutninga og leynileg fangelsi í Evrópu sem bandaríska leyniþjónustan CIA bar ábyrgð á. Það er óhætt að segja að það hafi vakið mesta athygli af þeim málum sem komu til kasta Evrópuráðsþingsins á árinu. Það var Evrópuráðsþingið sem brást fyrst alþjóðastofnana við fréttum í fjölmiðlum af ólöglegum fangaflutningum og leynifangelsum í lögsögu Evrópuríkja og hóf eigin rannsókn á málinu í desember 2005.

Svissneski öldungadeildarþingmaðurinn Dick Marty stjórnaði rannsókninni, þ.e. þeirri nefnd sem hafði rannsóknina með höndum, en samkvæmt niðurstöðum hennar höfðu einstaklingar verið handteknir innan Evrópu að frumkvæði bandarísku leyniþjónustunnar án dóms og laga og verið fluttir með borgaralegum flugvélum milli Evrópulanda eða til ríkja utan álfunnar. Fram kom að föngunum hefði verið haldið í leynilegum fangelsum, jafnvel í einhverjum ríkjum þar sem vitað er að pyndingar hafa viðgengist. Þessar handtökur og fangaflutningar virtust hafa farið fram með vitund eða samvinnu einhverra öryggisstofnana í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Tilgangur þessarar rannsóknar var hvorki að fordæma né sakfella aðila í málinu, heldur upplýsa með það fyrir augum að koma í veg fyrir að svipuð starfsemi gæti átt sér stað í framtíðinni. Fangaflugsmálið og rannsókn þess er skýrt dæmi um það hvers Evrópuráðsþingið getur verið megnugt þótt möguleikar þess fjárhagslegir og varðandi starfsafla séu auðvitað takmarkaðir. En þarna tók Evrópuráðsþingið frumkvæði í erfiðu máli og aðrar alþjóðlegar stofnanir hafa svo fylgt á eftir. Í því sambandi má benda á að Evrópuþingið, þ.e. þing Evrópusambandsins, samþykkti í síðustu viku skýrslu um fangaflugið þar sem ríkisstjórnir 14 ESB-ríkja eru gagnrýndar fyrir að hafa haft samstarf eða vitund um þessa fangaflutninga.

Annað mál sem sérstaklega var í brennidepli á starfsárinu voru hinar miklu deilur og átök sem brutust út í kjölfar birtingar danska dagblaðsins Jótlandspóstsins á skopmyndum af Múhameð spámanni. Kjarni deilunnar snerist um mörk tjáningarfrelsis og virðingu fyrir trúarbrögðum en þessar myndbirtingar ollu sem kunnugt er mjög hörðum viðbrögðum í ríkjum múslima og meðal múslima í Evrópu.

Evrópuráðsþingið hvatti til umburðarlyndis og virðingar gagnvart trúarbrögðum en áréttaði að ekki mætti setja hömlur á tjáningarfrelsi, enda væri það óvefengjanlegur grundvallarréttur. Evrópuráðið hefur áður lagt til vettvang og efnt til funda trúarleiðtoga frá ólíkum trúarbrögðum til að ýta undir samræður og skilning milli menningarheima. Í ljósi skopmyndadeilunnar og þróunar að öðru leyti má ætla að þessi þáttur í starfseminni muni aukast.

Þriðja málið sem ég ætla að nefna frá árinu 2006 sem kom ítrekað til umræðu á vettvangi Evrópuráðsþingsins er ný stofnun Evrópusambandsins á sviði mannréttindamála, svokölluð Stofnun ESB um grundvallarréttindi sem á enskri tungu er nefnd „Agency of Fundamental Rights“, sem mun hafa tekið til starfa í Vín í byrjun þessa árs. Þessi stofnun er reist á grunni miðstöðvar ESB gegn kynþáttahatri sem starfað hefur í Vín um árabil. Þingmenn á Evrópuráðsþinginu hafa lýst áhyggjum sínum af því að ESB sé með stofnuninni að seilast inn á kjarnastarfssvið Evrópuráðsins, þ.e. svið mannréttindamála. Margir hafa ekki séð tilganginn í því að hafa tvær stórar evrópskar stofnanir starfandi á þessu sviði og bent á að það kynni að hafa í för með sér óhagræði í formi tvíverknaðar og hugsanlega samkeppni milli þessara stofnana.

Því er ekki að leyna að á vettvangi Evrópuráðsþingsins hafa ýmsir þingmenn haft áhyggjur fyrir hönd Evrópuráðsins og telja að að því kunni að verða þrengt með þessari stofnanauppbyggingu ESB. Þess má geta að á vettvangi ESB er ekkert, eða virðist lítið, til þessarar starfsemi sparað. Hin nýja stofnun á að fá hærri fjárveitingar en öll starfsemi Evrópuráðsins á hverju ári þannig að áhersla aðildarríkja ESB sem jafnframt eiga aðild að Evrópuráðinu hefur auðvitað verið umdeild, að ríkisstjórnir þessara landa skuli vera tilbúnar að leggja verulega fjármuni í þessa nýju stofnun en hafi hins vegar haldið að sér höndum varðandi framlög til Evrópuráðsins og stofnana þess. Þetta atriði hefur verið umdeilt og um það hafa verið skiptar skoðanir. Niðurstaðan má segja að sé á þá leið að allir málsaðilar hafi lagt á það áherslu að það sé mikilvægt að á milli stofnananna verði skýr verkaskipting, einkum með þeim hætti að hin nýja stofnun ESB einbeiti sér að þeim sviðum mannréttindamála sem falla undir sameiginlega löggjöf Evrópusambandsins, en Evrópuráðið hafi aðra þætti með höndum.

