133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Alþjóðaþingmannasambandið 2006.

619. mál
[16:20]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2006. Skýrslan liggur fyrir sem þingskjal og mun ég tæpa á nokkrum þáttum hennar.

Íslandsdeild var í upphafi ársins 2006 skipuð þeim sem hér talar, formanni nefndarinnar, hv. þingmönnum Kristjáni L. Möller, frá þingflokki Samfylkingarinnar, og frá Framsóknarflokki Hjálmari Árnasyni, sem er varaformaður Íslandsdeildarinnar. Varamenn voru Bjarni Benediktsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Jóhann Ársælsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki framsóknarmanna. Ný Íslandsdeild var kjörin í upphafi 133. þings, þann 2. október sl., en eina breytingin sem varð á skipan hennar var að Guðjón Ólafur Jónsson tók við sem varamaður fyrir hönd þingflokks framsóknarmanna í stað Magnúsar Stefánssonar. Ritari Íslandsdeildar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs. Íslandsdeildin hélt fjóra fundi á árinu, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur undir þátttöku í þingum IPU sem er erlend skammstöfun fyrir Alþjóðaþingmannasambandið. Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar vil ég þakka Belindu frábær störf í þágu nefndarinnar og ánægjulegt samstarf.

Starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) er margþætt og vil ég draga fram þá þætti sem að mati okkar, fulltrúa Íslands á þessum vettvangi, eru mikilvægastir í starfi sambandsins. Fyrst ber að nefna að sjaldan hefur verið meiri þörf á umræðum og skoðanaskiptum á milli menningarheima. Alþjóðaþingmannasambandið er eini vettvangurinn þar sem þingmenn frá nær öllum ríkjum heims geta rætt saman, skipst á skoðunum og reynt að ná sameiginlegri niðurstöðu. Á slíkum fundum takast kynni með fólki frá ólíkum þingum og mikilvægt er að nýta vel þau tækifæri sem þar bjóðast og vinna markvisst að því að efla tengslin við þing frá fjarlægum menningarsvæðum. Ályktanir IPU eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa m.a. alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum IPU, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og nýjar hugmyndir að lausn mála.

Næst ber að nefna starf IPU til að efla lýðræði. Ljóst er að mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Þingmenn frá slíkum þingum kynnast lýðræðislegum vinnubrögðum á þingum IPU, en jafnframt vinnur sambandið mjög þarft starf á milli þinga. Námskeið eru haldin fyrir þing sem eru að feta sig áfram á lýðræðisbraut um ýmsa þætti þingstarfsins, stundum í samvinnu við viðeigandi stofnun Sameinuðu þjóðanna eða aðra alþjóðastofnun. Sem dæmi um námskeið sem haldin voru árið 2006 má nefna námsstefnu í Víetnam fyrir þjóðþing í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu um úrræði þinga á sviði barnaverndar, ráðstefnu fyrir kvenkyns þingmenn í Flóaríkjunum sem haldin var í Barein og námsstefnu fyrir þingmenn sem sitja í mannréttindanefndum sem haldin var í Genf. IPU veitir jafnframt einstökum þingum tæknilega aðstoð og þjálfun. Þá gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Þar get ég m.a. nefnt málefni eins og ofbeldi gagnvart konum. Rétt er að nefna það þar sem í næstu viku fer fram kvennaþing Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem ofbeldi gagnvart stúlkubörnum er til umræðu. Það er mjög mikilvægt fyrir lýðræðisríki að styðja vel við þá starfsemi alla sem IPU stendur fyrir.

Í þriðja lagi vill Íslandsdeildin benda á nefnd sem starfar innan IPU um mannréttindi þingmanna. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing IPU þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi lönd, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til einhver niðurstaða fæst. Sem dæmi má nefna mál Victors Gonchar, þingmanns frá Hvíta-Rússlandi, sem hvarf sporlaust fyrir sjö árum, en rannsókn málsins þykir mjög ábótavant. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar. Þessi vettvangur er afar mikilvægur til verndar mannréttindum kjörinna þingmanna þjóðþinga sem eru í ýmsum ríkjum heims útsettir fyrir mannréttindabrotum og ómannúðlegri meðferð sökum framgöngu sinnar, oft gegn ríkjandi öflum.

