133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Evrópuráðsþingið 2006.

551. mál
[15:43]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir hlý orð í minn garð og endurgeld þau með því að þakka henni sérstaklega fyrir starf hennar á þessum vettvangi á undanförnum árum. Fram kom í ræðu hennar að hún hóf fyrst störf að málefnum Evrópuráðsins á vettvangi Alþingis 1996 og hefur sinnt því síðan með hléum. Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að Margrét hefur verið afar öflugur fulltrúi okkar á þessum vettvangi og lagt mjög margt gott þar til málanna. Persónulega vil ég þakka henni fyrir afar ánægjulegt samstarf á þessu sviði.

Í tilefni af nokkrum atriðum sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir nefndi tek ég að nokkru leyti undir vangaveltur hennar um vægi Evrópuráðsþingsins í alþjóðastarfi þingsins. Án þess að ég vilji fara út í beinan samanburð við hið norræna samstarf tel ég alveg ótvírætt að samstarfið á vettvangi Evrópuráðsþingsins sé afar mikilvægt fyrir okkur. Gagnið sem við höfum af því er margvíslegt. Þarna er um að ræða stóran vettvang 46 Evrópuþjóða sem á margan hátt búa við mjög ólíkar aðstæður, ólík vandamál og ólíka stöðu að ýmsu leyti. Þingið og nefndir þess eru mjög góður vettvangur til að kynnast sjónarmiðum fólks frá þessum ríkjum og ánægjulegt að fylgjast með því hve oft tekst að leiða ágreiningsmál til lykta með góðri samvinnu og sáttfýsi á þessum vettvangi, sem er afar mikilvægt. Allir starfa að því markmiði að efla mannréttindi, lýðræði og framfarir í þessum löndum. Menn geta vissulega haft mismunandi skoðanir um leiðirnar en allir þeir sem taka þátt í starfinu starfa undir þeim formerkjum. Þess vegna er oftar en ekki ágæt sátt um meginmarkmiðin og meginverkefnin þó að skiptar skoðanir kunni að vera um útfærsluna í einstökum tilvikum.

Niðurstöður Evrópuráðsþingsins eru mikilvægar. Þær eru oft, eins og ég gat um áðan, í formi tilmæla til ríkisstjórna aðildarlandanna. Niðurstöður Evrópuráðsþingsins eru ekki bindandi fyrir aðildarríkin. Hins vegar er ljóst að þar með er búið að marka ákveðna stefnu sem má segja að ríkisstjórnum aðildarríkjanna sé falið að vinna eftir. Það er auðvitað rétt sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir nefndi, það kemur í hlut okkar þingmanna að fylgja því eftir, hver á sínum vettvangi í sínu þjóðþingi, að ályktununum sé hrint í framkvæmd, komið í lög eða þær framkvæmdar með öðrum hætti eftir því sem við á hverju sinni. Þannig má segja að innan Evrópuráðsins og á vettvangi Evrópuráðsþingsins verði til vísir að ýmsu sem síðar verður lagasetning í aðildarlöndunum, t.d. hér hjá okkur. Mikilvægt er að eiga aðild að þeim vettvangi þar sem þær umræður fara fram sem síðan hugsanlega leiða til tilmæla eða ályktana sem með tímanum verða færðar í lög. Það er mikilvægt fyrir okkur að leggja okkar fram í þessu og jafnframt að kynnast sjónarmiðum annarra. Hagsmunirnir sem við höfum af þessu eru skýrir að þessu leyti. Hins vegar legg ég ekki síður áherslu á að þjóð eins og okkar sem býr við það lán að hér hafa lýðræði, mannréttindi og meginreglur réttarríkisins trausta stöðu getur auðvitað líka lagt mikið af mörkum í alþjóðlegu samstarfi af þessu tagi.

Ég gat þess áðan að fjöldi aðildarríkja Evrópuráðsins hefur vaxið mjög mikið á síðustu árum. Ný ríki í austanverðri álfunni og Mið-Evrópu hafa verið að bætast við, sum hafa nýlega fengið sjálfstæði eða hafa nýlega gengið í gegnum mjög miklar stjórnskipulegar breytingar. Lýðræðishefð er mjög takmörkuð þar víða. Sannast sagna er víða í þessum löndum skilningur á mannréttindum og mannréttindahugtökum ekki sá sami og okkar. Það hefur verið verkefni Evrópuráðsins að aðstoða þær þjóðir við að þróa sig áfram á þessu sviði. Það kallar stundum á ákveðna árekstra. Það er rétt að taka undir það sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði, stundum finnst manni að Evrópuráðið mætti hvessa sig aðeins meira við aðildarríki sem láta undir höfuð leggjast að fylgja þeim reglum sem þau hafa undirgengist á þessum vettvangi. Engu að síður er í ráðinu að finna mjög mikilvægan vettvang til þess að aðstoða þau við að stíga skref í framfaraátt á þessu sviði.

Við Íslendingar getum lagt mikið af mörkum á því sviði, auðvitað eftir stærð og getu, en það má segja að fyrir okkur sé líka mikilvægt að kynnast því sem er að gerast í þeim löndum sem við höfum kannski ekki haft svo mikil kynni af, hvort sem um er að ræða fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna, fyrrum lýðveldi Júgóslavíu, önnur ríki Balkanskagans eða lönd á því svæði sem við höfum fram að þessu haft takmörkuð samskipti við en getum auðvitað byggt og eflt samskipti við til framtíðar. Samstarf á vettvangi eins og þessum, þó að það leiði ekki til lagalega bindandi niðurstöðu eða einhvers slíks, getur með mörgum hætti nýst okkur vel. Þess vegna tek ég eindregið undir orð hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um það að af hálfu Alþingis sé mikilvægt að leggja rækt við þessa starfsemi, þátttökuna í Evrópuráðsþinginu. Það verður síðan að ráðast af bæði fjármunum, eins og hv. þingmaður nefndi, en líka auðvitað tíma þingmanna. Starfið innan Evrópuráðsins krefst mikils tíma. Við þurfum að leggja á okkur lengri ferðalög en kollegar okkar frá flestum Evrópulöndum til að taka þátt í störfum nefnda og þingsins.

Engu að síður vil ég hafa lokaorð mín þau að við á hinu háa Alþingi leggjum raunverulega rækt við starfsemina og sinnum henni. Við höfum gagn af því en við höfum líka mikið fram að færa og getum lagt gott af mörkum í samstarfinu.