Það er nauðsynlegt að hafa í huga í þessu sambandi að Evrópuráðið hefur allt frá stofnun sinni verið sameiginlegur vettvangur Evrópuríkja til þess að standa vörð um mannréttindi og lýðræði og á þannig áratuga sögu á þessu sviði, hefur með höndum margvíslegt starf sem lýtur að þessu, ekki síst starf mannréttindadómstólsins sem þegar hefur fyrir löngu sannað gildi sitt.

Það má líka nefna að aðildarríki ráðsins eru talsvert fleiri en aðildarríki Evrópusambandsins, og Evrópuráðið hefur þannig mun víðari skírskotun í álfunni en ESB.

Fleiri þætti mætti nefna sem komið hafa til umræðu á vettvangi Evrópuráðsins en ég læt nægja að öðru leyti að vísa til þeirrar skýrslu sem hér hefur verið lögð fram.

Varðandi starf Íslandsdeildarinnar vil ég geta þess að hún tók að venju virkan þátt í störfum Evrópuráðsþingsins og þingmenn sóttu héðan nefndafundi í þeim nefndum sem þeir eiga aðild að. Í skýrslunni er að finna greinargóða lýsingu á þinginu og þátttöku Íslandsdeildar en mér finnst samt ástæða til að nefna sérstaklega hér að í tengslum við janúarfund Evrópuráðsþingsins í fyrra efndi Íslandsdeildin ásamt heilbrigðisráðuneytinu og í samstarfi við Auði Guðjónsdóttur hjúkrunarfræðing til kynningar á mænuskaðaverkefni sem unnið hefur verið á vegum íslenskra heilbrigðisyfirvalda og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Þessi kynning fór fram í Evrópuhöllinni í Strassborg meðan á þingfundum stóð. Fjöldi evrópskra þingmanna, embættismanna og stjórnarerindreka sótti þessa kynningu, hlustaði á ávörp og horfði á heimildarmyndina „Hvert örstutt spor“ þar sem m.a. er lýst eftir þekkingu fagfólks um allan heim og upplýsingum um meðhöndlun á fólki sem hlotið hefur mænuskaða. Fram kom að alþjóðlegur gagnabanki á þessu sviði er í undirbúningi og þar stendur til að safna saman margvíslegum upplýsingum um mænuskaða sem verða öllum aðgengilegar, bæði fagfólki og almenningi.

Auður Guðjónsdóttir hefur um árabil verið hvatamaður að því að kynna málefni þeirra sem hlotið hafa mænuskaða og barist fyrir stofnun alþjóðlegs gagnabanka á þessu sviði. Mat mitt er að kynningin hafi heppnast afar vel og vakið mikla athygli og jákvæð viðbrögð þeirra sem hana sóttu.

Á undanförnum árum hefur verið lögð ríkari áhersla á alþjóðlegt samstarf af hálfu okkar Íslendinga en áður og segja má að öllum megi vera ljóst að það skiptir verulegu máli vegna þeirra breytinga sem átt hafa sér stað á alþjóðlegum vettvangi og í samfélagi þjóðanna.

Fundir nefnda Evrópuráðsþingsins eru fjölmargir á hverju ári. Á þinginu starfa alls 10 málefnanefndir og 24 undirnefndir þeirra. Nefndirnar koma saman til funda í tengslum við þessi ársfjórðungslegu þing Evrópuráðsþingsins í Strassborg en auk þess efna nefndirnar reglulega til funda utan þess tíma sem þingið sjálft er að störfum.

Það liggur í augum uppi að þingmenn í Íslandsdeildinni eiga þess ekki kost að sækja alla þá nefndafundi sem boðið er upp á vegna tíma og hugsanlegra fjarvista. Ég rifja það upp að fjöldi í einstökum landsdeildum ræðst að nokkru leyti af stærð ríkja þannig að við Íslendingar erum fáliðuð á þessum vettvangi og verðum að dreifa okkur víða.

Það má segja að í dag skipti þingmenn Íslandsdeildarinnar með sér verkum í mjög góðri sátt. Starfar hver í nokkrum nefndum þingsins en eðli málsins samkvæmt einbeita menn sér að mismunandi málaflokkum og leggja mismikla áherslu á störf í þeim nefndum sem þeir eiga sæti í.

Af hálfu Íslandsdeildarinnar voru á árinu 2006 sóttir fjórir nefndafundir utan hefðbundinna þingfunda Evrópuráðsins en að jafnaði má segja að Íslandsdeildarmenn hafi sótt fundi í flestum nefndum þingsins meðan á þingfundum stóð.

Aðalmenn í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins voru mestan hluta síðasta árs þau Margrét Frímannsdóttir Samfylkingunni og Kristinn H. Gunnarsson Framsóknarflokki auk þess sem hér stendur.

Nokkrar breytingar urðu innan ársins á skipan aðal- og varamanna í Íslandsdeildinni og eins varðandi skipan Íslandsdeildarmanna í nefndir Evrópuráðsþingsins en ég vísa til skýrslunnar nánar um það efni.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka Íslandsdeildarmönnum gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi sem og starfsfólki fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu sem hefur verið þingmannanefndinni innan handar um margvíslega hluti og eins starfsmönnum alþjóðasviðs Alþingis sem aðstoðað hafa okkur í þessu starfi. Einkum vil ég geta Stígs Stefánssonar sem nú gegnir starfi ritara Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.