Alþjóðaþingmannasambandið tekur á þingum sínum hverju sinni fyrir mál sem eru á dagskrá alþjóðasamfélagsins, oft mál sem eru efst á baugi hjá Sameinuðu þjóðunum. Að venju tók hver fastanefnd þingsins fyrir eitt mál á hvoru þingi ársins 2006, þannig að ekkert eitt mál var efst á baugi. Þó má segja að hjá Íslandsdeildinni hafi eitt mál verið fyrirferðarmest. Formaður Íslandsdeildarinnar, sú sem hér talar, var valin til að skrifa skýrslu og ályktunardrög fyrir fyrstu nefndina um orkuöryggi og baráttuna gegn hryðjuverkum sem var lögð fram á haustþinginu. Meðhöfundur var þingmaður frá Suður-Afríku. Verkefnið var vandasamt og fyrir fram talið að erfitt gæti verið að ná samstöðu um þessi mál, en ég fjalla nánar um skýrsluna í nokkrum orðum á eftir.

Íslandsdeild IPU tekur þátt í samstarfi Norðurlanda á vettvangi IPU. Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Finnar í forustu á síðasta ári en í ár er Ísland með formennsku.

Á fundum IPU tekur Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins þátt í starfi Tólfplús-hópsins svokallaða sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist á fundum flesta morgna meðan þing stendur til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt er. Á þeim fundum eru jafnframt fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU valdir, m.a. í framkvæmdastjórn, stjórn IPU, kvennaráð IPU og formenn nefnda. Tveir þingmenn frá aðildarríkjum hópsins hafa seturétt á fundunum.

Þá hefur sá vettvangur fengið á sinn fund sérfræðinga um ýmis málefni, m.a. mætti fulltrúi Sameinuðu þjóðanna á fund hjá Tólfplús-hópnum síðastliðið vor til að ræða fuglaflensuna og viðbrögð ríkja við henni. Vildi hann heyra álit þingmanna á starfi Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði og hvernig einstök ríki hefðu brugðist við hættunni.

114. þing var haldið í Naíróbí í Kenía 6.–12. maí 2006. Það þing sóttu þingmennirnir Ásta Möller, Kristján L. Möller, Hjálmar Árnason og Belinda Theriault, ritari Íslandsdeildar.

115. þing IPU var haldið í Genf 15.–18. október 2006. Í forföllum þingmanna Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Jón Kristjánsson og Rannveig Guðmundsdóttir, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar. Í fyrstu nefnd um frið og alþjóðleg öryggismál var rætt um samstarf Sameinuðu þjóðanna og þjóðþinga í baráttunni gegn hryðjuverkum og fyrir orkuöryggi. Umræðan byggði m.a. á skýrslu sem sú sem hér talar hafði unnið ásamt þingmanni frá Suður-Afríku ásamt ályktunardrögum, eins og ég gat um á undan. Hún þótti vönduð og til þess fallin að gera þingmönnum auðveldara að ná samstöðu um þessi umdeildu mál. Í lokaályktun eru hryðjuverk í öllum myndum fordæmd og hryðjuverkamenn fordæmdir sem ótíndir glæpamenn. Þjóðþing eru hvött til að styðja undirbúning sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegum hryðjuverkum og að þrýsta á stjórnvöld til að ná samstöðu innan alþjóðasamfélagsins á skilgreiningu hryðjuverka. Bent er á að orkulindir og mannvirki á sviði orkumála séu í mörgum tilfellum freistandi skotmörk hryðjuverkamanna og jafnframt að orkuþörfin fari enn vaxandi í fyrirsjáanlegri framtíð. Farið er fram á frekari umfjöllun alþjóðasamfélagsins um orkumál í alþjóðlegu samhengi og tengsl orkuöryggis og hryðjuverkaógnarinnar og lögð er áhersla á aðkomu þjóðþinga að þeirri umræðu. Þjóðþing eru hvött til að setja lög sem hygla endurnýjanlegri og umhverfisvænni orku og jafnframt er hvatt til aðstoðar við þróunarríki á sviði endurnýjanlegrar orku og aðgangs að nútímalegri orkuþjónustu.

Á þingum IPU er sérstaklega haldið til haga fjölda kvenna sem tekur þátt í störfum þingsins og jafnframt er haldin nákvæm tölfræði um hlutfall karla og kvenna í þjóðþingum. Á 115. þingi IPU voru konur 30,5% þingfulltrúa, sem er betri árangur en náðist á 114. þingi sem var 28,4%. Hin síðari ár hefur hlutfallið verið tæplega þriðjungur.

Í tengslum við 50. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var í New York í mars á síðasta ári stóð Alþjóðaþingmannasambandið fyrir þingmannafundi sem bar heitið „Jafnrétti kynjanna: framlag þjóðþinga“. Sú sem hér talar og Jóhanna Sigurðardóttir sátu fundinn fyrir hönd Íslandsdeildar IPU, ásamt Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar. Jafnframt sat forseti Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, fundinn, en hún sótti jafnframt fund kvenþingforseta sem skipulagður var af IPU. Í umræðum um leiðir til að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum ræddi sú er hér talar hvernig kvennasamtök innan stjórnmálaflokka gætu hjálpað konum til áhrifa. Ég tók jafnframt þátt í umræðum um kynjakvóta og sagði frá umræðum í þeim efnum á Íslandi. Í umræðum um samstarf karla og kvenna í jafnréttisbaráttunni sagði sendinefnd Alþingis frá fæðingarorlofslögum á Íslandi.

Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) heimsótti breska þingið dagana 6.–9. júní í boði Bretlandsdeildar IPU. Í sendinefndinni voru sú sem hér talar, Kristján Möller og Arnbjörg Sveinsdóttir, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar.

Tilgangur heimsóknarinnar var að styrkja samskipti þinganna, eiga viðræður við breska þingmenn um margvísleg mál og kynna sér starfsemi breska þingsins. Sendinefndin átti viðræður við fjölda breskra þingmanna sem sýndu Íslandi mikinn áhuga. Sérstaklega höfðu breskir þingmenn áhuga á stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, útrás íslenskra fyrirtækja og fjárfestingum í Bretlandi, afstöðu Íslands til ESB, sjávarútvegsmála og umhverfismála. Auk þess kynntu íslensku þingmennirnir framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, stöðu varnarmála á Íslandi og þátttöku Íslands í friðargæslustarfi. Þau ræddu jafnframt sameiginlega hagsmuni við að koma í veg fyrir sjóræningjaveiðar á Reykjaneshrygg. Enn fremur var stjórnmálaástandið í báðum löndunum til umræðu, sem og starfshættir þinganna og starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins. Á fundum hitti sendinefndin meðal annarra Austin Mitchell sem spilaði stórt hlutverk í farsælum endi þorskastríðsins á sínum tíma, og var sérstaklega ánægjulegt að hitta þann mann sem hefur í gegnum tíðina haldið miklum tengslum við Ísland. Jafnframt átti sendinefndin fund Jim Dowd sem hefur staðið fyrir áhugaverðum rannsóknum á samkeppnisstöðu á breskum matvælamarkaði og sagði hann okkur m.a. frá vinnu sinni í þeim efnum og hvað væri fram undan. Að lokum átti nefndin fund með Sylviu Heal, varaforseta breska þingsins, en hún hafði nokkru áður heimsótt Alþingi Íslendinga. Auk þess áttum við fundi með fjölda annarra þingmanna úr báðum deildum breska þingsins.

Með þessum orðum lýk ég skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins en hún er undirrituð af þingmönnunum, auk mín sem er formaður, Hjálmari Árnasyni og Kristjáni L. Möller.